Fara í innihald

Neðstikaupstaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Turnhúsið í Neðstakaupstað
Þjóðdansasýning í Neðstakaupstað

Neðstikaupstaður er minjasvæði á Ísafirði og fyrrum verslunarsvæði þar sem standa verslunarhús frá tímum Einokunarverslunarinnar. Elsta húsin er Krambúðin sem byggð var 1757. Í fyrstu höfðu kaupmenn ekki vetursetu í kaupstaðnum en árið 1764 tók Almenna verslunarfélagið við Íslandsversluninni og hafði þá vetursetumenn á öllum Vestfjarðahöfnum og kenndi saltfiskverslun en saltfiskur var eftirsótt söluvara í Evrópu og veðurlag og aðgangur að fengsælum fiskimiðum gerði Vestfirði heppilega fyrir slíka vinnslu.

Árið 1765 var byggt heilsárs íbúðarhús fyrir verslunarstjóra (faktor) og er það Faktorshúsið. Um aldamótin 1900 mun á annan tug húsa hafa staðið í Neðstakaupstað. Núna standa eftir fjögur hús en þau eru Krambúðin og Faktorshúsið og tvo pakkhús (vöruskemmur) sem eru Tjöruhúsið, byggt 1781, og Turnhúsið, byggt 1784.

Hinn 18. ágúst 1786 kunngerði Danakonungur að einokun yrði afnumin á Íslandi frá og með 1. janúar 1788. Tilskipun um sama efni var gefin út 13. júní 1787 og voru þá sett lög um verslun á Íslandi er gilda skyldu frá 1. janúar 1788. Stofnaðir voru sex kaupstaðir og var Ísafjörður einn þeirra. Hinn 24. apríl 1787 mældi Jón Arnórsson sýslumaður út lóð hins nýja kaupstaðar á Skutulsfjarðareyri. Náði hún yfir alla eyrina frá Suðurtanga að Prestabugt en takmarkaðist að ofan við línu er hugsaðist dregin 96 álnum fyrir neðan neðsta fjárhús Eyrarklerks. Haustið 1816 fékk Grundarfjörður kaupstaðarréttindi í Vesturamti í stað Ísafjarðar og var Ísafjörður úthöfn frá Grundarfirði til ársins 1836 en fékk þá löggildingu sem verslunarstaður.

Eftir verslunareinokunina rak félag danskra kaupmanna frá Altona verslunina frá 1787-1793. Þá tóku við kaupmennsku Jens Lassen Busch og Henrik Christian Paus og var verslun þeirra rekin til 1824. Matthías Wilhelm Sass keypti þá verslunina og rak hann og afkomendur hans verslun í Neðstakaupstað til ársins 1883. Á vegum verslunar Sass var fyrsta hafskipabryggja byggð á Íslandi árið 1868. Árið 1883 var verslun Sass seld Ásgeiri G. Ásgeirssyni og varð Neðstikaupstaður miðstöð Ásgeirsverslunarinnar sem þá hafði mikið umleikis. Ásgeirsverslun var rekin til ársins 1918 en þá tóku við Hinar sameinuðu íslensku verslanir tóku við verslunarrekstri. Árið 1926 urðu Hinar sameinuðu íslensku verslanir gjaldþrota og lauk þar með verslun í Neðstakaupstað.

  Þessi sögugrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.