Fara í innihald

Fine Gael

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjölskylda Íra
Fine Gael
Leiðtogi Simon Harris
Varaleiðtogi Simon Coveney
Formaður Alan Dillon
Þingflokksformaður Regina Doherty
Stofnár 8. september 1933; fyrir 91 ári (1933-09-08)
Samruni eftirtalinna hreyfinga Cumann na nGaedheal, Þjóðlega miðflokksins og blástakka
Stofnendur W. T. Cosgrave, Eoin O'Duffy, Frank MacDermot
Höfuðstöðvar 51 Upper Mount Street, Dyflinni 2, D02 W924, Írlandi
Félagatal 21.000 (2017)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Hægristefna, frjálslynd íhaldsstefna, kristileg lýðræðishyggja, Evrópustefna
Einkennislitur Blár  
Neðri deild írska þingsins
Efri deild írska þingsins
Evrópuþingið
Vefsíða finegael.ie/

Fine Gael (ísl. Fjölskylda Íra[1]) er hægrisinnaður stjórnmálaflokkur í írska lýðveldinu. Frá stofnun lýðveldisins hefur Fine Gael verið annar stærsti stjórnmálaflokkur landsins ásamt Fianna Fáil, sem er einnig hægriflokkur. Munurinn á milli flokkanna tveggja þykir felast í arfleifð írsku borgarastyrjaldarinnar en Fine Gael í dag þykir jafnframt leggja meiri áherslu á efnahagslegt frjálslyndi en Fianna Fáil.

Fine Gael hefur yfirleitt myndað samsteypustjórnir til vinstri með því að starfa með írska Verkamannaflokknum. Frá árinu 2020 hafa Fine Gael og Fianna Fáil hins vegar setið saman í stjórn ásamt írska Græningjaflokknum.

Leiðtogi Fine Gael frá árinu 2024 hefur verið Simon Harris. Flokkurinn er aðili að Evrópska þjóðarflokknum.

Fine Gael rekur uppruna sinn til sjálfstæðisbaráttu Írlands undan Bretlandi og til írsku borgarastyrjaldarinnar sem háð var árin 1922 til 1923. Styrjöldin var háð milli stuðningsmanna og andstæðinga ensk-írska sáttmálans sem sjálfstæðisleiðtogar Írlands höfðu undirritað við bresk stjórnvöld undir lok írska sjálfstæðisstríðsins árið 1921. Samningurinn gerði ráð fyrir því að Írland yrði sjálfstætt fríríki en yrði áfram formlega í konungssambandi við Bretland og að írskir þingmenn yrðu áfram að sverja Bretakonungi hollustueið við embættistöku. Borgarastyrjöldinni lauk með sigri samningssinnana og með stofnun fríríkisins árið 1923.

Fine Gael var stofnað árið 1933 af stuðningsmönnum ensk-írska sáttmálans. Gjarnan er litið á Michael Collins, leiðtoga samningssinna í borgarastyrjöldinni, sem hugmyndafræðilegan föður Fine Gael-flokksins.[2] Collins var myrtur árið 1922 og átti því þó aldrei í beinum tengslum við flokkinn. Fine Gael minnist dauða Collins í ágúst á hverju ári.[3]

Fine Gael var upphaflega samruni þriggja stjórnmálahreyfinga sem sátu í stjórnarandstöðu á meðan Fianna Fáil, flokkur andstæðinga ensk-írska sáttmálans, sat við stjórn írska fríríkisins á fjórða áratugnum. Flokkarnir sem mynduðu Fine Gael voru miðhægriflokkurinn Cumann na nGaedheal og Þjóðlegi miðflokkurinn, hagsmunaflokkur írsku bændastéttarinnar. Þriðja stofnhreyfing Fine Gael voru svokallaðir blástakkar, en þeir voru fasísk sjálfboðahernaðarhreyfing svipuð svartstökkum á Ítalíu og brúnstökkum í Þýskalandi. Blástakkar höfðu áður gjarnan vaktað samkomur hinna stofnflokkanna gegn ágangi Fianna Fáil og írska lýðveldishersins.[4] John A. Costello, þingmaður Fine Gael, gekkst við samanburðinum á blástökkum við fasistahreyfingarnar á meginlandinu í ræðu sem hann hélt árið 1934 þar sem hann sagði að „blástakkarnir [myndu] sigra“. Deilt hefur verið um ræðuna æ síðan og hvort ummælin sýni fram á veruleg hugmyndafræðileg tengsl á upphafsárum Fine Gael við fasistahreyfingar.[5][6][7]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti leiðtogi Fine Gael var herforinginn Eoin O'Duffy, sem hafði áður verið leiðtogi blástakkahreyfingarinnar. Flokknum gekk ekki vel í fyrstu kosningum sínum árið 1934 og ágreiningur milli O'Duffy við aðra flokksmenn leiddi til þess að hann sagði sig úr flokknum í september sama ár.[8] W. T. Cosgrave, sem hafði áður verið leiðtogi Cumann na nGaedheal og forsætisráðherra írska fríríkisins frá 1922 til 1932, tók við af honum.

