Ólympsguðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ólympsguðir eftir Monsiau frá síðari hluta 18du aldar.

Ólympsguðir eða guðirnir tólfforngrísku Δωδεκάθεον < δώδεκα (dodeka) „tólf“ + θεοί (þeoi) „guðir“) voru meginguðirnir í grískri goðafræði (og síðar einnig í rómverskri goðafræði). Þeir voru taldir búa á Ólympsfjalli í Grikklandi. Elsta ritaða heimildin um helgiathafnir þeim til heiðurs er í hómeríska sálminum til Hermesar. Oftast voru Ólympsguðirnir taldir vera: Seifur, Hera, Póseidon, Demetra, Ares, Aþena, Apollon, Artemis, Hefæstos, Afródíta, Hermes og Díonýsos. Samsvarandi guðir Rómverja voru: Júpíter, Júnó, Neptúnus, Ceres, Mars, Mínerva, Apollon, Díana, Vúlkan, Venus, Merkúríus og Bakkus. Hades (hjá Rómverjum: Plútó) var venjulega ekki talinn til Ólympsguða vegna þess að hann dvaldist í undirheimum en ekki á Ólympsfjalli. Stundum var Hestía (hjá Rómverjum: Vesta) talin til Ólympsguða.[1] Þegar Díonýsosi var boðið í hópinn urðu Ólympsguðir þrettán en úr því að þrettán var talin óheillatala yfirgaf Hestía hópinn til þess að forðast illdeilur.

Þegar í fornöld var þó á reiki hverjir tilheyrðu hópnum. Um 430 f.Kr. taldi sagnaritarinn Heródótos að Ólympsguðir væru eftirfarandi: Seifur, Hera, Póseidon, Hermes, Aþena, Apollon, Alfeifur, Krónos, Rhea og þokkagyðjurnar þrjár. Fornfræðingurinn þýski Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff taldi að útgáfa Heródótosar væri rétt.[2]

Ólympsguðir komust til valda eftir að Seifur hafði leitt þá til sigurs í baráttunni gegn frændum sínum Títönunum. Seifur, Hera, Póseidon, Demetra, Hestía og Hades voru systkin. Ares, Hermes, Hefæstos, Afródíta, Aþena, Apollon, Artemis, þokkagyðjurnar þrjár, Herakles, Díonýsos, Heba og Persefóna voru öll börn Seifs. Í sumum útgáfum goðsagnanna var Hefæstos þó eingetinn af Heru og Afródíta var samkvæmt Hesíódosi dóttir Úranosar og því föðursystir Seifs.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar bjuggu rómversku guðirnir? Voru þeir líka á Ólympsfjalli með grísku guðunum?“. Vísindavefurinn 6.11.2009. http://visindavefur.is/?id=53901. (Skoðað 14.1.2010).
  2. Ulrich von Wilamowitz-Moellendorff, Der Glaube der Hellenen 1sta bindi (Berlín: Weidmansche Buchhandlung, 1931–1932), 329.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvar bjuggu rómversku guðirnir? Voru þeir líka á Ólympsfjalli með grísku guðunum?“. Vísindavefurinn.