Ástríkur heppni
Ástríkur heppni (franska: La Grande Traversée) er frönsk teiknimyndasaga og 22. bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1975. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1977.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan hefst á því að Slorríkur, fisksali Gaulverjabæjar, verður uppiskroppa með fisk. Sjóðríkur upplýsir að fiskur sé ómissandi hráefni í hinn dularfulla kjarnadrykk og því ákveða Ástríkur og Steinríkur að halda til fiskjar. Þeir hreppa óveður og lenda í hafvillum.
Eftir langa mæðu koma þeir að ókunnri strönd. Steinríkur telur þá ranglega stadda í námunda við Gaulverjabæ en fljótlega birtast þeim torkennileg dýr og ennþá undarlegri indíánar. Þeir eru teknir höndum, en komast fljótlega til metorða í indíánasamfélaginu. Höfðingi ættbálksins vill gifta dóttur sína Steinríki og ákveða félagarnir þá að tímabært sé að koma sér heim á leið.
Í sömu andrá ber að norræna víkinga sem telja eðlilega að Ástríkur og Steinríkur séu innfæddir og taka þá með sér til höfðingja síns í heimalandi sínu, til sannindamerkis um landafundi sína í Norður-Ameríku. Víkingahöfðinginn, sem hafði aldrei verið trúaður á landafundaævintýrið fagnar gestum sínum vel, uns gallverskur þræll ljóstrar því upp að félagarnir séu ekki indíánar heldur Gallar. Þeir flýja og komast loks til Gaulverjabæjar með full net af ferskum fiski.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Þetta er ein fárra bóka sem ekki endar á að skáldið Óðríkur er bundið og keflað meðan bæjarbúar slá upp veislu. Þess í stað situr Slorríkur fýldur afsíðis og sýnir hinum ferska fiski lítilsvirðingu.
- Í upphaflegu útgáfunni eru víkingarnir sagðir danskir. Í íslensku þýðingunni eru hins vegar ýmsar skírskotanir til Íslandssögunnar. Þannig nefnist einn víkingurinn Leifur heppni, fyrir kemur skáldið og sagnritarinn Ari fróði og gallverski þrællinn ber ekki nafn sem endar á –ríkur, líkt og aðrir Gallar í sagnaflokknum heldur heitir hann Tyrkirr, sem er augljós vísun í hinn þýska Tyrki sem kom fyrir í Grænlendingasögu og var þar í för Vínlandsfara.
- Óvenjumargir myndarammar í bókinni eru með einlitan bakgrunn eða mjög einfaldan. Þykir Ástríkur heppni ekki metnaðarfyllsta verk Uderzo frá myndlistarlegu sjónarhorni.
- Teiknimynd var gerð eftir bókinni árið 1994. Norrænu víkingunum var þó sleppt í myndinni og Sjóðríkur seiðkarl látinn slást í för með Ástríki og Steinríki til Ameríku.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Ástríkur heppni var gefinn út af Fjölvaútgáfunni árið 1977 í íslenskri þýðingu Þórs Stefánssonar, þetta eina bókin í sagnaflokknum sem hann þýddi.