Glápari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Glápari
Glápari (Thunnus obesus)
Glápari (Thunnus obesus)
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Borrar (Perciformes)
Ætt: Makrílaætt (Scombridae)
Ættkvísl: Thunnus
Tegund:
T. obesus'

Tvínefni
Thunnus obesus
Lowe, 1839

Glápari einnig kallaður Stórauga túnfiskur (fræðiheiti: Thunnus obesus) er túnfiskur af makrílaætt. Túnfiskar eru hraðsyndir og eru til tegundir sem eru með heitara blóð en umhverfið. Hold túnfiska er rauðleitt á lit og blóðríkt sem sýnir fram á að þeir hafa mikið sundþol. Túnfiskar eru með verðmætustu fiskitegundum í heimi og hefur það valdið ofveiði á sumum stofnum.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Glápari er stór, straumlínulaga og með mjög stór augu og höfuð. Eyruggarnir geta orðið mjög stórir og náð alveg að rótum aftari bakuggans, að auki hafa þeir 13 til 14 stirtluhnúða. Glápari getur náð allt að 250 cm lengd en algengasta lengd hans er í kringum 180 cm eða eins og meðalhæð karlmanns. Hann getur náð allt að 210 kg á þyngd og um 11 ára aldri en elsti fiskurinn sem fundist hefur var 16 ára.[2]

Glápari er í öllum höfum heims þar sem er hitabeltisloftslagi, þ.e. Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi, en ekki í Miðjarðarhafi. Glápari er mikilvægur fyrir sjávarútveg víða um heim. Veiðum á tegundinni er stjórnað með góðum árangri í Vestur- og Mið-Kyrrahafi en annars staðar eru veiðarnar stjórnlitlar. Að undanskildum Vestur-Kyrrahafsþjóðum veiða margar þjóðir gláparann niður fyrir sjálfbærnimörk stofnanna. Komið hefur í ljós, þegar talið er út frá heildarstofnstærð og stærð hrygningarstofna, að stofninn hefur rýrnað um 42% á 15 ára tímabili eða frá árunum 1992-2007 og er stofninn því skráður viðkvæmur.[3] Glápari er aðeins veiddur í sjó og ekkert ræktaður í eldi.

Lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Glápari flokkast sem uppsjávarfiskur en hann getur bæði lifað á grunnsævi og rökkursævi þar sem hann finnst bæði alveg við yfirborðið og líka niðri á 250 metra dýpi. Hitastig og hitaskiladýpi virðast ráða miklu um bæði lóðrétta og lárétta dreifingu fisksins. Hitastig þess sjávar sem hann hefur fundist í nær frá 13°C upp í 29°C en talið er að ákjósanlegasta hitastigið sé frá 17°C upp í 22°C. Á hitabeltissvæðum Vestur- og Mið-Kyrrahafs ræðst þéttleiki torfa helst af árstíðum og loftslagsbreytingum sem breyta yfirborðshita og hitaskilum. Seiði og ungir fiskar eiga það til að halda sig við yfirborð sjávar þá annaðhvort einir eða í hópum og stundum með öðrum tegundum eins og gulugga túnfiskum og röndóttum túnfiskum og eiga þessir hópar til að halda til í kringum hluti sem fljóta á yfirborðinu.

Í Austur-Kyrrahafi hefur hrygning gláparans verið skráð á frá 10. breiddargráðu norður og suður að 10. breiddargráðu suður, og virðist miðbaugur vera miðgildi þegar hrygning er skráð eftir breiddargráðum. Hrygning hefur verið skráð allt árið um kring en fyrir norðan miðbaug nær hámarkið frá apríl til september og sunnan miðbaugs frá janúar til mars. Maður að nafni Kume komst að þeirri niðurstöðu árið 1967 að tenging væri á milli hitastigs og þess hversu kynferðislega virkur fiskurinn væri. Komst hann að því að fiskurinn virðist ólíklegri til þess að hrygna ef yfirborðshiti sjávarins fer niður fyrir 23°C til 24°C. Gláparinn verður kynþroska í kringum þriggja ára aldur.[4] Fiskur sem hefur náð kynþroska er talinn hrygna að minnsta kosti tvisvar á ári og er talið að í hverri hrygningu gjóti fiskurinn 2,9 milljónum til 6,3 milljónum hrogna.[5]

Fæða[breyta | breyta frumkóða]

