Fara í innihald

Óttar frá Hálogalandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Upphaf frásagnar Óttars á fornensku í bók Orosiusar: „Óttar sagði lávarði sínum, Elfráði konungi, að hann ætti heima nyrst allra Norðmanna. Hann kvaðst búa á norðanverðu landinu við Vesturhafið. Hann sagði, að land þetta næði þó langt norður þaðan, en það er allt í auðn, nema Finnar byggju strjált á fáum stöðum og stunda veiðar á vetrum, en fiski í sjónum um sumur.“

Óttar frá Hálogalandi (fornenska: Ohthere of Halogland ) var norskur sjómaður og kaupmaður sem einungis er þekktur af þeirri frásögn af ferðum sínum og landalýsingum sem hann gaf konungi Engilsaxa, Elfráði hinum ríka (fornenska : Ælfrēd), um árið 890.  Elfráður (einnig nefndur Alfreð mikli) var konungur í engilsaxneska konungsdæminu Wessex frá 871 til 899. Frásögn Óttars var felld inn í fornenska útfærslu á latneskri sögubók sem skrifuð hafði verið snemma á fimmtu öld af Paulus Orosius, en hún var nefnd  Historiarum Adversum Paganos Libri VII , eða Sjö bækur um Söguna gegn heiðingjum. Talið er að fornenska útgáfan af þessari bók hafi verið skrifuð í Wessex meðan Elfráður konungur lifði eða fljótlega eftir dauða hans og elsta handritið sem finnst var skráð á þeim tíma.

Það eru engar frásögur af ferð Óttars til Wessex eða skýringar á heimsókn hans til Elfráð konungs.

Óttar sagði að hann ætti heimili á Halgolandi (Hálogalandi) og hann „ætti heima nyrst allra Norðmanna ...  sagði hann að enginn maður byggi norðan við hann“.

Óttar sagði ítarlega frá ferðum sínum norður í Íshaf og lengra austur eftir inn í Hvítahaf og síðar suður til Danmerkur. Hann talaði líka um Sweoland (Svíaland), um Finna (Sama), um þær þjóðir sem kölluðust Cwenas (Kvenir) sem bjuggu norður af Svíum og Terfinna og Beormas (Bjarmar), sem hann fann við Hvítahafið. Óttar sagði frá því að Bjarmar og Finnar mæltu á nærfellt sömu tungu .

Óttars saga er elsta þekkta ritaða heimildin um heitið Danmörk (dena mearc) og ef til vill einnig fyrir Noreg (norðweg).

Sögurit[breyta | breyta frumkóða]

Historiarum adversum paganos libri VII eftir Orosius var vinsælt sögurit á miðöldum. Um 250 afrit af bókinni frá miðöldum hafa varðveist en einungis tvö handrit sem eru álitin skrifuð um 890.

Engilsaxneska útgáfan af frumtexta Orosiusar er frekar aðlögun en bein þýðing. Útgáfan einkennist af viðbótum og leiðréttingum á upplýsingum sem fjalla um landafræði Evrópu.  Auk frásagnar Ottars af ferðum sínum er frásögn annars ferðalangs, Wulfstan, sem ferðaðist frá Heiðabæ inn í Eystrasaltið, mikilvæg í ritinu.

Um Óttar[breyta | breyta frumkóða]

Óttar kvaðst búa á Halgoland nyrst í Noregi. Halgoland fornenskunar samsvarar Hálogalandi Íslendinagsagna og var sögulegt svæði í Norður-Noregi á miðöldum norðan við Þrændalög. Hálogaland samsvarar núverandi Norðurlandsfylki og suðurhluta Tromsfylkis.  Ekki er hægt að vita nánar hvar Óttar bjó, en talið er sennilegt að það sé ekki langt frá núverandi Tromsø. Hann sagðist vera í hópi fremstu manna landsins, en átti þó ekki nema 20 nautgripi, 20 sauðkindur og 20 svín. Það litla, sem hann plægði, gerði hann með hestum.

Hann sagðist einnig vera mjög auðugur. Meðal annars átti hann 600 tamin hreindýr, þar af sex „ginnhreindýr“ som notuð voru til að veiða villt hreindýr. En aðaltekjur höfðingja á Hálogalandi, sagði hann að væri skattur sem Finnar greiddu þeim. Sá skattur var í grávöru, fiðri, hvalbeini og svarðreipi, gerðu úr rostungaskinni eða selskinni. Til samanburðar segir Egils sagaÞórólfur Kveldúlfsson hafi sent skip frá Hálogalandi til Englands hlaðið skreið og húðum og grávöru og annari skinnavöru. Stórmenni frá Norður-Noregi versluðu þannig beint við England. Í heimferðinni samkvæmt, Egils sögu, var skipið hlaðið hveiti og hunangi, víni og klæðum.

