Bill O'Reilly
Bill O'Reilly (f. 10. september 1949) er bandarískur fyrrum fjölmiðlamaður og þáttastjórnandi sem var með sinn eigin þátt á sjónvarpsfréttastöðinni Fox News. Þátturinn hét The O'Reilly Factor en hann var í loftinu alla virka daga síðan 1996 og sneri að beinskeyttum og ögrandi pólitískum umræðum. Í þættinum var svokallað „No Spin Zone“ en það átti að vera svæði þar sem aðeins var talað um staðreyndir og ekkert reynt að fegra hlutina né tala í kringum þá. O'Reilly er einnig rithöfundur en hann hefur skrifað bækur út frá þættinum, þær þekktustu eru The O'Reilly Factor og The No Spin Zone: Confrontations with the Powerful and Famous in America. Báðar hafa þær náð fyrsta sæti á metsölulista The New York Times.
Ferillinn
[breyta | breyta frumkóða]Bill O'Reilly er fæddur og uppalinn á Long Island í New York fylki, hann stundaði nám við Marist-háskólann í Poughkeepsie í New York og útskrifaðist þaðan með gráðu í sagnfræði. Eftir það fór hann í Boston University og aflaði sér meistaragráðu í fjölmiðlafræði með áherslu á útsendingar svo sem sjónvarp og útvarp. Sjónvarpsferill hans hófst í Scranton í Pennsylvaníu með viðkomu, meðal annars, í Dallas, Oregon, Hartford og Boston. Árið 1980 stjórnaði hann eigin þætti á WCBS sjónvarpsstöðinni í New York og ekki löngu eftir það starfaði hann sem fréttaritari fyrir CBS á stríðshrjáðum svæðum í El Salvador og á Falklandseyjum. Hann fór að vekja meiri athygli á seinni hluta 9. áratugarins sem fréttaritari fyrir Worlds News Tonight á ABC fréttastofunni og einnig sem fréttaflytjandi í Inside Edition. Eftir aðeins þrjár vikur í þættinum tók hann við sem stjórnandi næstu sex árin, á þessum árum fékk þátturinn metáhorf. Árið 1995 hætti O'Reilly sem þáttastjórnandi til að nema meistarafræði í stjórnsýslu við Harvard-háskóla og eftir útskriftina var honum boðinn sinn eigin þáttur hjá Fox fréttastofunni. Hann greip tækifærið og þannig varð The O'Reilly Factor til.[1] Árið 2017 var O'Reilly rekinn frá Fox vegna þess að samstarfskonur hans sökuðu hann um kynferðislegt ofbeldi gegn sér. [2]
Umdeildur
[breyta | breyta frumkóða]Bill O'Reilly er umdeildur í Bandaríkjunum fyrir sterkar skoðanir sínar. Nýjasta dæmið er þegar hann var gestur í spjallþættinum The View og yfirlýsingar hans urðu til þess að tveir af þáttastjórnendunum gengu út. Umræðuefnið var moskan sem byggja á nærri þar sem Tvíburaturnarnir féllu í hryðjuverkaárásinni 11. september 2001, O'Reilly sagði að þar sem það hefðu verið múslimar sem urðu fjölda bandarískra borgara að bana þann dag ætti ekki að reisa mosku á þessum stað, það væri einfaldlega óviðeigandi. Joy Behar og Whoopi Goldberg var nóg boðið þegar þær heyrðu þetta og gengu því út. O'Reilly hefur verið sakaður um að láta sprengjur líkt og þessar falla til þess að vekja athygli á sér og selja fleiri bækur en það er ljóst að hann er óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós þó að þær séu umdeildar.[3]