Fæða glápara er fjölbreytileg. Fiskurinn nærist aðallega á öðrum fiskitegundum, smokkfiskum og krabbadýrum og gerir það tegundina ekki svo frábrugðna öðrum túnfiskstegundum af svipaðri stærð. Hann nærist bæði á nóttu sem degi en tvö helstu rándýr sem ógna honum sjálfum eru stórir tannhvalir og sverðfiskstegund sem finnst bæði í Kyrrahafi og Atlantshafi og nefnist seglfiskur. [6]

Markaðir, menning og afurðir[breyta | breyta frumkóða]

Sashimi

Glápari er mikilvægur í menningu Japans og Hawaii. Orðið fyrir túnfisk á Hawaii er „Ahi“ og þýðir það bæði glápari og guli túnfiskur. Gláparinn er mikilvægasti túnfiskurinn fyrir línuflotann á Hawaii, sigla þeir hátt upp í 1.500 km til þess að komast á miðin og er veiðitímabilið frá október fram í apríl. Fiskurinn er fluttur út annaðhvort hausskorinn og slægður eða í bitum en allur fiskur sem fisksalar á Hawaii selja er ferskur. Veiðimenn vilja reyna að veiða fiskinn á eins miklu dýpi og hægt er og í kaldari sjó. Þeir vilja meina að svoleiðis fiskur hafi hærri fituprósentu heldur en guluggi túnfiskurinn sem gerir hann betri. Glápari er mikið notaður í sashimi í Japan og er þar tekinn fram yfir gulugga túnfiskinn því að rauði liturinn í holdinu oxast ekki jafn hratt og verður brúnleitt eins og gengur og gerist með túnfisk þegar hann eldist og þýðir það að glápari hefur lengri hillutíma. Því geta veiðimenn sótt svo langt að þeir séu allt að 16 daga á veiðum en samt, með réttri meðhöndlun, komið með fiskinn í land í góðu ástandi. Glápari er næstvinsælasti túnfiskurinn í Japan í sashimi, á eftir bláuggatúnfisk.[7]

Veiði á glápara[breyta | breyta frumkóða]

Línuritið sýnir veiddan afla af glápara.

Samkvæmt FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna eru helstu veiðiþjóðirnar Japan, Tævan, Suður Kórea, Indónesía, Spánn, Ekvador, Frakkland, Filippseyjar, Kína og Portúgal.

Helsta veiðiþjóðin í gegnum tíðina hefur verið Japan en frá árunum 1950 til 1967 voru þeir nær einir um að veiða þennan fisk. Eftir það fóru einkum tvær þjóðir að auka veiðar sínar, Tævan og Suður Kórea. Þrjú Evrópulönd eru á listanum yfir 10 mestu veiðiþjóðirnar og eru það Spánn, Frakkland og Portúgal. Spánverjar veiða langmest Evrópuþjóða, þrátt fyrir að vera ekki að vera veiða nærri jafn mikið og Kyrrahafsþjóðirnar.

Stofn glápara rýrnaði um 42% á árunum 1992 - 2007 en eftir 1992 stækkaði stofninn á ný. Rýrnunin var tengd ofveiði og þar sem svo virðist sem veiðar fari ekki minnkandi má búast við því að frá árinu 2007 til 2013 hafi rýrnunin hafist aftur og má búast við því að stofninn muni verða í mikilli hættu ef ekkert verður aðhafst.

Íslendingar hafa veitt glápara þótt ekki hafi það verið í miklu mæli. Sem dæmi þá veiddu þeir eitt tonn árið 1999 og árið 2000 var veiðin fimm tonn. Gera má ráð fyrir því að þetta hafi verið íslensk skip að veiða í hlýjum höfum utan lögsögu Íslands.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Collette B and 30 others (2011). „Thunnus obesus“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2011. Sótt 13. janúar 2012.
  2. http://fishbase.org/Summary/speciesSummary.php?ID=146&AT=bigeye+tuna
  3. http://www.iucnredlist.org/details/21859/0
  4. http://fishbase.org/Reproduction/MaturityList.php?ID=146&GenusName=Thunnus&SpeciesName=obesus&fc=416
  5. http://fishbase.org/Summary/speciesSummary.php?ID=146&AT=bigeye+tuna
  6. http://fishbase.org/Summary/speciesSummary.php?ID=146&AT=bigeye+tuna
  7. http://www.hawaii-seafood.org/uploads/species%20pdfs/1-Hawaii%20Bigeye%20Tuna.pdf