Alfred Jules Ayer
Vestræn heimspeki Heimspeki 20. aldar | |
---|---|
Nafn: | Alfred Jules Ayer |
Fæddur: | 29. október 1910 |
Látinn: | 27. júní 1989 (78 ára) |
Skóli/hefð: | Rökgreiningarheimspeki, rökfræðileg raunhyggja |
Helstu ritverk: | Language, Truth and Logic, The Problem of Knowledge, The Foundations of Empirical Knowledge |
Helstu viðfangsefni: | þekkingarfræði, málspeki, siðfræði |
Markverðar hugmyndir: | rökfræðileg raunhyggja, sannreynslulögmálið |
Áhrifavaldar: | Immanuel Kant, David Hume, Bertrand Russell, Ludwig Wittgenstein, Vínarhringurinn, Rudolf Carnap, Karl Popper |
Hafði áhrif á: | R.M. Hare, Ted Honderich |
Sir Alfred Jules Ayer (29. október 1910 – 27. júní 1989), betur þekktur sem A. J. Ayer (kallaður Freddie af vinum sínum), var breskur heimspekingur. Hann átti mikinn þátt í að gera rökfræðilega raunhyggju vinsæla í enskumælandi löndum, einkum með bókum sínum Mál, sannleikur og rökfræði (Language, Truth and Logic) (1936) og Þekkingarvandinn (The Problem of Knowledge) (1956). Hann greindi á milli sinnar eigin heimspeki og heimspeki Vínarhringsins með því að nefna heimspeki sína „logical empiricism“ fremur en logical positivism (á íslensku er ekki gerður þessi greinarmunur og er hvort tveggja venjulega nefnt rökfræðileg raunhyggja). Meginmunurinn var sá að Ayer þáði í arf frá David Hume hugmynd Humes um orsakavensl og féllst á að raunsannindi væri aldrei hægt að sanna eða afsanna með fullnægjandi hætti. Oft er litið fram hjá þessum muni á Ayer og heimspekingum Vínarhringsins.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ayer hlaut menntun sína í Eton College. Hann gegndi herþjónustu í síðari heimsstyrjöldinni. Sumir hafa litið á Ayer sem heimspekilegan arftaka Bertrands Russell. Ayer ritaði tvær bækur um Russell: Russell and Moore: The Analytic Heritage (1971) og Russell (1972). Hann ritaði einnig bók um heimspeki Davids Hume fyrir byrjendur.
Ayer gegndi stöðu Grote Professor of the Philosophy of Mind and Logic við University College London árin 1946 til 1959. Árið 1959 tók hann við stöðu Wykeham Professor of Logic við Oxford University.
Ayer var aðlaður 1970. Hann kvæntist fjórum sinnum.
Verk
[breyta | breyta frumkóða]Ayer ef til vill þekktastur fyrir sannreynslulögmál sitt, sem hann setti fram í Máli, sannleika og rökfræði (e. Language, Truth, and Logic) (1936). Lögmálið kveður á um að setning sé merkingarbær einungis ef hún er sammreynanleg. Að öðrum kosti var hún annaðhvort „analýtísk“ (röksannindi) eða „frumspekileg“ (þ.e. merkingarlaus). Ayer hóf að skrifa bókina 24 ára gamall og hún kom út tveimur árum síðar. Heimspeki Ayers var undir miklum áhrifum frá hugmyndum Vínarhringsins og Davids Hume. Skýr og fjörug framsetning hans hefur gert Mál, sannleika og rökfræði eitt meginrita rökfræðilegrar raunhyggju. Bókin er talin sígilt rit um rökgreiningarheimspeki 20. aldar.
Að sumu leyti var Ayer heimspekilegur erfingi Bertrands Russell og hann samdi tvær bækur um heimspekinginn: Russell and Moore: The Analytic Heritage (1971) og Russell (1972). Hann samdi einnig inngangsrit um heimspeki Davids Hume.
Árin 1972-73 hélt Ayer Gifford fyrirlestrana við University of St Andrews, en þeir komu síðar út í bókarformi undir titlinum The Central Questions of Philosophy. Þar kemur fram að hann trúði enn á meginkjarnann í þeirri heimspeki sem hann átti sameiginlega með rökfræðilegu raunhyggjumönnunum: að stór hluti þess sem venjulega er kallað „heimspeki“ - þar á meðal frumspeki, guðfræði og fagurfræði í heild sinni - væru ekki af því tagi að það gæti verið satt eða ósatt og væri þess vegna merkingarlaust. Það kom ekki á óvart að með þessu dvínuðu vinsældir hans innan margra heimspekideilda á Bretlandi.
í The Concept of a Person and Other Essays (1963) setti Ayer fram gagnrýni á einkamálsrök Wittgensteins.
Skynreyndakenning Ayers, sem hann setti fram í ritinu Foundations of Empirical Knowledge, var gagnrýnd af starfsbróður hans við Oxford háskóla J.L. Austin í fyrirlestrum sem komu seinna út í bókarformi undir titlinum Sense and sensibilia, en það er talið sígilt rit í heimspeki hversdagsmáls. Ayer brást við gagnrýninni í ritgerðinni „Has Austin Refuted the Sense-data Theory?“, sem er að finna í ritgerðasafni hans Metaphysics and Common Sense (1969).
Rit Ayers
[breyta | breyta frumkóða]- 1936, Language, Truth, and Logic, London: Gollancz. (2. útg. 1946)
- 1940, The Foundations of Empirical Knowledge, London: Macmillan.
- 1954, Philosophical Essays, London: Macmillan.
- 1956, The Problem of Knowledge, London: Macmillan.
- 1963, The Concept of a Person and other Essays, London: Macmillan.
- 1968, The Origins of Pragmatism, London: Macmillan.
- 1969, Metaphysics and Common Sense, London: Macmillan.
- 1971, Russell and Moore: The Analytical Heritage, London: Macmillan.
- 1972a, Probability and Evidence, London: Macmillan.
- 1972b, Bertrand Russell, London: Fontana.
- 1973, The Central Questions of Philosophy, London: Weidenfeld.
- 1980, Hume, Oxford: Oxford University Press
- 1982, Philosophy in the Twentieth Century, London: Weidenfeld.
- 1984, Freedom and Morality and Other Essays, Oxford: Clarendon Press.
- 1986, Ludwig Wittgenstein, London: Penguin.
- 1977, Part of My Life, London: Collins.
- 1984, More of My Life, London: Collins.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Alfred Ayer“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. nóvember 2005.
- Honderich, Ted, „Ayer's Philosophy and its Greatness“.
- Quinton, Anthony, „Alfred Jules Ayer“ Geymt 1 janúar 2006 í Wayback Machine. Proceedings of the British Academy, 94 (1996), 255-282.
- Rogers, Ben, A.J. Ayer: A Life, Grove Press, 2001. first chapter