Einar Bragi Sigurðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Bragi Sigurðsson (fæddur 7. apríl 1921 á Eskifirði, dáinn 26. mars 2005 í Reykjavík) var íslenskt skáld (tilheyrði hópi atómskálda) og þýðandi.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Einar varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1944. Sumarið 1945 kvæntist hann Kristínu Jónsdóttur frá Ærlækjarseli í Öxarfirði. Hann nam listasögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi (1945-1946) og Stokkhólmi (1950-1953). Hann stofnaði tímaritið Birting eldra 1953 og gaf það út í tvö ár. Þá var hann ábyrgðarmaður Birtings yngra 1955-1968 og ritstjóri ásamt Jóni Óskari, Thor Vilhjálmssyni og Herði Ágústssyni. Birtingur var barátturit fyrir nýjum stefnum í bókmenntum og listum og hafði meðal annars víðtæk áhrif á viðhorf manna til ljóðlistar. Bókmenntastörf Einars Braga eru mikil að vöxtum og margvísleg. Hann skrifaði í fimm bindum Eskju (Eskifirði 1971-1986), sögu heimabyggðar sinnar, sem byggir á mjög umfangsmikilli heimildaleit. Önnur þrjú bindi með sögulegum fróðleik heita Þá var öldin önnur (Reykjavík 1973-1975), efnið úr Austur-Skaftafellssýslu og Austfjörðum, að mestu leyti heimildarannsókn höfundar. Efnislega dálítið skyld er bókin Heyrt og munað (Reykjavík 1978), sem Guðmundur Eyjólfsson frá Þvottá ritaði en Einar Bragi bjó til prentunar. Eitt sögulegt rit enn heitir Hrakfallabálkurinn - Viðtöl við Plum kaupmann í Ólafsvík (Reykjavík 1982), og er að vísu ekki ritað í fræðilegum stíl en samt reist á skjalarannsóknum í Kaupmannahöfn, eins og kemur fram í eftirmála. Einnig gaf Einar Bragi út bernskuminningar sínar, Af mönnum ertu kominn (Reykjavík 1985). Þá þýddi hann nokkrar skáldsögur og fjölda leikrita. Ber þar hæst Hús Bernhörðu Alba eftir Federico Garcia Lorca og leikrit Augusts Strindbergs og leikrit Henriks Ibsens, hvors um sig í tveim bindum. Einna snarastur þáttur í ritmennsku Einars Braga er þó ljóðagerð. Hann var skeleggur baráttumaður fyrir endurnýjun formsins á 20. öld og má segja að hann hafi farið fyrir atómskáldunum svonefndu.

Einar Bragi var stöðugt að fága ljóð sín og eru síðari ljóðabækur hans strangt endurskoðað úrval þeirra fyrri. Í eftirmála við Í ljósmálinu segist hann ánægður „ef takast mætti að ljúka einu boðlegu ljóði fyrir hvert ár ævinnar. Segja má, ég hafi alltaf verið að yrkja sömu bókina…“ Og bætir síðan við í lokin: „Ég hlýt því að biðja grandvara lesendur að taka aldrei mark á öðrum ljóðabókum mínum en þeirri seinustu og reyna að týna hinum, séu þeir ekki búnir að því.“ Í ljósi þessa er eftirtektarvert að sjá að í seinustu bók hans með frumsömdum ljóðum, Ljós í augum dagsins, eru aðeins fjörutíu ljóð. Hún kom út þegar fimmtíu ár voru liðin frá útkomu þeirrar fyrstu. Einar Bragi fékkst mikið við ljóðaþýðingar, einkum á síðari árum. Er ekki síst fengur að þýðingum hans á ljóðum eftir grænlensk samtímaskáld í bókinni Sumar í fjörðum (1978) og þýðingum hans á ljóðum Sama. Hefur hann gefið út sjö bækur með þýðingum samískra bókmennta og kynnt skáldin og samíska menningu fyrir Íslendingum.

Helstu rit[breyta | breyta frumkóða]

Ljóðabækur[breyta | breyta frumkóða]

 • Eitt kvöld í júní (1950),
 • Svanur á báru (1952)
 • Gestaboð um nótt (1953)
 • Regn í maí (1957)
 • Hreintjarnir (1960) (2. útgáfa 1962)
 • Í ljósmálinu (1970)
 • Ljóð (1983) (úrval)
 • Ljós í augum dagsins (2000) (úrval).

Þýðingar[breyta | breyta frumkóða]

 • Hvísla að klettinum (1981) (ljóð og laust mál)
 • Bjartir frostdagar eftir Rauni Magga Lukkari (2001)
 • Móðir hafsins eftir Synnøve Persen (2001)
 • Kaldrifjaður félagi eftir Rose-Marie Huuva (2002)
 • Handan snæfjalla eftir Paulus Utsi (2002)
 • Víðernin í brjósti mér eftir Nils-Aslak Valkeapää (2003)
 • Undir norðurljósum – samísk ljóð (2003). Í henni eru þýðingar á ljóðum fjórtán samískra samtíðarskálda og í eftirmála hennar kemur fram að hann hafi nú þýtt ljóð þrjátíu samískra skálda auk sýnishorna „af jojktextum, þjóðsögum og ævintýrum frá fyrri öldum.“

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Kristján Eiríksson, „Til lesenda.“ Són, 3. hefti.
 • Morgunblaðið, 4., 10. og 11. apríl 2005 (minningarorð).