Flateyjardalsheiði
Flateyjardalsheiði er heiðardalur á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, þar sem áður var nokkur byggð. Heiðin nær frá Fnjóskadal í suðri til Eyvindarár og Urðargils í norðri, en þar fyrir norðan er Flateyjardalur, sem heiðin dregur nafn sitt af. Áin Dalsá rennur um heiðina, en fjöll girða hana austan- og vestanmegin.
Fjallgarðurinn vestan heiðarinnar heitir ekki neitt, en meðal fjalla austan hennar má nefna Víknafjöll (sem er farið um til að komast í Náttfaravíkur), Háu-Þóru, Lágu-Þóru, tvo Bræður, tvo Stráka, Siggu, Viggu og nyrst er fjall sem heitir Hágöngur. Kinnarfjöll eru suðaustan megin á heiðinni, þar er t.d. Kambsmýrarhnjúkur. Vestan ósa Skjálfandafljóts í botni flóans er fjall sem heitir ýmist Bakrangi, Ógöngufjall eða Galti, eftir sjónarhorninu. [1]
Norðurmörk Flateyjardalsheiðar eru um Eyvindará vestan Dalsár en Urðargil austan hennar. Þar fyrir norðan var Flateyjarhreppur, en heiðin sjálf tilheyrði Hálshreppi og sóttu íbúarnir kirkju til Fnjóskadals, fyrir utan heimilismenn á Eyvindará, sem höfðu undanþágu til að sækja kirkju á Brettingsstöðum.
Eftir allri heiðinni liggur vegur (F899) sem er fær jeppum og sumum fólksbílum.
Átta eyðibýli eru á Flateyjardalsheiði:
- Eyvindará, í eyði 1872
- Ófeigsá, í eyði 1870
- Heiðarhús, í eyði 1904
- Grímsland, í eyði 1904
- Kambsmýrar, í eyði 1929
- Austari-Krókar, í eyði 1946
- Vestari-Krókar, í eyði 1935
- Þúfa, í eyði 1935
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Eyðibyggðin Geymt 19 ágúst 2007 í Wayback Machine í Fjörðum og nærsveitum, á heimasíðu ferðafélagsins Fjörðunga;
- Valgarður Egilsson: Örnefni við Eyjafjörð Geymt 18 júlí 2007 í Wayback Machine, á heimasíðu Örnefnastofnunar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Það er fjall í Kinninni fyrir norðan, sem heitir Bakrángi ef maður sér austaná það, Ógaungufjall ef maður stendur fyrir vestan það, en utanaf Skjálfanda kalla sjófarendur það Galta. (Íslandsklukkan; Halldór Laxness)