Anthony Fauci
Anthony Fauci | |
---|---|
Forstjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna | |
Í embætti 2. nóvember 1984 – 31. desember 2022 | |
Forveri | Richard M. Krause |
Eftirmaður | Jeanne Marrazzo |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 24. desember 1940 Brooklyn, New York-borg, New York, Bandaríkjunum |
Maki | Christine Grady (g. 1985) |
Börn | 3 |
Háskóli | College of the Holy Cross Cornell-háskóli |
Anthony Stephen Fauci (f. 24. desember 1940) er bandarískur ónæmisfræðingur sem var forstjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna frá árinu 1984 til loka ársins 2022. Frá janúar 2020 var hann einn af helstu meðlimum viðbragðsteymis Donalds Trump Bandaríkjaforseta gegn kórónaveirufaraldrinum í landinu og frá embættistöku Joe Biden í janúar 2021 hefur Fauci jafnframt verið heilbrigðisráðgjafi Bandaríkjaforseta.[1] Fauci er meðal helstu sérfræðinga í smitsjúkdómum á heimsvísu og við byrjun faraldursins lýstu tímaritin The New Yorker og The New York Times honum sem einum virtasta lækni í Bandaríkjunum.[2][3][4][5]
Sem læknir við Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna hefur Fauci unnið að heilbrigðismálum í rúm 50 ár og hefur verið ráðgjafi allra forseta Bandaríkjanna frá og með Ronald Reagan.[4] Hann hefur lagt sitt af mörkum við rannsóknir á alnæmi og öðrum sjúkdómum sem valda ónæmisbresti, bæði sem vísindamaður og sem forstjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunarinnar.[6] Frá 1983 til 2002 var Fauci meðal þeirra vísindamanna sem oftast var vísað til í vísindatímaritum.[6] Árið 2008 sæmdi George W. Bush Fauci frelsisorðu Bandaríkjaforseta fyrir störf hans við neyðaráætlun forsetans handa eyðnismituðum (PEPFAR).
Fauci tilkynnti í ágúst 2022 að hann myndi hætta bæði sem sóttvarnarlæknir og sem ráðgjafi forsetans í desember sama ár.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Merica, Dan (4. desember 2020). „CNN Exclusive: Biden says he will ask Americans to wear masks for the first 100 days he's in office“. CNN.com. Sótt 8. desember 2020.
- ↑ Specter, Michael. „How Anthony Fauci Became America's Doctor“. The New Yorker. Afrit af uppruna á 13. apríl 2020. Sótt 8. desember 2020.
- ↑ „The face of America's fight against Covid-19“. BBC News. 25. mars 2020. Afrit af uppruna á 4. apríl 2020. Sótt 8. desember 2020.
- ↑ 4,0 4,1 Alba, Davey; Frenkel, Sheera (28. mars 2020). „Medical Expert Who Corrects Trump Is Now a Target of the Far Right“. The New York Times. Afrit af uppruna á 2. apríl 2020. Sótt 8. desember 2020.
- ↑ Grady, Denise, "Not His First Epidemic: Dr. Anthony Fauci Sticks to the Facts" Geymt 27 mars 2020 í Wayback Machine, The New York Times, 8. mars 2020.
- ↑ 6,0 6,1 „Biography Anthony S. Fauci, M.D. NIAID Director“. NIAID. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. október 2007.
- ↑ Ólöf Rún Erlendsdóttir (22. ágúst 2022). „Fauci hættir hjá Hvíta húsinu eftir 40 ára starf“. RÚV. Sótt 16. desember 2022.