Hálogaland
Hálogaland eða Hålogaland er gamalt nafn á landsvæði norðarlega í Noregi. Á 9. og 10. öld var það nafn á sjálfstæðu smákonungdæmi sem náði yfir hluta af Tromsfylki, Nordland og suður í Norður-Þrændalög, það er að segja þann hluta Norður-Noregs sem byggður var norrænum mönnum. Norðan við Hálogaland var Finnmörk, þar sem Samar bjuggu. Það virðist líka hafa náð langt til austurs, inn í Norður-Svíþjóð og Finnland. Hálogaland er oft nefnt í Íslendinga- og Noregskonungasögum.
Nú á dögum er heitið Hálogaland oft notað yfir fylkin Nordland, Troms og Finnmörk, til dæmis eru biskupsdæmi og dómstólar í Norður-Noregi kennd við Hálogaland.
Samkvæmt fornaldarsögum norðurlanda er uppruni heitisins sá að það náði yfir ríki konungs að nafni Logi sem hlaut viðurnefnið 'há' fyrir einhverra hluta sakir.