Fara í innihald

Bertrand Russell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bertrand Arthur William Russell
Bertrand Russell 1907
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. maí 1872
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar
Skóli/hefðRaunhyggja, Rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverkPrincipia Mathematica, The Principles of Mathematics, The Problems of Philosophy, The Analysis of Mind, The Analysis of Matter, An Outline of Philosophy, An Inquiry into Meaning and Truth, A History of Western Philosophy, Human Knowledge: Its Scope and Limits
Helstu kenningarPrincipia Mathematica, The Principles of Mathematics, The Problems of Philosophy, The Analysis of Mind, The Analysis of Matter, An Outline of Philosophy, An Inquiry into Meaning and Truth, A History of Western Philosophy, Human Knowledge: Its Scope and Limits
Helstu viðfangsefnirökfræði, stærðfræði, heimspeki stærðfræðinnar, vísindaheimspeki, þekkingarfræði, málspeki, hugspeki, frumspeki, siðfræði
Undirskrift

Bertrand Arthur William Russell (18. maí 18722. febrúar 1970) var breskur heimspekingur, rökfræðingur, stærðfræðingur og rithöfundur, sem skrifaði um mjög fjölbreytileg efni. Í heimspeki og stærðfræði er hann þekktastur fyrir að skrifa ásamt A.N. Whitehead bókina Principia Mathematica, sem kom út í þremur bindum á árunum 1910 til 1913. Með verkinu hugðust þeir sýna fram á að hægt væri að leiða alla hreina stærðfræði út frá vissum rökfræðilegum frumsendum. Þeim tókst ekki ætlunarverkið en samt hefur verk þeirra reynst ákaflega áhrifaríkt. Russell er einnig mjög þekktur fyrir að uppgötva þversögnina, sem við hann er kennd: Russell-þversögnin (the Russell paradox).

Russell var einnig mikilvirkur höfundur bóka um samfélagsleg málefni, svo sem kvenréttindi og hjónaband, stjórnmál, stríð og stríðsvæðingu. Hann var friðarsinni og einarður andstæðingur kjarnorkuvopna. Honum voru veitt bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950.

Bertrand Russell fæddist 18. maí árið 1872 í Ravenscroft í Trellech í Monmouthhéraði í Wales inn í áhrifamikla frjálslynda breska yfirstéttarfjölskyldu. [1] Föðurafi hans, John Russell, 1. jarlinn Russell, var þriðji sonur Johns Russell, 6. hertogans af Bedford. Viktoría Englandsdrottning hafði tvisvar beðið hann að mynda ríkisstjórn og gegndi hann embætti forsætisráðherra hennar á 5. og 7. áratug 19. aldar. Russellfjölskyldan hafði verið áhrifamikil á Englandi öldum saman og hafði komist til metorða á tíma Túdoranna á 16. öld. Móðir Russells, Katharine Louisa (1844 – 1874) var dóttir Edwards Stanley, 2. barons Stanley af Alderley og systir Rosalind Howard, hertogaynju af Carlisle. Móðuramma Russells var meðal stofnenda Girton College í Cambridge.[2]

Rökgreining

[breyta | breyta frumkóða]

Russell er yfirleitt talinn einn af upphafsmönnum rökgreiningarheimspekinnar, og stundum jafnvel talinn upphafsmaður mismunandi strauma og stefna innan hennar. Í upphafi 20. aldar átti Russell ásamt G.E. Moore mikinn þátt í að hrinda af stað bresku „uppreisninni gegn hughyggju“, sem var undir miklum áhrifum frá þýska heimspekingnum G.W.F. Hegel og breskum fylgjanda hans, F.H. Bradley. Þessi uppreisn átti sér hliðstæðu 30 árum síðar í Vínarborg í uppreisn rökfræðilegra raunhyggjumanna gegn frumspekinni. Russell ofbauð einkum kredda hughyggjunnar um innri vensl en samkvæmt henni verðum við að þekkja öll innri vensl fyrirbæris til að geta þekkt fyrirbærið. Russell sýndi að þetta myndi gera tíma og rúm, vísindi og tölur óskiljanleg hugtök. Russell hélt áfram á þessari braut í rökfræði sinni ásamt Whitehead.

Russell og Moore leituðust við að uppræta það sem þeir töldu að væru merkingarlausar og mótsagnakenndar fullyrðingar í heimspeki og þeir miðuðu að skýrleika og nákvæmni í framsetningu raka sinna og notkun nákvæms tungumáls. Þeir tóku heimspekilegar staðhæfingar í sundur og greindu þær í einföldustu parta sína. Russell leit einkum á rökfræðina og vísindin sem ómissandi tól heimspekingsins. Ólíkt fyrirrennurum sínum og flestum samtímamönnum taldi hann raunar ekki að til væri nein sérstök aðferð fyrir ástundun heimspeki. Hann taldi að meginverkefni heimspekingsins væri að varpa ljósi almennustu staðhæfingarnar um heiminn og að uppræta rugling og annan misskilning. Russell vildi binda enda á það sem hann áleit vera öfgar frumspekinnar. Russell tileinkaði sér rakhníf Ockhams, þ.e. þá reglu sem kennd er við William af Ockham að gera ráð fyrir sem fæstum fyrirbærum, og skipaði veglegan sess í aðferðafræði sinni.

Russell var ekki fyrsti heimspekingurinn sem benti á að tungumálið væri mikilvægt til skilnings á heiminum. En Russell lagði meiri áherslu á tungumálið og hvernig við notum tungumálið í heimspeki sinni en nokkur heimspekingur hafði áður gert. Án Russells er ósennilegt að heimspekingar á borð við Ludwig Wittgenstein, Gilbert Ryle, J.L. Austin og P.F. Strawson hefðu farið sömu leið enda voru þeir allir að verulegu leyti að betrumbæta eða bregðast við því sem Russell hafði sagt áður. Og þeir beittu mörgum aðferðum sem hann hafði upphaflega þróað. Russell og Moore voru á einu máli um að skýr framsetning væri kostur en sú hugmynd hefur verið almennt viðtekin meðal málspekinga og annarra heimspekinga innan rökgreiningarhefðarinnar allar götur síðan.

Mikilvægasta framlag Russells til málspekinnar er lýsingahyggjan[3] sem hann setti fram í frægri grein sinni „Um tilvísun“ (e. „On Denoting“) sem birtist fyrst í Mind árið 1905. Greininni lýsti stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Frank P. Ramsey sem „fyrirmyndardæmi um heimspeki“. Kenningunni er yfirleitt lýst með dæmi um „núverandi konung Frakklands“: „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur“. Um hvað er þessi staðhæfing að því gefnu að það er enginn núverandi konungur Frakklands (sem er um þessar mundir lýðveldi)? Alexius Meinong hafði áður lagt til að við yrðum að gera ráð fyrir að í einhverjum skilningi væru til hlutir sem eru ekki til og að við værum að vísa til þeirra í staðhæfingum af þessu tagi. En það er vægast sagt undarleg kenning. Frege beitti greinarmuni sínum á skilningi og merkingu og lagði til að staðhæfingar sem þessar væru hvorki sannar né ósannar enda þótt þær væru merkingarbærar. En staðhæfingar á borð við „Ef núverandi konungur Frakklands er sköllóttur, þá hefur núverandi konungur Frakklands ekki hár á höfðinu“ virðast ekki eingöngu vera merkingarbærar heldur augljóslega sannar, jafnvel þótt það sé enginn núverandi konungur Frakklands.

Bertrand Russell árið 1907.

Vandinn snýst um „ákveðnar lýsingar“ almennt. Hvert er „rökform“ ákveðinnar lýsingar? Ákveðnar lýsingar virðast vera eins og eiginnöfn sem vísa til nákvæmlega eins hlutar. En hvað skal segja um staðhæfinguna í heild sinni ef einn hluti hennar gerir ekki það sem hann á að gera?

Lausn Russells var í fyrsta lagi að greina staðhæfinguna í heild sinni. Hann hélt því fram að það mætti umorða setninguna „Núverandi konungur Frakklands er sköllóttur“ þannig: „Til er x þannig að x er núverandi konungur Frakklands, ekkert annað en x er núverandi konungur Frakklands og x er sköllóttur“. Russell hélt því fram að sérhver ákveðin lýsing fæli í sér fullyrðingu um tilvist og fullyrðingu þess efnis að viðfangsefnið sé eitt og aðeins eitt; en þessar fullyrðingar sem fælust í ákveðinni lýsingu mætti greina að frá umsögninni sem er inntak staðhæfingarinnar. Staðhæfingin í heild sinni segir því þrennt um viðfangið: ákveðna lýsingin segir tvennt (að það sé til og að það sé það eina sem lýsingin á við um) en restin af setningunni segir þriðja atriðið um viðfangið. Ef viðfangið er ekki til eða er ekki það eina sem lýsingin getur átt við um, þá er setningin í heild sinni ósönn en ekki merkingarlaus.

Ein helstu andmælin gegn kenningu Russells eru upphaflega komin frá Strawson og eru á þá leið að ákveðnar lýsingar feli ekki í sér fullyrðingu um að viðfang þeirra sé ekki til, þær geri einungis ráð fyrir því.

Wittgenstein, nemandi Russells, varð býsna áhrifamikill í málspeki, ekki síst eftir útkomu bókar hans Rannsóknir í heimspeki, skömmu eftir að hann lést. Að mati Russells var málspeki Wittgensteins á síðari árum á rangri braut og hann harmaði áhrif hennar og fylgjenda Wittgensteins (ekki síst Oxford-heimspekinganna sem aðhylltust heimspeki hversdagsmáls en Russell vændi þá um dulhyggju). Russell bar þó enn mikla virðingu fyrir Wittgenstein, ekki síst eldra riti hans, Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki. Russell hélt að Wittgenstein væri „ef til vill fullkomnasta dæmi um snilling í venjulegum skilningi“ sem hann vissi um, hann væri „ástríðufullur, djúpur, brjálaður og tilkomumikill“. Það var skoðun Russells að heimspeki ætti ekki að einskorðast við rannsóknir á hversdagsmáli. Sú skoðun naut minni vinsælda um miðbik 20. aldar en er orðin að má heita viðtekin skoðun á ný.

Þekkingarfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Þekkingarfræði Russells tók nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Þegar hann hafði losað sig undan nýhegelismanum sem hann daðraði við á yngri árum hélt hann fast við hluthyggjuna[4] það sem eftir var ævinnar og taldi að skynreynsla okkar væri mikilvægasti þátturinn í tilurð þekkingar. Sumar skoðanir hans eiga síður upp á pallborðið hjá heimspekingum nú um mundir en áhrif Russells eru þó enn mikil. Enn er gengið út frá greinarmuni Russells á „þekkingu af eigin kynnum“ og „þekkingu af lýsingu“. Um tíma taldi Russell að við gætum einungis þekkt beint skynreyndir okkar — hráar skynjanir og upplifanir af litum, hljóði og þar fram eftir götunum — og að allt annað, þar með taldir efnislegir hlutir sem yllu þessum skynreyndum, væri einungis hægt að álykta út frá skynreyndunum — þ.e. þekkt af lýsingu — en ekki beint af eigin kynnum okkar af þeim. Greinarmunurinn er notaður í víðara samhengi af öðrum heimspekingum en Russell hafnaði um síðir skynreyndakenningunni.

Á seinni árum hélt Russell fram einhvers konar einhyggju í anda Baruch Spinoza og taldi að greinarmunurinn á hinu efnislega og hinu andlega skipti á endanum litlu eða engu máli, væri tilviljanakenndur og að hvort tveggja væri á endanum smættanlegt í einn hlutlausan veruleika. Þetta viðhorf er keimlíkt því sem bandaríski heimspekingurinn William James hafði haldið fram og átti á endanum rætur að rekja til Spinoza, sem Russell hafði miklar mætur á. Í staðinn fyrir „hreina reynslu“ James lýsti Russell hins vegar efnivið frumskynjunar okkar sem „atburðum“, en sú afstaða er um margt lík kenningu fyrrum kennara hans og starfsfélaga, Alfreds North Whitehead um veruleikann sem verðandina.

Vísindaheimspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Russell kvaðst oft vera vissari um ágæti aðferðar sinnar við að stunda heimspeki, það er að segja rökgreiningaraðferðina, en um sjálfar niðurstöðurnar. Vísindin voru eitt helsta hjálpartæki hans, auk stærðfræði og rökfræði. Russell trúði staðfastlega á vísindalega aðferð, að þekking yrði til með raunprófanlegum rannsóknum sem væru ítrekað prófaðar. Engu að síður taldi hann að vísindin kæmust ekki nema að sennilegum niðurstöðum og að framfarir væru hægar. Hann trúði raunar því sama um heimspeki. Annar helsti upphafsmaður nútímavísindaheimspeki, Ernst Mach, lagði mun minni áherslu á aðferðina sem slíka því hann taldi að sérhver aðferð sem leiddi til fyrirsjáanlegrar niðurstöðu væri fullnægjandi. Hann taldi einnig að meginverkefni vísindamannsins væri að spá réttilega fyrir um atburði, forspárgildi kenninga væri allt sem máli skipti. Russell taldi á hinn bóginn að endanlegt markmið bæði vísinda og heimspeki væri skilningur á raunveruleikanum en ekki einungis réttar forspár.

Sú staðreynd að Russell gerði vísindunum svo hátt undir höfði í heimspekilegri aðferð sinni var snar þáttur í því að gera vísindaheimspeki að sjálfstæðri undirgrein heimspekinnar sem aðrir heimspekingar sérhæfðu sig í síðar meir. Margar af hugleiðingum Russells um vísindin er að finna í riti hans Our Knowledge of the External World as a Field for Scientific Method in Philosophy sem kom út árið 1914. Ritið hafði meðal annars áhrif á fylgjendur rökfræðilegrar raunhyggju, ekki síst Rudolf Carnap, sem hélt því fram að það sem öðru fremur einkenndi vísindalegar kenningar og staðhæfingar væri sannreynanleiki þeirra. Russell hafði einnig mikil áhrif á Karl Popper sem taldi að höfuðeinkenni vísindalegra kenninga og staðhæfinga væri að þær væru mögulega hrekjanlegar.

Russell hafði mikinn áhuga á vísindum sem slíkum, einkum eðlisfræði, og hann samdi nokkur rit um vísindi handa almenningi, þar á meðal ritin The ABC of Atoms sem kom út árið 1923 og The ABC of Relativity sem kom út árið 1925.

Siðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Russell skrifaði heilmikið um siðfræðileg efni en taldi þó ekki að siðfræðin ætti heima innan heimspekinnar eða að hann væri að skrifa um siðfræði sem heimspekingur.[5] Á yngri árum sínum varð Russell fyrir miklum áhrifum frá riti G.E. Moore Principia Ethica. Eins og Moore taldi hann þá að siðferðilegar staðreyndir væru hlutlægar en yrðu einungis þekktar í gegnum innsæi, þær væru einfaldir eiginleikar hluta en jafngiltu ekki (t.d. ánægja er góð) þeim náttúrulegu fyrirbærum sem þeir eru oft eignaðir (sjá náttúruhyggjuskekkjuna). Þeir töldu að þessa einföldu og óskilgreinanlegu siðferðilegu eiginleika væri ekki hægt að greina á grundvelli annarra eiginleika sem siðferðilegu eiginleikarnir eru oft kenndir við. Þegar fram liðu stundir varð hann á hinn bóginn meira sammála heimspekilegu hetjunni sinni, David Hume, sem taldi að siðferðishugtök vísuðu til huglægra gilda sem ekki er hægt að sannreyna á sama hátt og staðreyndir. Ásamt öðrum kenningum Russells höfðu þessar kenningar áhrif á rökfræðilega raunhyggjumenn, sem settu fram og þróuðu samhygðarhyggju, sem kvað á um að siðfræðilegar staðhæfingar (auk staðhæfinga frumspekinnar) væru í eðli sínu merkingarlausar og óskiljanlegar, og jafngiltu tjáningu á viðhorfum manns og löngunum. Þrátt fyrir áhrifin sem hann hafði á rökfræðilegu raunhyggjumennina tók Russell sjálfur ekki svo djúpt í árinni, því hann taldi siðfræðilegar spurningar merkingarbærar og raunar bráðnauðsynlegar í sérhverri samfélagsumræðu. Þótt Russell væri oft lýst sem dýrlingi skynseminnar var hann þó sammála Hume um að skynsemin ætti að vægja fyrir siðferðinu.

Trúarbrögð og guðstrú

[breyta | breyta frumkóða]

Mest alla ævina hélt Russell því fram að trúarbrögð væru lítið annað en hjátrú og að þrátt fyrir öll jákvæð áhrif sem trúarbrögð eða guðstrú gæti haft væri hún fólki skaðleg. Hann taldi að trúarbrögð og öll önnur kreddutrú (Russell áleit kommúnisma og aðra kerfisbundna hugmyndafræði vera af þeim toga eins og trúarbrögðin) væru hindrun í vegi þekkingar, ælu á ótta og ósjálfstæðri hugsun og væru rótin að mörgum stríðum, kúgun og þjáningu í heiminum.

Í ræðu sinni frá 1949 „Am I an Atheist or an Agnostic?“ ræddi Russell um vafa sínum um hvort hann ætti að kalla sjálfan sig guðleysingja (e. atheist) eða trúleysingja (e. agnostic)[6]:

Gæsalappir

Ef ég væri einungis að tala við heimspekinga myndi ég sem heimspekingur lýsa sjálfum mér sem trúleysingja, vegna þess að ég held að það sé ekki með neinu móti hægt að sýna í eitt skipti fyrir öll að það sé ekki til neinn guð. Á hinn bóginn, ef ég vil gefa venjulegum manni úti á götu rétta mynd af mér, þá held ég að ég ætti að kalla sjálfan mig guðleysingja, vegna þess að þegar ég segi að ég geti ekki sannað að guð sé ekki til, þá ætti ég að bæta því við að ég get ekki heldur sannað að guðirnir í Hómerskviðum séu ekki til.“

— Bertrand Russell.

Enda þótt Russell drægi síðar í efa tilvist guðs féllst hann þó á námsárum sínum á verufræðilegu rökin fyrir tilvist guðs:

Gæsalappir

Ég var hegelssinni ... í tvö eða þrjú ár. Ég man nákvæmlega á hvaða augnabliki ég varð hegelssinni á fjórtánda ári mínu [árið 1894]. Ég hafði farið út að kaupa tóbaksdós og var á leiðinni til baka með dósina meðfram Trinity Lane þegar ég henti henni skyndilega upp í loftið og hrópaði: „Guð minn góður í stígvélum! — verufræðilegu rökin eru rétt!““

— Bertrand Russell.

Margir guðfræðingar hafa bent á þessa frásögn, þar á meðal Louis Pojman í riti sínu Philosophy of Religion, til þess að sýna lesendum sínum fram á að meira að segja þekktur guðlaus heimspekingur hafi fallist á þessi tilteknu rök fyrir tilvist guðs. Russell segir aftur á móti annars staðar í sjálfsævisögu sinni:

Gæsalappir

Um það bil tveimur árum síðar varð ég sannfærður um að það sé ekkert líf eftir dauðann. En ég trúði samt sem áður á guð vegna þess að rökin um hina „fyrstu orsök“ virtust óhrekjanleg. En þegar ég var átján ára gamall, skömmu áður en ég hélt til Cambridge, las ég Sjálfsævisögu Mills þar sem ég sá að faðir hans hefði kennt honum að við spurningunni „hver skapaði mig?“ væri ekkert svar af því að um leið vaknar spurningin „Hver skapaði guð?“ Þetta varð til þess að ég hafnaði rökunum um hina „fyrstu orsök“ og varð guðleysingi.“

— Bertrand Russell.

Til þess að svara spurningu föður Mills um hver skapaði guð þarf annaðhvort að finna guði skapara (og það leiðir til vítarunu, því hver skapaði hann?) eða halda því fram að guð sé eilífur. En ef hægt er að halda því fram að eitthvað sé eilíft er allt eins hægt að halda því fram að heimurinn sé eilífur og þá er ekki lengur nauðsynlegt að gera ráð fyrir að heimurinn eigi sér einhverja fyrstu orsök (sem væri guð).

Russell hélt seinna fram fimm mínútna tilgátunni gegn naflakenningunni sem Philip Henry Gosse hafði sett fram í riti sínu Omphalos árið 1857. Naflakenningin kveður í stuttu máli á um að guð hljóti að hafa skapað heiminn með fjöllum og fljótum og Adam og Evu með tennur og hár og nafla og þar fram eftir götunum, svo að enginn vitnisburður um að heimurinn sé eldri en sköpunarsagan segir geti verið áreiðanlegur. Russell hélt því fram að þá gæti allt eins verið að heimurinn sé fimm mínútna gamall:

Gæsalappir

Sú tilgáta er ekki röklega óhugsandi að heimurinn hafi orðið til fyrir fimm mínútum síðan, nákvæmlega eins og hann var þá og að íbúar heimsins „muni“ eftir fortíð sem er ekki raunveruleg. Það eru engin röklega nauðsynleg tengsl milli atburða sem eiga sér stað á ólíkum tímum; þess vegna getur hvorki neitt sem er að gerast núna né neitt sem mun gerast í framtíðinni hrakið þá tilgátu að upphaf heimsins hafi verið fyrir fimm mínútum síðan.“

— Bertrand Russell.

Russell var hafði ríka trúarhneigð á yngri árum og hafði meðal annars áhuga á platonisma. Hann vildi uppgötva eilíf sannindi eins og hann greinir frá í ritgerðinni „A Free Man's Worship“, sem er af mörgum talin meistaraverk enda þótt Russell mislíkaði ritgerðin síðar meir. Hann hafnaði allri hjátrú en játaði fúslega að hann þráði einhverja dýpri merkingu í lífinu.

Áhrif á heimspekina

[breyta | breyta frumkóða]

Russell hafði gríðarleg áhrif á þróun nútímaheimspeki, ekki síst í enskumælandi löndum. Russell öðrum fremur gerði rökgreiningu að ríkjandi aðferðafræði í heimspeki. Allar greinar rökgreiningarheimspekinnar eiga að einhverju leyti rætur að rekja aftur til verka Russells.

