Beijing Capital-alþjóðaflugvöllurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Beijing Capital alþjóðaflugvellinum séðum úr lofti.
Beijing Capital flugvöllurinn séður úr lofti.
Mynd af flughlaði Beijing Capital flugvallarins í sólarupprás.
Flughlað Beijing Capital flugvallarins í sólarupprás.
Mynd af farþegamiðstöðvum eitt og tvö á Beijing Capital flugvellinum séðar úr lofti.
Horft yfir farþegamiðstöðvar eitt og tvö á Beijing Capital flugvelli.

Alþjóðaflugvöllur Beijing Capital (IATA: PEK, ICAO: ZBAA) (kínverska: 北京首都国际机场; rómönskun: Běijīng Shǒudū Guójì Jīchǎng) er meginflughöfn Beijing, borghéraðs og höfðborg Alþýðulýðveldisins Kína. Flugvöllurinn sem kenndur er við höfuðborgina Beijing, er umsvifamesti flugvöllur Kína. Hann er ásamt Daxing alþjóðaflugvelli einn af tveimur helstu flugvöllum sem þjóna höfuðborginni. Hann þjónar bæði innanlands- og millilandaflugi.

Flugvöllurinn er staðsettur um 32 kílómetrum norðaustur af miðborginni. Hann hefur þrjár farþegamiðstöðvar og þrjár flugbrautir.

Flugvöllurinn er í eigu og rekinn af félaginu Beijing Capital International Airport Company Limited, sem er ríkisrekið fyrirtæki. IATA flugvallarkóði vallarins, PEK, er byggður á fyrrum rómönsku nafni borgarinnar, Peking.

Flugvöllurinn er afar umsvifamikill og umferðarþungi hans hefur vaxi hratt síðastliðna áratugi. Hann er í dag annar fjölfarnasti flugvöllur heims hvað varðar farþegaflutninga. Fáir flugvellir veraldar eru umsvifameiri í famflutningum.

Árið 2019 afgreiddi flugvöllurinn meira en 100 milljónir farþega og um 2 milljónir tonna af farmi.


Saga[breyta | breyta frumkóða]

Beijing flugvöllur var opnaður árið 1958. Hann samanstóð af einni lítilli flugstöðvarbyggingu, sem stendur enn þann dag í dag, ásamt einni 2.500 metra flugbraut sem síðar var framlengd í 3.200 metra árið 1966 og 3.800 metra árið 1982. Árið 1978 var annarri 3.200 metra flugbraut bætt við.

Árið 1980 var nýrri farþegamiðstöð bætt við. Hún var mun stærri en sú sem byggð var á fimmta áratug síðustu aldar en einum og hálfum áratug síðar var stærð hennar talin ófullnægjandi.

Árið 1999, í tilefni af 50 ára afmæli stofnunar Alþýðulýðveldisins, var flugvöllurinn stækkaður enn, með nýrri farþegamiðstöð. Í framhaldinu var fyrri farþegamið-stöð endurnýjuð verulega. Ekki dugði sú stækkun lengi. Því var árið 2007 þriðju flugbrautinni bætt við vegna þrengsla á hinum tveimur flugbrautunum. Þriðja farþegamiðstöðin opnaði árið 2008, tímanlega fyrir Ólympíuleikana sem haldnir voru í Beijing. Að auki var byggð snarlestartenging við miðborgina. Þegar nýja farþegamiðstöðin opnaði var hún talin stærsta mannvirki í veröldinni hvað varðar flatarmál.

Enn jókst umferð um flugvöllinn. Vegna takmarkaðrar afkastagetu flugvallarins var ákveðið að byggja nýjan flugvöll í Daxing á árunum 2014 —2019. Hann mun þjóna sem flugstöð fyrir flugfélög sem eru í SkyTeam (að China Eastern Airlines undaskildu), en flugfélög í Star Alliance munu dvelja áfram á gamla höfuðborgarvellinum. Hainan Airlines, sem árið 2016 var með um 10 prósent af flutningum Beijing Capital, en er ekki hluti af neinu stóru bandalagi, verður áfram á þeim flugvelli.

Samgöngur við flugvöllinn[breyta | breyta frumkóða]

Mynd af snarlest Capital Airport Express á þriðju farþegamiðstöð Beijing Capital flugvallarins.
Snarlest Capital Airport Express á þriðju farþegamiðstöð Beijing Capital flugvallarins.

Snarlestarkerfi „Capital Airport Express“ tengja flughöfnina við miðborg Beijing. Að auki tengja strætisvagnar og gott vegakerfi flughöfnina við borgina og nærliggjandi svæði. Í boði er skutluþjónustu án endurgjalds milli hinnar þriggja farþegamiðstöðva flugvallarins.

Flugfélög[breyta | breyta frumkóða]

Flugvöllurinn er aðalmiðstöð og safnvöllur fyrir heimaflugfélögin Air China, China Eastern Airlines og Shanghai Airlines. Hann er einnig áhersluflugvöllur og umfangsmikil miðstöð fyrir Sichuan Airlines, Shenzhen Airlines, og Shandong Airlines.

Alls starfa á flugvellinum 73 farþegaflugfélög og 16 farmflugfélög.

Flugleiðir[breyta | breyta frumkóða]

Mynd af þriðju farþegamiðstöð Beijing Capital séð úr lofti.
Þriðja farþegamiðstöð Beijing Capital séð úr lofti.

Flugvöllurinn er gríðarumfangsmikill varðandi fjölda farþega og flugleiða.

Margir áfangastaðir flugvallarins eru innan Kína, þar sem hann þjónar flestum stærri borgum landsins. Til sumra borga eru togir fluga á dag. Til að mynda eru meira en 100 dagleg flug til Sjanghæ, meira en 60 dagleg flug til borganna Guangzhou og Shenzhen. Þá eru 65 flug á dag til Chengdu og 49 til Hangzhou.

Flugvöllurinn hefur mjög marga alþjóðlega áfangastaði, til flestra heimsálfa: Evrópu, Asíu, Eyjaálfu, Afríku, Suður Ameríku og Norður Ameríku.

Dæmi um borgir hafa mörg flug á viku frá flugvellinum eru: 385 vikuleg flug til Hong Kong; 70 flug til Makaó og Taípei; 35 til Los Angeles; 28 flug til New York og San Francisco; 27 til Vancouver; 42 til Frankfurt am Main og Singapúr og svo framvegis.

Tölfræði[breyta | breyta frumkóða]


Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Landakort af tveimur meginflugvöllum Beijing borgar.
Kort af meginflugvöllum Beijing borgar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]