Fara í innihald

Faktorshúsið í Hæstakaupstað

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Faktorshúsið)
Faktorshúsið í Hæstakaupstað.

Faktorshúsið í Hæstakaupstað, Ísafirði, var byggt árið 1788 af norskum kaupmönnum frá Björgvin. Húsið var í upphafi íbúðarhús verslunarstjóra en kaupmenn frá Noregi komu til Ísafjarðar eftir að einokunarverslun var lögð niður og reistu nokkur hús og starfræktu verslanir á eyrinni seint á 18. öld og snemma á þeirri 19. Á þessum tíma voru byggð þarna átta hús og er Faktorshúsið hið eina sem enn stendur uppi. Nú er rekið þar veitingahús og gistiheimili.

Faktorshúsið er á einni hæð með risi og fjórum kvistum, auk hanabjálka. Hægt er að ganga inn í húsið á tveimur stöðum, á vestur– og austurhlið. Gluggar eru á öllum hliðum hússins en bíslag (skúr) er við inngang vesturhliðar. Húsið er af svokallaðri „bolhúsagerð“, það er að segja upprunalega stærðin, sem er um það bil 75% af því sem nú er. Árið 1830 var húsið lengt um 25% og var það gert með „dönskum stíl“ sem er eins konar múrsteinshleðsla í trégrind. Í gegnum tíðina hefur húsinu verið haldið við, meðal annars hefur það verið klætt með timburklæðningu og þakið tjargað. Í byrjun 20. aldar var húsið klætt með sléttu járni og þakið með bárujárni. Eftir að verslun lagðist af á þessu svæði eyrarinnar eignaðist Ísafjarðarkaupstaður, sem nú heitir Ísafjarðarbær, húsið og því var breytt í fjölbýlishús og leigt út. Húsið stóð tómt í nokkur ár eftir að útleigu var hætt sökum slæms ástands. Endurbætur á húsinu voru gerðar á tímabilinu 1998–2001 í samráði við húsafriðunarnefnd þannig að uppruni þess fékk að njóta sín. Í húsinu er gistiheimili og veitingahús. Húsið er eitt af elstu timburhúsum á Íslandi sem enn stendur.

Faktorshúsið stendur á miðri eyrinni sem oft var kölluð Skutulsfjarðareyri. Staðsetningin var einnig kölluð Hæstikaupstaður. Sennilega er það vegna þess að á þessum stað rís eyrinn hæðst en ástæðan getur líka verið sú að neðst á eyrinni voru byggð hús, á undan þeim sem reist voru um leið og Faktorshúsið, á stað sem kallast Neðstikaupstaður. Húsaþyrpingin sem Norðmennirnir reistu í Hæstakaupstað taldi um átta hús. Þetta voru bæði verslunar, geymslu- og íbúðarhús. Öll voru húsin úr timbri og stóðu nokkuð þétt. Bryggja var reist við Hæstakaupstað og þar lágu skip kaupmannanna. Í Neðstakaupstað var fiskverkun en höfnin var í Hæstakaupstað. Kaupstaðirnir tveir tengdust um tíma með járnbrautarteinum sem flutti burðarvagna á milli staðanna. Hráefnið sem unnið var neðst á eyrinni var flutt með þessum teinum, upp eftir eyrinni, að Hæstakaupstað og í skipin sem þar lágu við höfnina og í verslanirnar sem þar voru.

Faktorshúsið var fyrst um sinn íbúðarhús fyrir norskan verslunarstjóra eftir tíma einokunnarverslunar. Verslunarstjórar sem unnu á eyrinni bjuggu til skiptis í húsinu og voru kallaðir faktorar. Þeir voru nokkrir talsins þangað til upprunalega verslunin lagðist af. Allt fram til ársins 1930 gegndi húsið hlutverki íbúðarhúss sem hluti af verslunarþyrpingu, en þá fór verslun í Hæstakauptað að minnka og síðasta búðin á svæðinu var útibú frá Nathan O. Olsen.

Eftir lokun verslunar á svæðinu voru Rafveita Ísafjarðar og Sjúkrasamlagið með skrifstofur í húsinu um stutt skeið en árið 1940 var húsið innréttað sem íbúðarhús og breytt þannig að í því rúmuðust þrjár íbúðir. Rafveita Ísafjarðar átti íbúðirnar og leigði til starfsmanna sinna sem bjuggu þar með fjölskyldur sínar, jafnvel stórfjölskyldur og því þröngt á þingi oft á tíðum í húsinu. Ísafjarðarbær eignaðist svo húsið sem stóð tómt eftir að íbúar fluttu þaðan. Húsið var orðið gamalt og þarfnaðist viðhalds þannig að ekki var unnt að búa þar lengur. Í nokkur ár var húsið nýtt í ýmsa félagsstarfsemi líkt og AA-samtökin og fleiri, en árið 1993 keyptu hjón nokkur húsið og gerðu á því miklar endurbætur og komu húsinu í upprunalegt horf með aðstoð húsafriðunarnefndar en húsið var friðað árið 1975.

Árið 2001 var veitingahúsið Faktorshúsið opnað á neðri hæð hússins en gistiheimili og lítill samkomusalur er á efri hæðinni. Á sumrin er mikið líf í húsinu og það vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem og gamalla Ísfirðinga.