Fara í innihald

Borgarstjórakosningin 1920

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Borgarstjórakosningin 1920 voru harðvítugar kosningar í Reykjavík sem fram fóru 8. maí 1920. Knud Zimsen var þar endurkjörinn borgarstjóri eftir harða baráttu við Sigurð Eggerz. Er þetta í fyrsta og eina skiptið sem borgarstjóri Reykjavíkur hefur verið kjörinn með beinni kosningu.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Borgarstjóraembættið var stofnað með lögum árið 1907 og auglýst til umsóknar í fyrsta sinn eftir bæjarstjórnarkosningarnar árið 1908. Kusu bæjarfulltrúar á milli umsækjenda og var skipunartíminn sex ár. Þegar embættið losnaði á ný til umsóknar árið 1914 sóttust þrír menn eftir því: Knud Zimsen, SIgurður Eggerz og Vigfús Einarsson. Varð Knud Zimsen hlutskarpastur og hófst þar með átján ára embættisseta hans.

Þegar fyrsta kjörtímabil Knuds Zimsens rann út árið 1920 hafði Alþingi breytt lögum á þann veg að kjósa skyldi borgarstjóra í almennum kosningum. Ákveðið var að kjósa í maímánuði en almennar bæjarstjórnarkosningar fóru fram í janúar sama ár. Í þeim kosningum sameinuðust borgaralegu öfl bæjarins í einu framboði sem hlaut tvo þriðju hluta atkvæða en listi jafnaðarmanna aðeins þriðjung.

Í ljósi þeirra úrslita voru hverfandi líkur á að frambjóðandi jafnaðarmanna gæti unnið borgarstjórakosningarnar um vorið. Jafnaðarmenn komu því með krók á móti bragði og studdu framboð Sigurðar Eggerz, sem nú atti kappi við Knud Zimsen öðru sinni um embættið. Sigurður hafði í millitíðinni gegnt embætti ráðherra Íslands um skeið og var nýhættur sem fjármálaráðherra. Framboð hans rak því fleyg í samstöðu borgaralegu aflanna.

Kosningarnar[breyta | breyta frumkóða]

Kosningabaráttan varð gríðarlega heiftúðug og persónuleg enda snerist hún fyrst og fremst um feril og mannkosti frambjóðendanna tveggja. Rifjuð var upp stjórnmálasaga Sigurðar Eggerz sem tók við embætti ráðherra Íslands árið 1914 en sagði af sér örskömmu síðar. Var hart deilt um hvort sú afsögn hefði verið til marks um stefnufestu eða vingulshátt. Sem fjármálaráðherra á kreppuárunum eftir fyrri heimsstyrjöldina hafði Sigurður einnig þurft að taka fjölmargar óvinsælar ákvarðanir sem nú voru dregnar fram í dagsljósið.

Knud Zimsen hafði verið borgarstjóri og áður bæjarfulltrúi og bæjarverkfræðingur á miklum framkvæmdatímum. Því var hægt að rifja upp fjöldann allan af ákvörðunum sem kunnu að orka tvímælis. Í fjölda blaðagreina var Knud sakaður um að hafa kostað bæjarsjóð svimandi upphæðir með röngum ákvörðunum, vanhæfni og með því að hygla sér og vinum sínum. Voru ásakanirnar svo harðar að séra Friðrik Friðriksson, sem var vinur Knuds frá fornu fari, steig fram og ritaði sína fyrstu og einu pólitísku grein borgarstjóranum til stuðnings.

Knud Zimsen sárnaði hversu lítt borgaralegu blöðin í Reykjavík komu honum til varnar í kosningabaráttunni. Þá tók hann nærri sér umræðu um starf hans á vettvangi KFUM, þar sem látið var að því liggja að borgarstjórinn væri trúarofstækismaður. Loks stóð Knud höllum fæti í kappræðum, þar sem hann þótti ekki leiftrandi í ræðustól en Sigurður Eggerz var landskunnur ræðumaður og með mikla persónutöfra.

Eftir snarpa kosningabaráttu var gengið til atkvæða. Knud Zimsen hlaut 1.760 atkvæði en Sigurður Eggerz 1.584.

Árið 1926 átti að kjósa að nýju en þá var Knud Zimsen sjálfkjörinn eftir að eina mótframboðið var úrskurðað ólöglegt. Í kjölfarið var lögum um borgarstjóraembættið breytt og horfið frá almennri kosningu.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Fbl. 24. ág 2018“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. maí 2022. Sótt 13. ágúst 2020.