Daniel Ortega

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Daniel Ortega
Daniel Ortega árið 2017.
Forseti Níkaragva
Núverandi
Tók við embætti
10. janúar 2007
VaraforsetiJaime Morales Carazo (2007–2012)
Omar Halleslevens (2012–2017)
Rosario Murillo (2017–)
ForveriEnrique Bolaños
Í embætti
10. janúar 1985 – 25. apríl 1990
VaraforsetiSergio Ramírez
ForveriFrancisco Urcuyo (1979)
EftirmaðurVioleta Chamorro
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. nóvember 1945 (1945-11-11) (78 ára)
La Libertad, Níkaragva
StjórnmálaflokkurÞjóðfrelsisfylking sandínista
MakiRosario Murillo (g. 1979)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn8
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

José Daniel Ortega Saavedra (f. 11. nóvember 1945) er níkaragskur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Níkaragva frá árinu 2007. Hann var áður leiðtogi Níkaragva frá 1979 til 1990, fyrst sem foringi Þjóðviðreisnarherstjórnarinnar (Junta de Gobierno de Reconstrucción Nacional) (1979–1985) og síðan sem forseti (1985–1990). Hann er foringi í Þjóðfrelsisfylkingu Sandínista (Frente Sandinista de Liberación Nacional; FSLN) og hefur staðið fyrir ýmsum vinstrisinnuðum kerfisbreytingum í Níkaragva.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ortega er úr verkamannafjölskyldu og varð ungur mjög andsnúinn stjórn einræðisherrans Anastasio Somoza Debayle. Ortega gekk því í andspyrnuhreyfingar gegn stjórn Somoza og gerðist meðlimur í hreyfingu Sandínista árið 1963. Hann var handtekinn fyrir aðgerðir sínar árið 1967.[1] Eftir að Ortega var sleppt árið 1974 ferðaðist hann til Kúbu og hlaut þar þjálfun í skæruhernaði hjá marxískri ríkisstjórn Fidels Castro. Hann lék þaðan af lykilhlutverk í sameiningu uppreisnarhreyfinga í Níkaragva og stofnun FSLN, sem stóð fyrir fjöldauppreisnum árin 1978-1979.[2] Eftir að ríkisstjórn Somoza var steypt af stóli í byltingu árið 1979 varð Ortega leiðtogi hinnar ráðandi Þjóðviðreisnarherstjórnar. Árið 1984 var Ortega síðan kjörinn forseti í frjálsum kosningum með rúmum sextíu prósentum atkvæða.[1] Á fyrstu stjórnartíð sinni stóð Ortega fyrir umdeildum þjóðnýtingum, landeignarumbótum, endurskiptingu auðs og herferðum fyrir bættu læsi.

Samband Ortega við Bandaríkin var ávallt stirt þar sem Bandaríkjamenn höfðu stutt Somoza fyrir byltinguna.[3][4] Í fyrstu greiddu Bandaríkin Níkaragva þróunaraðstoð upp á tugi milljóna dollara eftir byltinguna[5] en samband ríkjanna versnaði mjög eftir að Sandínistar sáu vinstrisinnuðum skæruliðum í El Salvador fyrir vopnum.[6] Frá 1979 fram á tíunda áratuginn börðust Kontraskæruliðar gegn stjórn Ortega og nutu stuðnings ríkisstjórnar Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta. Loks leiddi samningstillaga Reagans og bandaríska þingforsetans Jims Wright til þess að friðarráðstefna var haldin á milli Ortega og fjögurra annarra mið-amerískra þjóðarleiðtoga í júlí 1987. Í kjölfarið voru frjálsar kosningar haldnar í Níkaragva þar sem Ortega bað ósigur fyrir Violetu Chamorro. Ortega sætti sig við niðurstöðu kosningarinnar en var áfram mikilvægur leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Í stjórnarandstöðunni mildaði Ortega stjórnmálastefnu sína og gerðist lýðræðislegur sósíalisti fremur en marx-lenínisti. Hann bætti einnig samskipti sín við kaþólsku kirkjuna með því að lýsa yfir andstöðu við lögleiðingu fóstureyðinga.

Ortega bauð sig fram í forsetakosningum árin 1996 og 2001 án árangurs en hlaut sigur árið 2006 og komst þannig aftur til valda.[7] Hann stofnaði til bandalags við aðra sósíalíska leiðtoga í Rómönsku Ameríku, þar á meðal Hugo Chávez forseta Venesúela, og gekk til liðs við Bólivaríska bandalagið fyrir Ameríkuþjóðir (ALBA).

Í apríl árið 2018 hófust fjöldamótmæli gegn stjórn Ortega vegna óvinsælla breytinga sem hann hugðist gera á lífeyriskerfi landsins.[8] Þann 19. apríl 2018 sökuðu Amnesty International og Mannréttindanefnd Ameríkuríkja Ortega um að beita ofbeldi til þess að þagga niður í mótmælendum[9][10] en ríkisstjórnarmeðlimir í Níkaragva hafa vísað ásökununum á bug. Að minnsta kosti 320 manns hafa látið lífið í átökum við níkaragska lögreglu frá því að mótmælin hófust.[8] Gagnrýnendur Ortega saka hann m.a. um að brjóta niður skiptingu ríkisvaldsins í Níkaragva og um að traðka á mannréttindum á sama hátt og forveri hans, einræðisherrann Somoza, gerði.[11]

Ortega lét handtaka fjölda stjórnarandstæðinga sem þóttu líklegir til að gefa kost á sér til forseta í aðdraganda kosninga árið 2021.[12]

Í nóvember 2021 var Daniel Ortega endurkjörinn til fjórða fimm ára kjörtímabilsins með 75% atkvæða, samkvæmt fyrstu opinberu hlutaniðurstöðu sem æðsta kjörráðið gaf út.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Helicon, ritstjóri (2016). Ortega Saavedra, Daniel.
  2. Motyl, Alexander, ritstjóri (2000). Ortega, Daniel.
  3. McClintock, Michael (1987). The American Connection.
  4. Chomsky, Noam (1985). Turning the Tide. Boston, Massachusetts: South End Press.
  5. "U.S. halts economic aid to Nicaragua", The New York Times, April 2, 1981.
  6. "Salvador Rebels: Where Do They Get the Arms", The New York Times, November 24, 1988,
  7. "Daniel Ortega sestur í forsetastól Níkaragúa", Vísir, 11. janúar, 2007.
  8. 8,0 8,1 Atli Ísleifsson (22. febrúar 2019). „Ortega kveðst reiðubúinn til viðræðna“. Vísir. Sótt 22. febrúar 2019.
  9. „Document“. www.amnesty.org (enska). Sótt 14. júní 2018.
  10. „Document“. www.oas.org (enska). Sótt 14. júní 2018.
  11. Kjartan Kjartansson (28. janúar 2019). „Byltingarleiðtogi sagður verða að einræðisherranum sem hann steypti“. Vísir. Sótt 22. febrúar 2019.
  12. Ævar Örn Jósepsson (9. júní 2021). „Ortega bannfærir hvern mótframbjóðandann af öðrum“. RÚV. Sótt 10. júní 2021.


Fyrirrennari:
Hann sjálfur
(sem formaður Þjóðviðreisnarherstjórnarinnar)
Forseti Níkaragva
(10. janúar 198525. apríl 1990)
Eftirmaður:
Violeta Chamorro
Fyrirrennari:
Enrique Bolaños
Forseti Níkaragva
(10. janúar 2007 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti