Steinríkur alvaski

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Steinríkur alvaski er sögupersóna í bókaflokknum um Ástrík og víðfræg afrek hans. Besti vinur hans er og félagi er Ástríkur gallvaski. Einnig á Steinríkur hundinn Krílrík (eða Smárík eins og hann er nefndur í bókum útgefnum af öðrum en Fjölva).

Saga og einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Steinríkur hefur verið hluti af sagnaheimi Ástríkssagnanna allt frá fyrstu bók: Ástríkur gallvaski frá árinu 1959. Milli hans og Ástríks er sérstök og órjúfanleg vinátta þrátt fyrir að þeir félagarnir séu um margt ólíkir. Eitt helsta einkenni Steinríks eru ógnarkraftar, sem dvína ekki öfugt við aðra íbúa Gaulverjaþorpsins. Skýringin er sú að Steinríkur féll á barnsaldri ofan í galdrapott Sjóðríks með kjarnadrykknum. Steinríkur þráir heitt að fá að gæða sér á töfradrykk þessum, en að mati Sjóðríks er það ekki óhætt.

Auk þess að búa yfir ofurkröftum er Steinríkur stórbyggður og nokkuð feitlaginn. Sjálfur þrætir hann fyrir að vera feitur og verður það margoft uppspretta brandara í sögunum. Þótt Steinríkur sé að mestu rólyndur, skiptir hann skjótt skapi ef einhver finnur að holdarfari hans.

Steinríkur er átvagl og er eftirlætisfæða hans heilsteikt villisvín. Helsta atvinnugrein hans er að höggva út bautasteina og sést hann oft bera tröllauknar steinklappir á bakinu, jafnvel heilu og hálfu sögurnar. Hans mesta skemmtun er að berja á rómverskum hermönnum, en máttleysi þeirra kemur honum sífellt í opna skjöldu. Uppáhalds orðatiltæki hans er: „Rómverjar eru klikk!“

Líkt og Ástríkur vinur hans, er Steinríkur piparsveinn. Hann er þó ástfanginn af Smáfríði, ungri konu úr þorpinu, sem kemur nokkrum sinnum við sögu í bókaflokknum.