Fara í innihald

Friðrik 3. Þýskalandskeisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Hohenzollern-ætt Keisari Þýskalands
Hohenzollern-ætt
Friðrik 3. Þýskalandskeisari
Friðrik 3.
Ríkisár 8. mars – 15. júní 1888
SkírnarnafnFriedrich Wilhelm Nikolaus Karl
Fæddur18. október 1831
 Potsdam, Prússlandi
Dáinn15. júní 1888 (56 ára)
 Potsdam, Þýskalandi
GröfFriðarkirkjan, Potsdam
Konungsfjölskyldan
Faðir Vilhjálmur 1. Þýskalandskeisari
Móðir Ágústa af Sachsen-Weimar-Eisenach
KeisaraynjaViktoría Aðalheiður keisaraynja
Börn
  • Vilhjálmur 2.
  • Karlotta, hertogaynja af Saxe-Meiningen
  • Hinrik prins
  • Sigmundur prins
  • Viktoría prinsessa
  • Valdemar prins
  • Soffía Grikklandsdrottning
  • Margrét hertogaynja af Hesse-Kassel

Friðrik 3. (18. október 1831 – 15. júní 1888) var keisari Þýskalands og konungur Prússlands í níutíu og níu daga árið 1888, „ár keisaranna þriggja“. Friedrich Wilhelm Nikolaus Karl, oft nefndur „Fritz“,[1] var einkasonur Vilhjálms 1. Þýskalandskeisara og fékk hefðbundna hermenntun eins og ættingjar sínir. Friðrik var rómaður fyrir dugnað og herkænsku í síðara Slésvíkurstríðinu, stríði Prússa og Austurríkismanna og fransk-prússneska stríðinu[2][3] en þó hafði hann óbeit á stríðsrekstri og var hrósað fyrir að koma mannúðlega fram gagnvart andstæðingum sínum í öllum átökum. Eftir sameiningu Þýskalands árið 1871 varð faðir hans, þáverandi konungur Prússlands, fyrsti keisari Þýskalands. Þegar Vilhjálmur lést, þá níræður að aldri, þann 9. mars 1888 varð Friðrik keisari, en hann hafði þá verið krónprins þýska keisaraveldisins í sautján ár og krónprins Prússlands í tuttugu og sjö ár. Friðrik þjáðist þá af krabbameini í barkakýli og lést þann 15. júní 1888 eftir misheppnaðar læknisaðgerðir.

Friðrik var kvæntur Viktoríu prinsessu, elstu dóttur Viktoríu Bretadrottningar. Hjónunum kom vel saman enda aðhylltust þau bæði frjálslyndishyggju og sóttust eftir því að gefa almúganum aukið vægi í ríkisstjórninni. Þrátt fyrir íhaldssaman og herskáan fjölskyldubakgrunn sinn hafði Friðrik tileinkað sér frjálslyndisskoðanir vegna tengsla sinna við Bretland og námsár sín í háskólanum í Bonn. Sem krónprins var hann oft á öndverðum meiði við hinn íhaldssama Otto von Bismarck Þýskalandskanslara, sérstaklega þegar kom að stefnu Bismarcks að sameiningu Þýskalands með hervaldi. Frjálslyndir Þjóðverjar og Bretar vonuðust til þess að Friðrik myndi sem keisari gera þýska keisaraveldið frjálslyndara.

Friðrik og Viktoría dáðust bæði að Albert prins, eiginmanni Viktoríu drottningar. Þau hugðust ríkja í sameiningu líkt og Albert og Viktoría og bæta úr því sem þau álitu vankanta í framkvæmdavaldinu sem Bismarck hafði skapað sjálfum sér. Embætti kanslarans, ábyrgu gagnvart keisaranum, átti að skipta út fyrir ríkisstjórn að breskri fyrirmynd, með ráðherrum sem ábyrgir yrðu gagnvart þýska ríkisþinginu. Stjórnarstefnuna áttu meðlimir ríkisstjórnarinnar að móta í sameiningu. Friðrik lýsti stjórnarskrá keisaraveldisins sem „snilldarlega hannaðri óreiðu“.[4]

Krónprinsinn og prinsessan voru sammála Frjálslynda flokknum og Bismarck var sífellt á nálum um að ef gamli keisarinn dæi—og hann var nú orðinn sjötugur—myndu þau útnefna frjálslyndan leiðtoga sem kanslara. Hann reyndi að verja sig slíkri atburðarás með því að halda krónprinsinum frá öllum áhrifum og með því að beita öllum ráðum til að gera hann óvinsælan.[5]

Vanheilsa Friðriks kom í veg fyrir að hann gæti myndað sterka stjórnmálastefnu eða náð fram þeim breytingum sem hann vildi. Þeim breytingum sem hann náði að gera var flestum snúið við af syni hans og eftirmanni, Vilhjálmi 2.

Ótímabær dauði Friðriks og stutt valdatíð hans eru mikilvæg umræðuefni meðal sagnfræðinga. Oft er litið á dauða hans sem straumhvörf í sögu Þýskalands[6] og oft er rætt um það hvort honum hefði tekist að gera Þýskaland frjálslyndara ef hann hefði lifað lengur.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. MacDonogh, Giles (2003), The Last Kaiser: The Life of Wilhelm II. London: Macmillan. Bls. 17.
  2. Kollander, Patricia (1995), Frederick III: Germany's Liberal Emperor. London: Greenwood Publishing Group. Bls. 79.
  3. The Crown Prince Frederick William of Prussia. The Illustrated London News. 20. ágúst 1870. Bls. 185.
  4. Balfour, Michael (1964). The Kaiser and his Times. Boston: Houghton Mifflin. Bls. 69
  5. Balfour, bls. 70
  6. Tipton, Frank (2003). A History of Modern Germany Since 1815. London: Continuum International Publishing Group. Bls. 175.


Fyrirrennari:
Vilhjálmur 1.
Keisari Þýskalands
(8. mars 188815. júní 1888)
Eftirmaður:
Vilhjálmur 2.