Fara í innihald

Bóluþang

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bóluþang

Vísindaleg flokkun
Ríki: Litsvipuþörungar (Chromalveolata)
Fylking: Missvipuþörungar (Heterokontophyta)
Flokkur: Brúnþörungar (Phaeophyceae)
Ættbálkur: Fucales
Ætt: Þangætt (Fucaceae)
Ættkvísl: Fucus
Tegund:
F. vesiculosus

Tvínefni
Fucus vesiculosus
L.

Bóluþang (fræðiheiti: Fucus vesiculosus) einnig nefnt blöðruþang, er brúnþörungur af þangætt (Fucaceae).

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Bóluþang vex eingöngu í fjörum og er algengt við strendur Evrópu allt frá Norður Rússlandi, Grænlandi, Íslandi, Asoreyjar og niður til Madeira, Marokkó og Kanaríeyja. Við Atlantshafsströnd Norður-Ameríku frá Ellesmere-eyju, Hudsonflóa og til Norður-Karólínu.

Bóluþang vex um miðbik fjörunnar mest í hnullunga- og klapparfjörum og best ef þær eru skjólgóðar, oft í sambýli við klóþangið (Ascophyllum nodosum) í klóþangbeltinu. Það er þó ekki eins útbreitt og klóþangið og virðist frekar verða undir í samkeppni við það. Það sést vel á því að þar sem klóþang hefur verið skorið í stórum stíl til vinnslu, tekur bóluþangið oftast svæðið yfir en virðist svo hopa aftur þegar klóþangið vex smámsaman upp aftur en það gerist á löngum tíma þar sem vöxtur klóþangsins er svo hægur.

Útlit[breyta | breyta frumkóða]

Teikning af bóluþangi frá 1903

Bóluþangið er um 40 til 90 cm hátt, brúnt á litin en stundum grænleitt eða brúnleitt. Nafn sitt dregur bóluþangið af áberandi loftfylltum bólum sem sitja oftast tvær og tvær saman á hverri grein þangsins og virka eins og flothylki á flóði en þangið legst svo niður á fjöru. Bólurnar eru oftast ofan til á þanginu en stundum er þær líka í þéttum röðum niður eftir allri plöntunni. Blöðin eru eins til tveggja cm breið með greinilegri miðtaug sem bólurnar sitja sitthvorumegin við. Þau kvíslgreinast með tiltölulega reglubundnum hætti. Bóluþangið festir sig við botninn á steina eða klappir.

Almennt[breyta | breyta frumkóða]

Líkt og á öðrum stórum þörungum eins og klóþanginu lifa nokkrar ásætur á bóluþanginu, þó ekki allar þær sömu. Til dæmis lifir þangskegg (Polysiphonia lanosa) engöngu á klóþangi en aldrei á bóluþangi, þótt þessar þangtegundir vaxi hlið við hlið. Öfugt er farið með snúðorma, þeir vaxa á bóluþangi en aldrei á klóþangi. Ekki er vitað af hverju þetta stafar. Hinsvegar má búast við að finna sömu sniglana á báðum tegundunum, eins og þangdoppu (Littorina obtusata).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Agnar Ingólfsson (1990). Íslenskar fjörur.
  • Agnar Ingólfsson, Hrefna Sigurjónsdóttir, Karl Gunnarsson, Eggert Pétursson (1986). Fjörulíf.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • Ferlir.is Fjörur I (skoðað 9. apríl 2112)