Fine Gael náði ekki að mynda eigin ríkisstjórn fyrr en árið 1948, en þá var Írland orðið sjálfstætt lýðveldi og konungssambandinu við Bretland hafði að mestu verið slitið. Í kosningum ársins 1948 mistókst Fianna Fáil að viðhalda hreinum þingmeirihluta sínum og Fine Gael gat því myndað fimm flokka samsteypustjórn ásamt Verkamannaflokknum, Clann na Poblachta, Clann na Talmhan og Þjóðlega verkamannaflokknum. John A. Costello varð fyrsti forsætisráðherra Írlands úr Fine Gael og sat í embætti til ársins 1951. Þessi stjórn Fine Gael stóð fyrir riftingu á utanríkissamningi Írlands við Bretland, sem hafði bundið Írland við bresku krúnuna í tilteknum utanríkismálum. Með þessu voru síðustu tengsl Írska lýðveldisins við Bretland og breska samveldið rofin.[9]

Upp frá því hefur Fine Gael skipst á við Fianna Fáil að leiða ríkisstjórn Írlands. Fine Gael hefur leitt stjórn ríkisins á árunum 1954–1957, 1973–1977, 1981–1982, 1982–1987, 1994–1997 og 2011–2016. Í flestum þessum stjórnum hefur Fine Gael starfað með Verkamannaflokknum og öðrum smærri þingflokkum. Árið 2011 varð Fine Gael í fyrsta sinn stærsti flokkurinn á írska þinginu eftir að Fianna Fáil galt afhroð í kjölfar alþjóðlegu efnahagskreppunnar 2008, sem kom sérlega illa niður á Írlandi. Enda Kenny varð þá forsætisráðherra Írlands í stjórnarsamstarfi Fine Gael og Verkamanna. Eftir kosningar árið 2016 töpuðu báðir stjórnarflokkarnir nokkru fylgi en Kenny myndaði þá minnihlutastjórn sem hélt velli með þingstuðningi Fianna Fáil í tilteknum málum.[10]

Kenny sagði af sér sem flokksleiðtogi árið 2017 og Leo Varadkar tók við af honum sem leiðtogi Fine Gael og forsætisráðherra Írlands. Í kosningum árið 2020 tapaði flokkurinn talsverðu fylgi og lenti í þriðja sæti á eftir Fianna Fáil og Sinn Féin.[11] Útkoma kosninganna varð því sú að Fine Gael og Fianna Fáil mynduðu stjórn saman ásamt Græna flokknum. Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil, varð forsætisráðherra en samkvæmt stjórnarsáttmálanum varð Leo Varadkar aftur forsætisráðherra á seinni hluta kjörtímabilsins.[12] Þetta er í fyrsta skipti sem flokkarnir tveir mynda stjórn saman. Varadkar sagði af sér sem flokksleiðtogi í mars 2024 og Simon Harris tók við af honum.[13]

Leiðtogar Fine Gael

[breyta | breyta frumkóða]
Simon Harris, leiðtogi Fine Gael frá 2024.

Leiðtogar Fine Gael frá stofnun flokksins hafa verið:

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Írsku kosningarnar vatn á myllu IRA?. Morgunblaðið. 4. febrúar 1982.
  2. „History of Fine Gael“. Generalmichaelcollins.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. nóvember 2010. Sótt 4. júní 2010.
  3. „Michael Collins' view of life in Achill Gaeltacht“. The Hogan Stand. 21. september 2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júlí 2008. Sótt 12. september 2020.
  4. R. M. Douglas, "Architects of the Resurrection: Ailtirí na hAiséirghe and the Fascist 'New Order' in Ireland, Manchester University Press, ISBN 0-7190-7998-5
  5. Kirk, Tim; Anthony McElligott (1999). Opposing fascism: community, authority and resistance in Europe. Cambridge University Press. bls. 91.
  6. Anonymous (1974). International solidarity with the Spanish Republic, 1936–1939. Moscow: Progress Publishers. bls. 191.
  7. McCullagh, David (2010). The Reluctant Taoiseach: A Biography of John A. Costello. Dublin: Gill & Macmillan. bls. 536. ISBN 978-0-7171-4646-8.
  8. McGarry, Fearghal (2005). Eoin O'Duffy: A Self-Made Hero. OUP Oxford. bls. 261-265. ISBN 0199276552.
  9. „Írskur uppreisnarforingi, síðar utanríkisráðherra“. Morgunblaðið. 8. ágúst 1952. Sótt 13. mars 2020.
  10. McDonald, Harry (28. febrúar 2016). „Fianna Fáil truce will allow Kenny to continue as taoiseach“. The Guardian. Sótt 6. júní 2017.
  11. Ævar Örn Jósepsson (10. janúar 2020). „Sinn Féin fékk flest atkvæði í írsku kosningunum“. RÚV. Sótt 10. janúar 2020.
  12. Atli Ísleifsson (15. júní 2020). „Martin verður næsti for­sætis­ráð­herra Ír­lands“. Vísir. Sótt 15. júní 2020.
  13. Rafn Ágúst Ragnarsson (24. mars 2024). „Simon Harris nýr leið­togi Fine Gael“. Vísir. Sótt 24. mars 2024.