Ameríkubikarinn er þekktasta siglingakeppni heims og elstu verðlaun sem enn eru veitt fyrir sigur í alþjóðlegri íþróttakeppni. Bikarinn var upphaflega veittur sigurvegara í siglingakeppni konunglega breska siglingaklúbbsins Royal Yacht Squadron umhverfis Isle of Wight árið 1851 en dregur nafn sitt af skútunni America sem vann bikarinn fyrir siglingaklúbbinn New York Yacht Club sama ár. 1857 gaf eigendafélag America klúbbnum bikarinn sem verðlaun í áskorendakeppnum. Engum tókst að vinna bikarinn af klúbbnum til ársins 1983 þegar Australia II frá Royal Perth Yacht Club sigraði og flutti bikarinn til Ástralíu. Þetta telst vera lengsta samfellda vinningslota í sögu alþjóðlegra íþróttakeppna. Núverandi handhafar bikarsins eru siglingaklúbbur skútunnar Te Rehutai, Royal New Zealand Yacht Squadron á Nýja-Sjálandi.
Keppnin um Ameríkubikarinn er áskorendakeppni, einvígi milli tveggja skúta, þar sem sá sem vinnur flestar af níu kappsiglingum ber sigur úr býtum. Frá 1992 til 2007 var keppt á slúppum í Alþjóðlega Ameríkubikarsflokknum, sem er einbola flokkur. Dæmigerð lengd slíkra skúta var 75 fet (23 m). Árið 2010 var keppt á þríbolungum og 2013 á 72 feta tvíbolungum með spaðakili. Árið 2021 var aftur skipt yfir í einbolunga, en í þetta sinn með spaðakili sem lyftir bolnum upp úr vatninu.
Hver sá sem uppfyllir skilyrðin sem sett eru fram í gjafarbréfinu sem fylgdi með bikarnum 1852 (endurskrifað nokkrum sinnum síðan) hefur rétt til að skora á þann klúbb sem geymir bikarinn. Ef áskorandinn sigrar flyst eign bikarsins frá siglingaklúbbi fyrri vinningshafa til siglingaklúbbs áskorandans. Frá 1970 hefur verið haldin undankeppni til að skera úr um hver fær réttinn til áskorunar þegar um fleiri en einn áskoranda er að ræða. Þessi keppni heitir nú Prada-bikarinn (áður Louis Vutton-bikarinn frá 1983 til 2017).