Fanganýlenda
Fanganýlenda er byggð sem reist er fyrir fanga í útlegð til að einangra þá á afskekktum stað. Fanganýlendur eru oftast settar upp á eyjum eða í fjarlægum hjálendum. Orðið er oftast notað um samfélög fanga þar sem fangaverðir og alvaldir landstjórar fara með öll völd, en ekki um fangelsi, þótt það kunni að vera afskekkt.
Fanganýlendur voru í sögunni reistar í kringum hegningarvinnu fanga í stórum stíl í vanþróuðum nýlendum. Í reynd voru slíkar fanganýlendur lítið annað en þrælabúðir. Bretar, Frakkar og önnur nýlenduveldi settu gjarnan upp fanganýlendur í nýlendum sínum, stundum með eins konar vistarbandsfyrirkomulagi sem fangar gátu unnið af sér. Breskir fangar voru sendir í Chesapeake-nýlendurnar í Maryland og Virginíu í Norður-Ameríku. Slíkir fangar voru allt að fjórðungur brottfluttra frá Bretlandseyjum á 18. öld. Fylkið Georgía var upphaflega stofnað sem fanganýlenda fyrir skuldafanga. Uppreisnarmenn í uppreisnum Skota og Íra voru líka sendir til Ameríku. Eftir Frelsisstríð Bandaríkjanna hófu Bretar að senda fanga til Ástralíu, Norfolkeyju og Tasmaníu. Stríðsfangar í seinna Búastríðinu voru sendir í nauðungarvinnu til Bermúda. Á Indlandi ráku Bretar líka fanganýlendur á Andamaneyjum og Hijli.
Franskar fanganýlendur voru meðal annars Djöflaeyja (Île du Diable) í Frönsku Gvæjana, Nýja-Kaledónía og Furueyja í Kyrrahafi þangað sem pólitískir andófsmenn voru sendir.
Rússar settu upp fanganýlendur í Síberíu og á Sakalíneyju. Katorgabúðir og síðar Gúlagið voru fanganýlendur í Síberíu þar sem refsifangar voru látnir vinna þrælkunarvinnu við lagningu járnbrauta, skógarhögg og námavinnslu meðal annars.