Fara í innihald

Eiríkur Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eiríkur Jónsson (18. mars 182230. apríl 1899) fræðimaður, varaprófastur og ritstjóri í Kaupmannahöfn. Foreldrar hans voru Jón Bergsson (1795 – 1852) og fyrri kona hans, Sigríður Eiríksdóttir eldri (1800-1847). Þau bjuggu í Stórulág í Nesjum í Hornafirði, en 1828 tók Jón prestsvígslu og fékk Einholt á Mýrum. Eiríkur lauk prófi frá Bessastaðaskóla 1846, sigldi síðan til Kaupmannahafnar og settist þar að. Hann las guðfræði og síðar málfræði við háskólann en lauk ekki lokaprófi. Hann starfaði sem styrkþegi hjá Árnasafni og varaprófastur á Garði 1873-1899. Hann var ritstjóri Skírnis árin 1863 – 1872, 1875 og 1877 – 1887. Eftir að hann lét af því starfi, sendi hann Ísafold erlendar fréttir. Eiríkur átti þátt í að gefa út Reykjabók og Hauksbók, og á yngri árum starfaði hann við söfnun til fornmálsorðabókarinnar, sem kennd er við Cleasby-Vigfússon. Síðar samdi Eiríkur sjálfur Oldnordisk Ordbog, sem kom út 1863, 856 bls. rit, og inn í eintak Árnasafns í Kaupmannahöfn skráði hann auk heldur margar viðbætur. Eiríkur missti ungur sjón á öðru auga af slysi í smiðju og finnst stundum kallaður Eiríkur eineygði. Hann var hagmæltur. Hann stofnaði 1844 bindindisfélag í Austur-Skaftafellssýslu. Hann gekk 1868 í hjónaband, kona hans Jensine Petrine Jensen (1836 – 1900).

  • Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár I, bls. 412, Reykjavík 1948.