Violeta Chamorro
Violeta Chamorro | |
---|---|
Forseti Níkaragva | |
Í embætti 25. apríl 1990 – 10. janúar 1997 | |
Varaforseti | Virgilio Godoy (1990–1995) Julia Mena (1995–1997) |
Forveri | Daniel Ortega |
Eftirmaður | Arnoldo Alemán |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 18. október 1929 Rivas, Níkaragva |
Stjórnmálaflokkur | Unión Nacional Opositora |
Maki | Pedro Joaquín Chamorro Cardenal |
Börn | 5 |
Starf | Blaðaútgefandi, stjórnmálamaður |
Violeta Chamorro (f. 18. október 1929) er níkaragskur stjórnmálamaður, útgefandi og fyrrverandi forseti Níkaragva. Hún er þekkt fyrir að binda enda á stríð Kontraskæruliða, síðasta hluta níkarögsku byltingarinnar. Hún er eina konan sem hefur verið forseti Níkaragva.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Violeta Chamorro fæddist til landeignarfjölskyldu í suðurhluta Níkaragva og hlaut menntun að hluta til í Bandaríkjunum. Eftir að hún sneri til heimalands síns giftist hún og stofnaði fjölskyldu. Eiginmaður hennar, Pedro Joaquín Chamorro Cardenal, var blaðamaður hjá fréttablaði fjölskyldu sinnar, La Prensa, sem hann erfði síðar. Vegna andófs síns gegn ríkisstjórninni var hann oft fangelsaður og rekinn úr landi, sem neyddi Violetu Chamorro til að fylgja honum í útlegðir eða í fangelsi. Þegar eiginmaður hennar var myrtur árið 1978 tók Violeta Chamorro við stjórn blaðsins. Morðið á eiginmanni hennar blés byltingarmönnum eldmóð í brjóst og sem ritstjóri La Prensa notaði Chamorro ímynd hans til þess að hvetja stjórnarandstöðuna áfram. Þegar Sandínistar steyptu Anastasio Somoza Debayle forseta af stóli studdi Chamorro þá í fyrstu og tók sæti í bráðabirgðastjórn Þjóðviðreisnarherstjórnarinnar (Junta de Gobierno de Reconstrucción Nacional, JGRN) en þegar stjórnin gerðist æ öfgasinnaðari og undirritaði samkomulög við Sovétríkin sagði Chamorro af sér og tók aftur upp störf við dagblaðið.
La Prensa hélt áfram að gagnrýna stjórnvöldin þrátt fyrir hótanir og ritskoðanir stjórnarinnar. Þegar Daniel Ortega lýsti því yfir árið 1990 að boðað skyldi til frjálsra kosninga var Chamorro valin forsetaframbjóðandi bandalags stjórnarandstöðunnar (Unión Nacional Opositora, UNO). Þetta var bandalag 14 stjórnmálaflokka, allt frá íhaldsmönnum og frjálslyndum til kommúnista. Vegna ólíkra hugsjóna aðildarflokkanna átti bandalagið erfitt með að móta afgerandi stefnu aðra en þá að binda enda á stríðið. Þrátt fyrir að skoðanakannanir spáðu Ortega, sitjandi forseta Sandínista, sigri vann Chamorro kosningarnar þann 25. febrúar 1990 og varð þar með fyrsta konan sem hefur verið kjörin þjóðhöfðingi í allri Ameríku.
Þegar Chamorro sór forsetaeiðinn þann 25. apríl árið 1990 var það í fyrsta skipti í rúma fimm áratugi sem stjórnarskipti höfðu farið friðsamlega fram í Níkaragva og fyrsta skipti sem forseti Níkaragva hafði vikið friðsamlega fyrir eftirmanni sínum. Þegar Chamorro tók við stjórn var efnahagurinn illa staddur vegna margra ára borgarastyrjaldar, en henni tókst að koma á varanlegum friði í landinu. Sex ára stjórnartíð Chamorro einkenndist af efnahags- og samfélagsörðugleikum en henni tókst þó að miðla málum með andstæðingum sínum og viðhalda stjórn sinni, endurreisa sambönd ríkisins við alþjóðabanka og binda enda á óðaverðbólguna sem hafði þjáð landið í nokkur ár. Þó markaði stjórnartíð hennar einnig talsverðar efnahagslegar og samfélagslegar afturfarir. Frá 1990 til 2001 féll landið úr 60. í 116. sæti á lista yfir þróuðustu lönd heims og varð fátækasta land í Ameríku á eftir Haítí. Eftir að hún lét af embætti þann 10. janúar 1997 vann Chamorro að ýmsum alþjóðlegum friðarverkefnum þar til hún settist í helgan stein vegna heilsubrests.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Violeta Chamorro“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 22. júní 2018.
Fyrirrennari: Daniel Ortega |
|
Eftirmaður: Arnoldo Alemán |