Frægðarhöllin í München
Frægðarhöllin í München og Bavaria-styttan standa í Theresienwiese í München, garðinum þar sem hið vinsæla Oktoberfest fer árlega fram. Hin tröllaukna stytta af Bavaria er 27 metra há.
Frægðarhöllin
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Lúðvík I varð konungur Bæjaralands 1825, var Napoleon fallin fyrir 10 árum síðan og friður hafði komist á í Evrópu og Bæjaralandi. Lúðvík hafði mikinn áhuga á Grikklandi og vildi gjarnan breyta München í nýja Aþenu. Hann lét reisa ýmsar byggingar í grískum stíl, en hafði fengið hugmynd að því að reisa frægðarhöll nokkru áður en hann varð konungur. Áður hafði faðir hans reist frægðarhöll í borginni Regensburg (Walhalla). Lúðvík lét búa til lista yfir helstu listamenn og aðra menn frá Bæjaralandi sem skarað hafa framúr. 1833 skipulagði hann samkeppni um hönnum frægðarhallar sem standa átti á Theresienwiese í München og átti Leo von Klenze vinningstillöguna. Frægðarhöllin var þó ekki reist fyrr en 1843-53. Húsið var opinn súlnagangur í U-formi og lágu miklar tröppur upp í höllina. Gerðar voru afsteypur af 74 einstaklingum frá Bæjaralandi og þær hengdar upp í súlnagöngunum. 1868 var 10 persónum bætt við og 1888 var afsteypa af Lúðvík konungi bætt við í tilefni af 100 ára fæðingardegi hans. Í loftárásum seinna stríðsins varð frægðarhöllin fyrir sprengjum og stórskemmdist. Höllin var látin standa sem rústir í rúma tvo áratugi. Viðgerðir fóru ekki fram fyrr en 1966 og var jafnframt ákveðið að bæta við persónum frá Bæjaralandi sem skarað hafa framúr. Höllin var endurvígð 1972, skömmu eftir að Ólympíuleikarnir þar í borg voru á enda. Árið 2000 og 2009 var persónum frá 20. öldinni bætt í frægðarhöllinni. Þannig eru persónur eins og Bertolt Brecht, Werner Heisenberg, Carl Orff og fleiri Bæjarar heiðraðir í frægðarhöllinni.
Bavaria-styttan
[breyta | breyta frumkóða]Bavaria er latneska heitið yfir Bæjaraland og er að auki tilbúin kvenpersóna sem er tákngervingur og verndarpersóna fyrir Bæjaraland. Þegar Lúðvík konungur ráðgerði að reisa frægðarhöll, var hugmyndin sú að reisa tröllaukna styttu af Bavaria þar fyrir framan. Hún var reist 1843-50 og er gerð úr bronsi. Hún var þar með fyrsta stóra bronsstyttan sem reist var síðan á fornöld. Styttan var vígð á Oktoberfest 1850, þremur árum áður en frægðarhöllin var vígð. Á þessum tíma var Maximilian II orðinn konungur Bæjaralands, en í vígslunni var Lúðvík konungur heiðraður. Styttan sjálf er 18 metra hæð og vegur rúmlega 87 tonn. En hún stendur auk þess á háum palli, þannig að styttan er alls 27 metra há. Að innan er hún hol. Þar eru 66 þrep sem hægt er að príla upp og komast á lítinn útsýnispall í höfðinu. Nasistar voru lítt hrifnir af styttunni á 4. áratugnum og ráðgerðu að fella hana og rífa frægðarhöllina með. En allar áætlanir strönduðu þegar stríðið skall á. Bavaria varð ekki fyrir sprengjum í loftárásum. Styttan var gerð upp á árunum 2001-2002.