Russell hafði einnig gríðarleg áhrif á einstaka heimspekinga. Ef til vill hafði hann mest áhrif á Ludwig Wittgenstein, sem var nemandi hans á árunum frá 1911 til 1914. Þó ber að hafa í huga að Wittgenstein hafði þónokkur áhrif á Russell, meðal annars að því leyti að Wittgenstein sannfærði Russell um að stærðfræðileg sannindi væru ekkert nema röksannindi. Merki um áhrif Russells á Wittgenstein eru víða sjáanleg í fyrsta riti Wittgensteins Rökfræðilegri ritgerð um heimspeki, sem Wittgenstein náði að gefa út með hjálp Russells. Russell hjálpaði Wittgenstein einnig að fá Rökfræðilegu ritgerðina um heimpeki samþykkta sem doktorsritgerð og hjálpaði honum að fá kennslustöðu við Cambridge-háskóla og ýmsa styrki. Þeir Russell og Wittgenstein urðu þó um síðir ósammála um nálgun Wittgensteins í málspeki. Russell taldi að nálgun Wittgensteins væri veigalítil en Wittgenstein fannst lítið til alþýðlegra ritverka Russells koma og taldi að heimspeki Russells væri yfirborðskennd. Russell hafði einnig merkjanleg áhrif á A.J. Ayer, Rudolf Carnap, Alonzo Church, Kurt Gödel, Karl Popper, W. V. Quine, David Kaplan, Saul Kripke, John R. Searle og fjölda annarra heimspekinga og rökfræðinga.

Sumir telja að áhrif Russells hafi einkum verið neikvæð, einkum þeir sem gagnrýna Russell fyrir áherslur sínar á vísindi og rökfræði með þeim afleiðingum að frumspekinni var vikið til hliðar og fyrir að halda því fram að siðfræði kæmi heimspekinni ekkert við. Margir af aðdáendum og gagnrýnendum Russells þekkja betur til samfélagsgagnrýni hans, stjórnmálaskoðana og gagnrýni á trúarbrögðin. Það er rík tilhneiging til þess að meta Russell sem heimspeking í umfjöllun um þessi efni, sem hann taldi að kæmi heimspekinni ekki við. Russell bað fólk oft að gæta að þessum greinarmuni.

Russell skildi eftir sig gríðarlegt magn rita. Allt frá unglingsárum skrifaði Russell um 3.000 orð á dag með fáum leiðréttingum; fyrsta uppkast var venjulega lokaútgáfan, jafnvel í umfjöllun um flókin og tæknileg mál.

