Robert E. Lee

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Robert E. Lee
Ljósmynd tekin af Robert E. Lee árið 1864.
Fæddur19. janúar 1807
Dáinn12. október 1870 (63 ára)
StörfHermaður
MakiMary Anna Custis Lee
BörnGeorge Washington Custis Lee, William Henry Fitzhugh Lee, Robert E. Lee yngri
ForeldrarHenry Lee III & Anne Hill Carter Lee
Undirskrift

Robert Edward Lee (19. janúar 1807 – 12. október 1870) var bandarískur herforingi. Hann er frægastur fyrir að hafa verið yfirhershöfðingi herja Suðurríkjasambandsins. Hann fór fyrir Norður-Virginíuher Suðurríkjasambandsins í Þrælastríðinu frá árinu 1862 þar til hann gafst upp árið 1865. Lee var sonur hermanns úr bandaríska frelsisstríðinu og útskrifaðist með hæstu einkunn úr Hernaðarháskóla Bandaríkjanna. Hann var hátt settur og virtur hermaður í her Bandaríkjanna í 32 ár. Á þessum tíma gegndi hann herþjónustu um öll Bandaríkin og vann sér inn góðan orðstír í stríði Bandaríkjanna við Mexíkó auk þess sem hann var um hríð forstöðumaður bandaríska hernaðarháskólans.

Þegar Virginía lýsti yfir útgöngu sinni úr Bandaríkjunum í apríl árið 1861 ákvað Lee að fylgja heimafylki sínu þótt hann hafði heldur kosið að halda ríkinu saman og þótt honum hafi verið boðin góð staða hjá her sambandssinna.[1] Á fyrsta ári borgarastyrjaldarinnar var Lee helsti hernaðarráðgjafi forseta Suðurríkjasambandsins, Jeffersons Davis. Þegar hann tók forystu á vígvellinum árið 1862 sannaðist að Lee var snjall herforingi og bjó yfir mikilli herkænsku. Hann vann flestar orrustur sem hann tók þátt í, alltaf á móti miklu stærri herjum sambandssinna.[2][3] Forsjálni Lee var hins vegar ábótavant og bæði skiptin sem hann reyndi að ráðast inn á landsvæði sambandssinna var hann sigraður.[4][5][6] Á seinni árum hefur Lee verið gagnrýndur fyrir herskáar aðferðir sínar, sem kostuðu Suðurríkjasambandið fjölmörg mannslíf sem það mátti ekki við að missa.[7] Lee gafst upp ásamt öllum her sínum fyrir Ulysses S. Grant í dómshúsinu í Appomattox þann 9. apríl 1865. Þá var Lee orðinn yfirhershöfðingi allra suðurherjanna og því fylgdu allir heraflarnir sem eftir voru fordæmi Lee. Lee hafnaði tillögum um áframhaldandi mótspyrnu gegn sambandssinnum og kallaði eftir sátt milli fylkinganna tveggja.

Árið 1865, eftir stríðið, var Lee náðaður og skrifaði undir hollustueið við Bandaríkin auk þess sem hann bað um að fá aftur bandarískan ríkisborgararétt. Formgalli var á umsókn hans og því fékk hann aldrei formlega séð náðunina og ríkisborgararéttinn.[8] Árið 1865 varð Lee forseti Washington-háskóla í Lexington í Virginíu. Sem slíkur beitti hann sér fyrir því að norður- og suðurhluti Bandaríkjanna sættust á ný.[9] Lee sætti sig við afnám þrælahalds sem var tryggt með þrettánda viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna og viðurkenningu á kosningarétti og öðrum pólitískum réttindum svartra Bandaríkjamanna.[10][11][12] Lee lést árið 1870. Árið 1975 fékk hann formlegan ríkisborgararétt á ný.[8]

Lee var andsnúinn því að minnismerki yrðu reist til heiðurs uppreisn Suðurríkjasambandsins þar sem hann taldi að þau myndu strá salti í sárin sem stríðið hefði skilið eftir.[9] Þrátt fyrir það varð Lee eftir dauða sinn átrúnaðargoð þeirra sem studdu túlkunina um „glataðan málstað“ Suðurríkjasambandsins og reyndu að halda á lofti hugmyndum um yfirburði hvíta mannsins með því að sýna herforingja Suðurríkjanna í rómantísku ljósi.[9] Sagnfræðingurinn Eric Foner skrifar að um lok ævi sinnar hafi Lee verið eins konar holdgervingur málstaðs Suðurríkjanna og kynslóð síðar hafi hann orðið þjóðhetja. Um aldamót nítjándu og tuttugustu aldar óx kynþáttahyggju ásmegin í suðurríkjunum.[11] Seinna á tuttugustu öld, sérstaklega eftir Réttindabyltinguna, var Lee endurmetinn og orðstír hann beið hnekki þegar dregið var í ljós hve lítið hann hefði gert til að styðja réttindi fyrrverandi þræla. Auk þess fóru menn að efast um hernaðarsnilld hans.[11][13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Pryor, Elizabeth Brown (2008). „Robert E. Lee's 'Severest Struggle'. American Heritage.
 2. Bunting, Josiah (2004). Ulysses S. Grant. New York: Time Books. bls. 62.
 3. Jay Luvaas, "Lee and the Operational Art: The Right Place, the Right Time," Parameters: US Army War College, September 1992, Vol. 22#3 pp. 2-18
 4. McPherson, James M. (1988). Battle Cry of Freedom: the Civil War Era. New York: Oxford University Press. bls. 538, 650.
 5. Stephen W. Sears, "'We Should Assume the Aggressive': Origins of the Gettysburg Campaign," North and South: The Official Magazine of the Civil War Society, March 2002, Vol. 5#4 pp. 58–66
 6. Eicher, David J. (2001). The Longest Night: A Military History of the Civil War. New York: Simon & Schuster. bls. 462.
 7. Bonekemper, Edward (2014). Grant and Lee. Washington, D.C.: Regnery Publishing. bls. xiv.
 8. 8,0 8,1 General Robert E. Lee's Parole and Citizenship, Prologue, Spring 2005, Vol. 37, No. 1.
 9. 9,0 9,1 9,2 Simon Romero, 'The Lees Are Complex': Descendants Grapple With a Rebel General's Legacy, New York Times (August 22, 2017).
 10. John McKee Barr, Loathing Lincoln: An American Tradition from the Civil War to the Present (LSU Press, 2014), 59.
 11. 11,0 11,1 11,2 Eric Foner, The Making and the Breaking of the Legend of Robert E. Lee, New York Times (August 28, 2017).
 12. Emory M. Thomas, Robert E. Lee: A Biography (W.W. Norton: 1995), p. 382.
 13. Rosenwald, Michael S. (8. október 2017). „Analysis | The truth about Confederate Gen. Robert E. Lee: He wasn't very good at his job“. Washington Post (bandarísk enska). ISSN 0190-8286. Sótt 9. október 2017.