Sjóðríkur seiðkarl
Sjóðríkur er ein af aðalsöguhetjunum í ævintýrum Ástríks gallvaska. Hann er hávaxinn með hvítt, sítt skegg og einatt klæddur í hvítan kyrtil og með rauða skikkju. Hann er seiðkarl þorpsins og bruggar meðal annars galdraseyðið kjarnadrykk sem gefur íbúunum ofurkrafta.
Saga og einkenni
[breyta | breyta frumkóða]Sjóðríkur hefur verið hluti af sagnaheimi Ástríkssagnanna allt frá fyrstu bók: Ástríkur gallvaski frá árinu 1959. Þar sem öryggi íbúa Gaulverjabæjar byggist á kjarnadrykk Sjóðríks, er hann í veigamiklu hlutverki í fjölmörgum sögum, þar sem honum er ýmist rænt af óvinveittum aðilum eða reynist ófær um að útbúa galdradrykk vegna minnisleysis eða skorts á hráefnum. Sjóðríkur er yfirleitt rödd skynseminnar í þorpinu og þarf ítrekað að hafa vit fyrir íbúum þess og bjarga þeim úr vandræðum með töfrabrögðum sínum.