Fara í innihald

Rauðáta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rauðáta
Svarthvít mynd sem sýnir útlínur rauðátu.
Svarthvít mynd sem sýnir útlínur rauðátu.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking: Krabbadýr (Crustacea)
Flokkur: Maxillopoda
Ættbálkur: Svifkrabbaflær (Calanoida)
Ætt: Calanidae
Ættkvísl: Calanus
Tegund:
C. finmarchicus

Tvínefni
Calanus finmarchicus
(Gunnerus, 1770)

Rauðáta (fræðiheiti: Calanus finmarchicus) er svifdýr af ættbálki krabbaflóa. Um 170 tegundir svifdýra hér við land teljast til ættbálks krabbaflóa (Ástþór Gíslason, 2000). Rauðátan er eitt af algengustu svifdýrum sem finnast í Norður-Atlantshafi(Conover 1988). Hún er einnig algengasta tegund átu sem finnst í hafinu við Ísland (Gislason, Gaard, Debes, & Falkenhaug, 2008). Á mynd 1 er rauðátan táknuð með rauðum lit og sést þar vel hvernig dreifing hennar er (Census of Marine Life, 2009).

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sá fyrsti til að lýsa rauðátu var biskup frá Noregi að nafni Johan Ernst Gunnerus, það gerði hann árið 1770 og er rauðátan einnig kölluð Gunnerus í höuðið á honum.(Marshall og Orr 1972). Johan Ernst Gunnerus nefndi rauðátuna fyrst Monoculus finmarchicus sem þýðir eineigða dýrið frá Finnmörku, en þar fann hann rauðátuna fyrst, síðar var nafninu svo breytt í Calanus finmarchicus. Eins og upprunalega nafni gefur til kynna hefur rauðátan aðeins eitt auga.

Útlit[breyta | breyta frumkóða]

Núverandi nafn sitt dregur hún af rauðum litarefnum, karótínlitarefnum, sem eru í forðanæringu hennar á sumrin. Á sumrin þegar rauðátan er mjög rauð er hún full af næringu en þegar líður á vetur minnkar forðanæringin og þar af leiðandi rauði liturinn, eins og sést vel á mynd 2 (Centre of Ecotoxicology and Experimental Biology, e.d.). Fullvaxin er rauðátan um 4 mm og er hún með stærstu krabbaflóununm. Líkami hennar skiptist í höfuð, frambol og afturbol. Höfuðið og frambolurinn er samvaxinn og myndar höfuðbol. Á höfði rauðátunnar eru tveir langir fálmarar sem hún notar til að synda, þar fyrir aftan eru aðrir fálmarar, kallaðir aftari fálmarar. Á höfðinu er einnig einn bitkrókur og tveir kjálkar. Fyrir aftan kjálkana koma kjálkfótar og síðan koma sundfæturnir, en þeir líkjast árablöðum. Afturbolurinn er liðskiptur og er aftasti liðurinn klofinn og eru þar löng hár. Eins og hjá öðrum liðdýrum er líkami rauðátunnar umlukinn kítínskel og þar af leiðandi þarf hún að hafa skelskipti til að vaxa. Aftari fálmarana, bitkrókana, kjálkana og kjálkafæturnar notar rauðátan til að afla sér fæðu, en hún síar smáar fæðuagnir úr sjónum.

Lífsferill[breyta | breyta frumkóða]

Egg rauðátu eru um 0,05 mm í þvermál og klekjast á tveim til þrem dögum. Klakningin á sér stað í sex naupliar stigum (N1-N6) og fimm copepodite stigum (C1-C5) áður en hún verður fullvaxin. Í hverju naupliar stigi verður lirfan stærri og flóknari í byggingu en í þessum stigum er rauðátan ólík foreldrum sínum. Eftir naupliar stigin sex fylgja fimm önnur umbreytingarstig, þar til rauðátan hefur náð fullum þroska, í þeim stigum er rauðátan farin að líkast foreldrum í flestu nema stærð. Í dæmigerðum vorsjó við rétt hitastig tekur ferlið frá eggi til fullorðinna rauðátu um 30-40 daga. Fullvaxin rauðáta er um 4 mm löng, rík af bæði fitefni og fitusýru. (FRS, e.d.; MacGill, e.d.) Rauðátan er umlukin skel og til að geta vaxið þarf hún að hafa skelskipti, þar sem losar sig við gömlu skelina og ný vex í staðinn. Í lífsferlinu sem sjá má á mynd 2, skiptir rauðátan alls 11 sinnum um skel áður ern hún kynþroska kvendýr eða karldýr. (Ástþór Gíslason, 2000)

Lífshættir[breyta | breyta frumkóða]

Á veturna er lítið um rauðáti, því þá liggja þær í dvala, ókynþroska í dýpri lögum sjávar eða í um 500 -2500 m dýpi. Þegar vorið nálgast eða í mars - apríl, leita þær upp í yfirborðslögin og verða kynþroska. Þar hrygnir rauðátan og ungviðið klekst út eftir 24-72 klst. frá hrygningu, ungviðin halda sig svo í yfirborðslögunum. Þessar rauðátur verða kynþroska áður en haustið kemur og til verður önnur kynslóð. Það er síðan sú kynslóð sem leggst í dvala í dýpri lögum sjávar yfir veturinn og hringrásin hefst aftur næsta vor. Vöxtur og kynþroski rauðátunnar er háður hitastigi sem veldur því að á köldum hafsvæðum nær aðeins ein kynslóð að þróast á ári en ekki tvær líkt og annarsstaðar. (Fisheries Research Services [FRS], e.d.; Hreiðar Þór Valtýsson, 2011; Macgill, e.d.)