Helstu ritverk Russells

[breyta | breyta frumkóða]
  • 1896, German Social Democracy London: Longmans, Green.
  • 1897, An Essay on the Foundations of Geometry, Cambridge: Cambridge University Press.
  • 1900, A Critical Exposition of the Philosophy of Leibniz, Cambridge: Cambridge University Press.
  • 1903, The Principles of Mathematics, Cambridge: Cambridge University Press.
  • 1910, Philosophical Essays, London: Longmans, Green.
  • 1910–1913, Principia Mathematica (ásamt Alfred North Whitehead), 3 bindi, Cambridge: Cambridge University Press.
  • 1912, The Problems of Philosophy, London: Williams and Norgate.
  • 1914, Our Knowledge of the External World as a Field for Scientific Method in Philosophy, Chicago og London: Open Court Publishing.
  • 1916, Principles of Social Reconstruction, London: George Allen & Unwin.
  • 1916, Justice in War-time, Chicago: Open Court.
  • 1917, Political Ideals, New York: The Century Co.
  • 1918, Mysticism and Logic and Other Essays, London: Longmans, Green.
  • 1918, Roads to Freedom: Socialism, Anarchism, and Syndicalism, London: George Allen & Unwin.
  • 1919, Introduction to Mathematical Philosophy, London: George Allen & Unwin.
  • 1920, The Practice and Theory of Bolshevism, London: George Allen & Unwin.
  • 1921, The Analysis of Mind, London: George Allen & Unwin.
  • 1922, The Problem of China, London: George Allen & Unwin.
  • 1923, The Prospects of Industrial Civilization (ásamt Doru Russell), London: George Allen & Unwin.
  • 1923, The ABC of Atoms, London: Kegan Paul, Trench, Trubner.
  • 1924, Icarus, or the Future of Science, London: Kegan Paul, Trench, Trubner.
  • 1925, The ABC of Relativity, London: Kegan Paul, Trench, Trubner.
  • 1925, What I Believe, London: Kegan Paul, Trench, Trubner.
  • 1926, On Education, Especially in Early Childhood, London: George Allen & Unwin. — Íslensk þýðing: Uppeldið, Rvík 1937. Ármann Halldórsson þýddi.
  • 1927, The Analysis of Matter, London: Kegan Paul, Trench, Trubner.
  • 1927, An Outline of Philosophy, London: George Allen & Unwin.
  • 1927, Why I Am Not a Christian, London: Watts. — Íslensk þýðing: Af hverju ég er ekki kristinn, Rvík 2006. Ívar Jónsson þýddi.
  • 1927, Selected Papers of Bertrand Russell, New York: Modern Library.
  • 1928, Sceptical Essays, London: George Allen & Unwin.
  • 1929, Marriage and Morals, London: George Allen & Unwin.
  • 1930, The Conquest of Happiness, London: George Allen & Unwin. — Íslensk þýðing: Að höndla hamingju, Rvík 1997. Skúli Pálsson þýddi og ritaði eftirmála.
  • 1931, The Scientific Outlook, London: George Allen & Unwin.
  • 1932, Education and the Social Order, London: George Allen & Unwin.
  • 1934, Freedom and Organization, 1814–1914, London: George Allen & Unwin.
  • 1935, In Praise of Idleness, London: George Allen & Unwin.
  • 1935, Religion and Science, London: Thornton Butterworth.
  • 1936, Which Way to Peace?, London: Jonathan Cape.
  • 1937, The Amberley Papers: The Letters and Diaries of Lord and Lady Amberley (ásamt Patriciu Russell), 2 bindi, London: Leonard & Virginia Woolf at the Hogarth Press.
  • 1938, Power: A New Social Analysis, London: George Allen & Unwin.
  • 1940, An Inquiry into Meaning and Truth, New York: W. W. Norton & Company.
  • 1945, A History of Western Philosophy and Its Connection with Political and Social Circumstances from the Earliest Times to the Present Day, New York: Simon and Schuster.
  • 1948, Human Knowledge: Its Scope and Limits, London: George Allen & Unwin.
  • 1949, Authority and the Individual, London: George Allen & Unwin. — Íslensk þýðing: Þjóðfélagið og einstaklingurinn, Rvík 1951. Sveinn Ásgeirsson þýddi.
  • 1950, Unpopular Essays, London: George Allen & Unwin.
  • 1951, New Hopes for a Changing World, London: George Allen & Unwin.
  • 1952, The Impact of Science on Society, London: George Allen & Unwin.
  • 1953, Satan in the Suburbs and Other Stories, London: George Allen & Unwin.
  • 1954, Human Society in Ethics and Politics, London: George Allen & Unwin.
  • 1954, Nightmares of Eminent Persons and Other Stories, London: George Allen & Unwin.
  • 1956, Portraits from Memory and Other Essays, London: George Allen & Unwin.
  • 1956, Logic and Knowledge: Essays 1901–1950 (Robert C. Marsh, ritstj.), London: George Allen & Unwin.
  • 1957, Why I Am Not A Christian and Other Essays on Religion and Related Subjects (Paul Edwards ritstj.), London: George Allen & Unwin.
  • 1958, Understanding History and Other Essays, New York: Philosophical Library.
  • 1959, Common Sense and Nuclear Warfare, London: George Allen & Unwin.
  • 1959, My Philosophical Development, London: George Allen & Unwin.
  • 1959, Wisdom of the West (Paul Foulkes, ritstj.), London: Macdonald.
  • 1960, Bertrand Russell Speaks His Mind, Cleveland og New York: World Publishing Company.
  • 1961, The Basic Writings of Bertrand Russell (R.E. Egner og L.E. Denonn, ritstj.), London: George Allen & Unwin.