Noregslýsing Óttars[breyta | breyta frumkóða]

Frásögn Óttars er elsta landlýsing Noregs og einnig fyrsta ritheimild um notkun hugtaksins Noregur (norðurweg). Elsta eintak hins engilsaxneska rits Orosiusar, er um 80 árum eldri en rúnaristan Nuruiak á  Jalangurssteininum frá um 950 sem er lesið sem „Noregur“.

Óttar sagði, að land Norðmanna væri mjög langt og mjög mjótt, og það af því sem nytjað verður til beitar eða ræktunar liggur nær hafi og er þó sums staðar mjög grýtt. Óttar sagði að byggðarlöndin væru breiðust austast, en mjókka stöðugt eftir því sem norðar dregur. Austan til geta þau orðið 60 mílna (fornenskar mílur samsvarandi 100 km) breið eða enn breiðari; um mitt landið 30 mílur (um 50 km)  eða breiðari. Norðan til, þar sem landið er mjóst, eru einungis þrjár mílur (um 5 km) inn að heiðunum, en heiðarnar eru sums staðar svo breiðar, að yfir þær er hálfsmánaðar ferð, en annars staðar tekur slíkt ferðalag sex daga. Óttar vísar hér til breiddar norska svæðisins milli hafs og fjalla, en þar sem landinu er lýst sem um það bil 100 km þvert „til austurs“, ber væntanlega að skilja sem nú er nefnt Vestur-Noregur.

Austan við land Norðmanna liggja eyðiheiðar ofar endilangri byggðinni. Á heiðum þessum búa Finnar (Finnas). Handan við heiðarnar liggur Svíaland (Swēoland) meðfram landinu sunnan til, en meðfram norðurhluta þess Kvenland (Cwēna land). Stundum gera Kvenir herhlaup yfir heiðarnar á Norðmenn, en stundum ráðast Norðmenn á þá. Hinum megin við heiðarnar eru mörg stórvötn, og bera Kvenir báta sína yfir land að vötnunum og herja þaðan á Norðmenn. Bátar þeirra eru mjög litlir og léttir.

Þeir Finnar sem hér eru nefndir eru sennilega það fólk sem nú er nefnt Samar, en ekki allir fræðimenn eru vissir um það.[1] Það er einnig umdeilt hvort þeir Kvenir sem Óttar talar um og eru einnig nefndir til dæmis i Egils sögu séu samsvarandi þeim minnihlutahóp sem nú eru nefndi Kvenir í Noregi.[2]

Ferðir Óttars[breyta | breyta frumkóða]

Óttar lýsti tveimur ferðum sem hann hafði farið: aðra norður og austur frá Hálogalandi, og hina suður til dönsku verslunarbyggðarinnar Heiðabæjar með viðkomu í norskri „höfn“ sem á fornensku Orosiusar er kölluð „Sciringes heal“. Hann lýsti ferðum sínum að hluta til um lönd og þjóðir sem hann hitti og að hluta til fjölda daga sem það tók að sigla frá einum stað til annars.

Ferð til norðurs[breyta | breyta frumkóða]

Óttar sagði að fyrir norðan þar sem hann byggi væri allt land í auðn, nema Finnar byggju strjált á fáum stöðum og stunduðu veiðar á vetrum, en fiski í sjónum um sumur. Hann sagði, að eitt sinn fýsti sig að vita, hve langt landið lægi til norðuráttar og hvort nokkur maður byggi norðan öræfanna. Sigldi hann norður með landinu í um þrjá daga, lét hann alla leiðina óbyggðirnar vera á stjórnborða, en úthafið á bakborða. Sagðist hann þá vera kominn á nyrstu slóðir hvalveiðimanna. Þegar hann hafði siglt í þrjá daga í viðbót þá víkur landinu til austurs eða hafið gekk inn í landið. Hann vissi ekki hvort heldur var. Sigldi hann síðan áfram í fjóra daga þar til landið vék til suðuráttar. Þetta mun hafa verið Hvítahafið eða Gandvík eins og það var nefnt að fornu á íslensku en Óttar nefnir hér engin örnefni. Sigldi hann síðan suður með landinu í fimm daga. Þá féll þar mikið fljót ofan af landi, sennilega það fljót sem nefnt  er Varzuga eða fljótið Dvina. Hinum megin við fljótið sagði hann landið vera albyggt og var þetta fyrsta byggða ból, frá því er hann fór frá heimkynnum sínum.  Sagði hanna að alla leiðina voru óbyggðir á stjórnborða, „en þar hafast engir við nema fiskimenn, fuglafangarar og veiðimenn og eru allir Finnar, en úthaf var ávallt á bakborða“. Nefnir Óttar sérlega að land Terfinna var allt í auðn, nema þar sem veiðimenn, fiskimenn og fuglafangarar dvöldust. Sennilega voru Terfinnar samaþjóðflokkur sem bjó á Kólaskaga.[3]

Hitti hann einnig fyrir Bjarma (Beormas), og höfðu þeir byggt land sitt vel. Bjarmar hermdu honum margar frásagnir bæði af löndum sínum og einnig þeim löndum, sem utar lágu, en hann vissi ekki, hvað hæft var í sögum þessum, af því að hann hafði ekki séð lönd þessi sjálfur. Honum virtist sem Finnar og Bjarmar mæltu á nærfellt sömu tungu.