Fæða[breyta | breyta frumkóða]

Helsta fæða rauðátu eru svifþörungar, einkum kísil- og skoruþörungar. Einnig eru frumdýr eins og bifdýr og svipudýr mikilvæg fæða fyrir hana. Rauðátan er sögð vera mikilvægur tengiliður á milli frumframleiðslu svifþörunga og dýra sem eru ofarlega í fæðukeðjunni. Rauðátan er mikilvægur þáttur í fæðu fiskistofna sem nýttir eru við Ísland. Þegar fiskarnir eru á lirfu- og seinastigi eru þeir háðir henni um fæðu. Rauðátan er til dæmis helsta fæða loðnu og síldar (Ástþór Gíslason, 2000).

Nytjar[breyta | breyta frumkóða]

Engar sérstakar veiðar eru á rauðátu en engu að síður hefur hún mikla vistfræðilega þýðingu í hafinu vegna þess hve mikið er til af henni. Rauðátan er lykilþáttur í vistkerfi hafsins og er mikilvægur hlekkur fyrir matvæli úr sjónum, því hún fær orku frá frumframleiðendum. Aðrar stærri sjávar lífverur nærast svo á rauðátunni og fá orkuna frá þeim, dæmi um þau dýr eru uppsjávarfiskar svo sem síld og loðna. Líkt og hefur komið fram áður nærast lirfur og seiði fiskanna á svifdýrum, rauðátu. Yngstu stig fisklirfa lifa á eggjum og smæstu lirfustigum rauðátu en þeir fiskar sem eru eldri éta stærri rauðátur, fullþroskaðar. Til þess að fiskalirfurnar lifi af þarf að vera til nóg æti, af réttri stærð og í réttu magni. Ef rauðátan hrygnir of snemma á vorin eða of seint miðað við klak fiskanna eða að hrygningarstaður rauðátunnar og fiskanna er ekki sá sami er hætta á ætisskorti hjá fisklirfunum. Það hefur þau áhrif að sú kynslóð af fiskum verði þá minni en ella. (Ástþór Gíslason, 2000)Dæmi um áhrif þess að átustofn hrundi eru þær breytingar sem urðu á göngumynstri norsk-íslensku síldarinnar um miðjan sjöunda áratug. Síldin kom í fæðuleit til landsins að norðanverður en hvarf síðan af íslandsmiðum vegna þess að magn átu var ekki nægt. (Ástþór Gíslason, 2000)

Í gegnum tíðina hefur rauðáta verið rannsökuð mikið. Í Noregi hafa verið stundaðar tilraunir til að veiða rauðátuna og vinna úr henni efni til að nota í laxafóður. Einnig hafa verið gerðar rannsóknir í háskólinn í Tromsö í Noregi sem leiddu í ljós að lýsi sem unnið var úr rauðátu innihélt mikið magn af omega-3 fitusýrum en einnig innihélt lýsið efni sem vinnur gegn offitu og sykursýki 2. (Fiskifréttir, 2010) Tilraunirnar með rauðátulýsið sem gerðar voru við háskólann í Tromsö, fólust í því að skoða hvaða áhrif lýsið hefði á mýs og rottur. Síðar átti að kanna hvort lýsið hefði einhver áhrif á mannslíkamann, komið hefur fram að mannslíkaminn þolir rauðátulýsið vel og því fylgja engar aukaverkanir. (Fiskifréttir, 2010)

Einnig hafa verið gerðar rannsóknir á næringarinnihaldi í rauðátu, þær hafa sýnt að heildarfitusýrumagn hennar á fyrstu þrem þroskastigum sé á bilinu 10-19% og það eykst upp í 22-25% við frekari þroska. Rauðáta lifir aðeins í stuttan tíma og er eins og fram hefur komið neðarlega í fæðukeðjunni sem gerir það að verkum að hún inniheldur lítið magn af eiturefnum, sem þyrfti að hreinsa burt áður en hægt væri að vinna úr henni. Hægt væri að framleiða góða lýsisafurð úr rauðátunni og öðru dýrasvifi sem myndi innihalda mun hærra hlutfall eftirsóttra fitusýra heldur en lýsi sem unnið væri úr þroski, ufsa eða öðrum fisktegundum sem eru ofar í fæðukeðjunni. (Jónína Þ. Jóhannsdóttir, Hugrún Lísa Heimisdóttir, Friðbjörn Möller og Rannveig Björnsdóttir, 2010)

Árið 2009 var gerð tilraun, á vegum matís, á ræktun náttúrulegs dýrasvifs í þeim tilgangi að athuga hvort hægt væri að rækta dýrasvif sem nýti mætti seinna sem fóður fyrir fiskeldi. Niðurstöður sýndu að villt dýrasvif er mjög viðkvæmt fyrir hverskyns meðhöndlun og mikil afföll voru fyrstu dagana. Mikið magn safnaðist af rauðátu sem lengst tókst að halda lifandi í 4 vikur í ræktunartönkum eftir innsöfnun. Í þessar 4 vikur var enginn eggja framleiðsla hjá rauðátunni sem gæti bent til þess að ræktunaraðstaðan uppfylli ekki þau skilyrði sem verða að vera til staðar svo dýrin geti þroskast eðlilega. Í Noregi hefur dýrasvif verið ræktað hjá SINTEF og gengið hefur vel að rækta dýrin og framleiða egg, munir milli verkefni matísar og SINTEF í Noregi var sá að matís notaði þörunga í þykkni en SINTEF notaðist við lifandi þörunga sem ræktaðir eru á stöðinni. (Jónína Þ. Jóhannsdóttir o.fl., 2010)

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]