Fara í innihald

Steypireyður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Bláhvalur)
Steypireyður
Steypireyður við Asóreyjar
Steypireyður við Asóreyjar
Stærð steypireyðar miðað við meðalmann
Stærð steypireyðar miðað við meðalmann
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Ætt: Reyðarhvalir (Balaenopteridae)
Ættkvísl: Reyðar (Balaenoptera)
Tegund:
Steypireyður (B. musculus)

Tvínefni
Balaenoptera musculus
Linnaeus (1758)
Útbreiðslusvæði steypireyðar (blár litur)
Útbreiðslusvæði steypireyðar (blár litur)

Steypireyður[2] (fræðiheiti: Balaenoptera musculus), einnig kölluð bláhvalur er skíðishvalur og er tegund í ættkvíslinni Balaenoptera (reyðar). Þeir eru hluti af ættinni reyðarhvalir (Balaenopteridae) sem má finna í öllum heimshöfum.

Steypireyður er stærsta spendýr jarðar og stærsta dýrategund sem hefur lifað á jörðinni.[3] Fullvaxnir geta steypireyðir orðið rúmlega 30 metrar að lengd. Þeir geta orðið allt að 150 tonn á þyngd, kvenkynið verður allt að 200 tonn með afkvæmi.

Steypireyður er straumlínulaga með fremur smá bægsli en stórt höfuð hennar er nær fjórðungi af heildarlengd. Hvalurinn er blágrár nema neðanverð bægslin sem eru hvít. Misgráir litatónar mynda óreglulegt munstur um allan skrokkinn. Greinilega má sjá litamun á einstaklingum.

Meðgöngutími steypireyða er rúmlega 11 mánuðir og langalgengast er að kýrin gangi með einn kálf í einu, þó stöku sinnum sjáist til steypireyðar með tvo kálfa. Um 2–3 ár líða á milli burða hjá hverri steypireyði. Við fæðingu eru steypireyðarkálfar 7–8 metrar að lengd og um 2 tonn á þyngd. Kálfarnir vaxa hratt og þyngjast um u.þ.b. 90 kg á sólarhring, enda drekka þeir um 300 lítra af mjólk á dag. Kálfarnir eru á spena í 6 til 8 mánuði. Að þeim tíma loknum eru þeir orðnir um 16 metra langir.

Talið er að steypireyðar geti náð um 80–90 ára aldri.

Steypireyður gefur frá sér lágtíðnihljóð sem mannseyrað greinir ekki. Tarfar í makaleit gefa frá sér baul sem mælist allt að 188 desibel og er það hæsta hljóð sem dýr gefur frá sér á jörðinni.

Útbreiðsla og hegðun

[breyta | breyta frumkóða]
Blástur steypireyðar

Steypireyðir lifa í öllum heimshöfum og má finna bæði á úthafi og strandsvæðum. Oftast sjást hvalirnir einir á ferð að sumarlagi eða tveir til þrír saman. Steypireyður syndir afar hratt eða um 33 kílómetra á klukkustund á fartímanum.[4] Steypireyður kafar sjaldan dýpra en um 200 metra og oftast ekki dýpra en um 16 metra. Hvalirnir eru iðulega í kafi í upp undir hálftíma og dæmi eru um allt að 50 mínútna köfun.[5]

Steypireyður lifir á svifi og étur um 4 tonn af því á dag. Hún gerir það með því að gleypa mikinn sjó og spýta honum út úr sér aftur í gegnum skíðin. Á skíðunum eru hár sem svifið festist í og verður þannig eftir í munni dýrsins. Að lokum kyngir hún svifinu. Sennilega éta hvalirnir mikinn hluta ársneyslu sinnar á 4 til 6 mánuðum á sumrin.

Veiðar og fjöldi

[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að heildarfjöldi steypireyða á jörðinni sé á bilinu 6500 til 14000. Tegundin var ofveidd á síðustu öld og fækkaði gífurlega og er nú talin í útrýmingarhættu. Steypireyður er alfriðuð frá árinu 1966.

Við talningu árið 2015 var talið að um 3000 dýr lifðu í Norður-Atlantshafi.[6]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Reilly, S.B., Bannister og fl. 2008
  2. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
  3. Jón Már Halldórsson. „Er steypireyður stærri en stærstu risaeðlurnar voru?“. Vísindavefurinn 9.2.2005. http://visindavefur.is/?id=4747. (Skoðað 15.4.2009).
  4. Yochem og Leatherwood, 1985
  5. Tomilin, 1957
  6. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Reilly, S.B., J.L. Bannister, P.B. Best, M. Brown, R.L. Brownell Jr., D.S. Butterworth, P.J. Clapham, J. Cooke, G.P. Donovan, J. Urbán og A.N. Zerbini, „Balaenoptera musculus“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Perrin, W., B. Wursig og J. Thewissen (ritstj.), Encyclopedia of Marine Mammals (Academic Press, 2002). ISBN 0-12-551340-2.
  • Reeves, R., B. Stewart, P. Clapham og J. Powell, National Audubon Society Guide to Marine Mammals of the World (New York: A.A. Knopf, 2002). ISBN 0-375-41141-0.
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
  • Tomilin A.G., „Cetacea“ hjá V.G. Heptner (ritstj.): Mammals of the USSR and adjacent countries. 9 hefti. (Moskva: Nauk USSR, 1957). Ensk þýðing: (Jerusalem: Israeli Program for Scientific Translations, 1967).
  • Yochem P.K. og S. Leatherwood, „Blue Whale: Balaenoptera musculus (Linnaeus 1758)“ hjá S.H. Ridgway og R. Harrison (ritstj.): Handbook of marine mammals. 3 bindi (London: Academic Press, 1985): 193-240. ISBN 0-12-588503-2.