Hann fór þessa ferð að nokkru leyti í því skyni að kanna landið, en einkum sökum rostunga, „því að þeir hafa mjög verðmætar skögultennur“ og svo nefnd svarðreipi sem voru afar sterk og gerð þannig að rostungshúðin var flegin af skrokknum í löngum lengjum.

Suðureftir[breyta | breyta frumkóða]

Blaðsíða úr 11. aldar afriti frásögunnar á fornensku í bók Orosius (BL Cotton Tiberius B.i) þar sem meðal annars má lesa Danmörk (dena mearc), Noregur (norðweg), Iraland og Sciringes heal.

Frásögn af ferð til dönsku verslunarbyggðarinnar Heiðabær (á fornensku æt Hæþum ", dönsku Hedeby) , hefst á tilvísun í stað í suðurhluta Noregs sem heitir Sciringes heal  á fornensku og er sennilega sami staður sem var nefnt Skíringssalur í Ynglingasögu Snorra Sturlusonar. Sagði Óttar að það tæki mánuð að sigla, frá heimili sínu á Hálogalandi ef tjaldað væri á nóttunni og siglt með þokkalegan byr að degi til og þá ávallt siglt meðfram landi.

Sagði Óttar  að á stjórnborða verði fyrst Íraland, og síðan eyjar þær, sem liggja milli Íralands og Bretlands uns hann kemur til Skíringssalar. Alla leiðina er Noregur á bakborða. Nafnið Íraland hér hefur valdið fræðimönnum heilabrotum. Þó hugsanlegt sé að upprunalegi texti frásagnar Óttars hafi verið „Ísaland“ fyrir „Íraland“ og að „s“ hafi einhvern tíma verið skipt út fyrir „r“, þá henta þær aðstæður sem lýst er landfræðilega betur fyrir Ísland en Írland.  

Suður af Skíringssal gengur mjög mikið haf inn í landið, það er Skagerak og Kattegat. Það er breiðara en svo, að yfir það fái séð, og liggur Jótland hinum megin við það, en þá Sillende (sem sennilega er Suður-Jótland).

Frá Skíringssal kvaðst hann hafa siglt suður í 5 daga til hafnar, sem nefnist Heiðabær. Höfn þessi liggur milli Vinda, Saxa og Engla og lýtur undir Dani. Þegar hann sigldi þangað frá Skíringssal, var Danmörk á bakborða í þrjá daga. Á Óttar hér eflaust við Skán eða þar sem nú er suðurhluti Svíþjóðar en var um aldir hlluti af Danmörku.

Ástæðan fyrir heimsókn Óttars til Elfráðs konungs af Wessex er ekki skráð. Ekki er heldur minnst á það í fornensku bók Orosiusar hversu nýlegar ferðirnar voru þegar Óttar lýsti þeim fyrir konungi, hvar þeir hittust, eða hvaða leið Óttar kom til Suður-Englands.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Julku, Kyösti: Kvenland – Kainuunmaa. With English summary: The Ancient territory of Kainuu. Oulu, 1986.
  2. Korhonen, Olavi: "Håp – vad är det för en båt? Lingvistiska synpunkter. Bottnisk kontakt I. Föredrag vid maritimhistorisk konferens i Örnsköldsvik 12–14 februari 1982. Örnsköldsvik 1982."]
  3. Jackson, Tatjana N. (2002-01). „Bjarmaland Revisited“. Acta Borealia (enska). 19 (2): 165–179. doi:10.1080/080038302321117579. ISSN 0800-3831.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Björn Þorsteinsson, „Íraland = Ísland“. Tímarit Máls og menningar. 26 árgangur, 1. tölublað, 1965, blaðsíða 172-181. Tímarit.is
  • E. R. Barraclough, Beyond the Northlands. Oxford University Press, 2016. ISBN 978-0-19-870124-8
  • Thorpe, B., ed. (1900), The Life of Alfred The Great Translated From The German of Dr. R. Pauli To Which Is Appended Alfred's Anglo-Saxon Version of Orosius, Bell, Internet Archive (samhliða textasíður á fornensku og nútíma ensku)
  • Østigård, Terje, Norge uten nordmenn, Spartacus, 2001. ISBN 9788243001909