Gull
Silfur | |||||||||||||||||||||||||
Platína | Gull | Kvikasilfur | |||||||||||||||||||||||
Röntgenín | |||||||||||||||||||||||||
|
Gull er frumefni með efnatáknið Au (latína aurum) og er númer 79 í lotukerfinu. Þetta er mjúkur, gljáandi, gulur, þungur, hamranlegur og linur hliðarmálmur sem er ónæmur gegn flestum efnum en hægt er að vinna á honum með klór, flúor og kóngavatni. Gull finnst sem molar eða sem gullkorn í grjóti og í árseti. Gull er einn af myntmálmunum.
Gull var áður fyrr notað sem seðlafótur margra þjóða og er einnig notað í skartgripagerð, tannlækningar, og í rafeindavörur. ISO gjaldmiðilstákn þess er XAU.
Gull er æðstu verðlaun á íþróttamótum, en annað sætið færir silfur og það þriðja brons. Orðið gull (í fleirtölu) var áður fyrr notað yfir barnaleikföng.
Saga og notkun
[breyta | breyta frumkóða]Gull er aðlaðandi og mjög verðmætur málmur, sem þekkst hefur í a.m.k. 5500 ár. Hreint gull finnst stundum í náttúrunni en venjulega er það þó í sambandi við silfur, kvars (SiO2), kalsít (CaCO3), blý, tellúr, sink eða kopar. Gróflega áætlað er um 1 millígramm af gulli uppleyst í hverju tonni af sjó, en vinnsla á því úr sjó myndi þó ekki svara kostnaði. Áætlað hefur verið að hægt væri að koma öllu gulli sem þegar hefur verið hreinsað, fyrir í teningi sem væri 20 metrar á kant.
Gull er mótanlegast og teygjanlegast allra málma. Eina únsu af gulli er hægt að fletja út í þynnu sem er um 5 metrar á kant. Gullþynnur eru notaðar í gyllingu handverks og listmuna. Þykkt einnar slíkrar þynnu getur verið um 0,000127 millimetrar, eða um 400 sinnum þynnri en mannshár.
Hreint gull er lint og er venjulega blandað saman við aðra málma eins og silfur, kopar, platínu eða palladíum til að auka styrkleika þess. Gullblöndur eru notaðar til framleiðslu skartgripa og skrautmuna, í tannfyllingar og í smámynt. Magn gulls í málmblöndu er mælt með mælieiningu sem nefnist karat. Eitt karat samsvarar 1 hluta af 24, þannig að í 18 karata gullhring eru 18 hlutar af hreinu gulli og 6 hlutar af íblöndunarefnum.
Gull er góður leiðari hita og rafmagns og tærist ekki í andrúmslofti. Því er hægt að nota gull í rafmagnstengla og rafrásir. Gull endurkastar einnig innrauðri geislun mjög vel, sem gerir það hentugt til að verja geimflaugar og skýjakljúfa gegn hita sólarinnar. Nota má gyllta spegla við framleiðslu sjónauka sem næmir eru fyrir innrauðu ljósi.
Geislavirk samsæta gulls (198Au) er notuð við geislameðferð gegn krabbameini. Gull-natríum-þíósúlfat (AuNa3O6S4) er notað í meðferð við gigt. Gullklórsýra (HAuCl4) er notuð til varðveislu ljósmynda með því að skipta út silfuratómunum sem þegar eru til staðar í ljósmyndum.
Árið 1848 hófst mikið gullgraftaræði í Kaliforníu og stóð það yfir um árabil. Lá gullið þá oft í botni á litlum lækjum eða ám og notuðu menn haka, sigti og pönnur til að safna gullinu. Það var síðan flutt til byggða og unnið frekar svo hægt væri að nota það í alls konar iðnað eins og að búa til hringi eða verkfæri. Svo leið gullgröfturinn undir lok á þessu tímabili, einfaldlega vegna þess að gullið var uppurið á svæðinu og þurfti þá að leita annað til gullgraftar. Annað frægt gullæði greip um sig í Klondike og víðar í Yukon-dalnum í Kanada hálfri öld síðar.