Fara í innihald

Gissur Ísleifsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gissur Ísleifsson (biskup))

Gissur Ísleifsson (1042 - 1118) var biskup Íslands, annar í röðinni, en frá 1106 biskup í Skálholtsbiskupsdæmi því það ár var Hólabiskupsdæmi stofnað og var Jón Ögmundsson tekinn til biskups þar. Foreldrar Gissurar voru Ísleifur Gissurarson Skálholtsbiskup og Dalla Þorvaldsdóttir.

Gissur lærði á Saxlandi eins og faðir hans og var vígður prestur á unga aldri. Hann kom heim og kvæntist Steinunni Þorgrímsdóttur (f. um 1042. d. eftir 1118), sem áður hafði verið gift Þóri Skegg-Broddasyni á Hofi í Vopnafirði. Þau bjuggu þar fyrst. Gissur var mikill maður og vel bolvexti, bjarteygður og nokkuð opineygður; tígulegur í yfirbragði og manna góðgjarnastur, rammur að afli og forvitri, segir í Hungurvöku. Hann ferðaðist mikið til útlanda og þau hjón fóru bæði í suðurgöngu til Rómar. Hann var erlendis 1080, þegar faðir hans dó en kom heim sumarið eftir og var þá valinn biskup.

Gissur fór til Saxlands að taka vígslu en þá hafði erkibiskupinn þar verið sviptur embætti. Hann fór þá til Rómar á fund Gregoríusar páfa 7., sem sendi hann til Hardvigs erkibiskups í Magdeburg og þar fékk hann vígslu 1082. Hann var þá fertugur að aldri. Hann settist að í Skálholti þegar heim kom. Eftir að Dalla móðir hans lést gaf hann jörðina til biskupsstóls ásamt ýmsum öðrum eignum og mælti svo um "að þar skyldi ávallt biskupsstóll vera meðan Ísland væri byggt og kristni má haldast", eins og segir í Hungurvöku. Hann byggði líka kirkju í Skálholti og hélt þar skóla eins og faðir hans hafði gert.

Gissur var helsti frumkvöðullinn að því, að tíund yrði lögtekin á Íslandi og náðist það fram á Alþingi árið 1097. Hann lét telja búendur á landinu áður en biskupsdæminu var skipt upp 1106 og "voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil en í Rangæingafjórðungi tíu en í Breiðfirðingafjórðungi níu en í Eyfirðingafjórðungi tólf", segir í Íslendingabók.

Gissur lést í Skálholti árið 1118 eftir að hafa verið biskup í 36 ár. Hann átti son og dóttur með konu sinni og fjóra syni aðra, en aðeins einn þeirra, Böðvar, lifði þegar faðir þeirra lést og einnig lifði dóttirin Gró(a). Maður hennar var Ketill Þorsteinsson Hólabiskup. Gróa gerðist seinast nunna og dó í Skálholti eftir 1152.


Fyrirrennari:
Ísleifur Gissurarson
Skálholtsbiskup
(1082 – 1118)
Eftirmaður:
Þorlákur Runólfsson