  • 1961, Fact and Fiction, London: George Allen & Unwin.
  • 1961, Has Man a Future?, London: George Allen & Unwin.
  • 1963, Essays in Skepticism, New York: Philosophical Library.
  • 1963, Unarmed Victory, London: George Allen & Unwin.
  • 1965, On the Philosophy of Science (Charles A. Fritz Jr., ritstj.), Indianapolis: The Bobbs-Merrill Company.
  • 1967, Russell's Peace Appeals (Tsutomu Makino og Kazuteru Hitaka ritstj.), Japan: Eichosha's New Current Books.
  • 1967, War Crimes in Vietnam, London: George Allen & Unwin.
  • 1967–1969, The Autobiography of Bertrand Russell, 3 bindi, London: George Allen & Unwin.
  • 1969, Dear Bertrand Russell... A Selection of his Correspondence with the General Public 1950–1968 (Barry Feinberg og Ronald Kasrils, ritstj.), London: George Allen and Unwin.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Sidney Hook, „Lord Russell and the War Crimes Trial“, Bertrand Russell: critical assessments. A.D. Irvine (ritstj.) (New York, 1999): 1. bindi, bls. 178.
  2. Elizabeth Crawford, The Women's Suffrage Movement: A Reference Guide, 1866–1928.
  3. Lýsingarhyggju Russells er gerð prýðileg en kjarnyrt skil í A.D. Irvine, „Bertrand Russell“ á Stanford Encyclopedia of Philosophy (2010) (Skoðað 27. júlí 2011).
  4. Um frumspeki Russells, sjá Rosalind Carey, „Russell's Metaphysics“ á Internet Encyclopedia of Philosophy (12. ágúst 2008) (Skoðað 27. júlí 2011).
  5. Um siðfræðileg og félagsheimspekileg skrif Russells, sjá A.D. Irvine, „Bertrand Russell“ á Stanford Encyclopedia of Philosophy (2010) (Skoðað 27. júlí 2011). Ítarlegri umfjöllun má finna hjá Charles Pigden, „Russell's Moral Philosophy“ á Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 27. júlí 2011).
  6. Þessi greinarmunur er ekki alltaf gerður á íslensku. Fyrrnefnda orðið (atheism) getur verið notað annaðhvort um vantrú á guð (svokallað veikt trúleysi) eða þá trú að guð sé ekki til (svokallað sterkt trúleysi) en síðarnefnda orðið (agnosticism) getur verið notað um það viðhorf að maður viti ekki hvort guð er til eða ekki eða að það sé ekki hægt að vita hvort guð sé til eða ekki.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Bertrand Russell“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. nóvember 2005.
  • Ayer, A.J. Bertrand Russell (New York: Viking Press, 1972).
  • Blackwell, Kenneth. The Spinozistic Ethics of Bertrand Russell (London: George Allen and Unwin, 1985).
  • Clark, Ronald William. The Life of Bertrand Russell (London: J. Cape, 1975).
  • Clark, Ronald William. Bertrand Russell and His World (London: Thames and Hudson, 1981).
  • Copi, Irving. The Theory of Logical Types (London: Routledge and Kegan Paul, 1971).
  • Eames, Elizabeth R. Bertrand Russell's Theory of Knowledge (London: George Allen and Unwin, 1969).
  • Griffin, Nicholas (ritstj.). The Cambridge Companion to Bertrand Russell (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
  • Hager, Paul J. Continuity and Change in the Development of Russell's Philosophy (Dordrecht: Nijhoff, 1994).
  • Hylton, Peter W. Russell, Idealism, and the Emergence of Analytic Philosophy (Oxford: Clarendon Press, 1990).
  • Irvine, A.D. (ritstj.). Bertrand Russell: Critical Assessments, fjögur bindi (London: Routledge, 1999).
  • Irvine, A.D. og G.A. Wedeking (ritstj.). Russell and Analytic Philosophy (Toronto: University of Toronto Press, 1993).
  • Jager, Ronald. The Development of Bertrand Russell's Philosophy (London: George Allen and Unwin, 1972).
  • Linsky, Bernard. Russell's Metaphysical Logic (Stanford: CSLI Publications, 1999).
  • Monk, Ray. Bertrand Russell: The Spirit of Solitude (London: Jonathan Cape, 1996).
  • Monk, Ray. Bertrand Russell: The Ghost of Madness (London: Jonathan Cape, 2000).
  • Monk, Ray og Anthony Palmer (ritstj.). Bertrand Russell and the Origins of Analytic Philosophy (Bristol: Thoemmes Press, 1996).
  • Moorehead, Caroline. Bertrand Russell (New York: Viking, 1992).
  • Nakhnikian, George (ritstj.). Bertrand Russell's Philosophy (London: Duckworth, 1974).
  • Park, Joe. Bertrand Russell on Education (Columbus: Ohio State University Press, 1963).
  • Patterson, Wayne. Bertrand Russell's Philosophy of Logical Atomism (New York: Lang, 1993).
  • Pears, David F. Bertrand Russell and the British Tradition in Philosophy (London: Collins, 1967).
  • Potter, Michael K. Bertrand Russell's Ethics (London: Continuum Books, 2006).
  • Ryan, Alan. Bertrand Russell: A Political Life (New York: Hill and Wang, 1988).
  • Sainsbury, R.M. Russell (London: Routledge & Kegan Paul, 1979).
  • Slater, John G. Bertrand Russell (Bristol: Thoemmes, 1994).
  • Stevens, Graham. The Russellian Origins of Analytical Philosophy: Bertrand Russell and the Unity of the Proposition (London and New York: Routledge, 2005).
  • „Hver var Bertrand Russell og hvert var framlag hans til fræða og vísinda?“. Vísindavefurinn.
  • „Rakarinn í Þorlákshöfn rakar alla sem raka sig ekki sjálfir. Rakar hann sjálfan sig?“. Vísindavefurinn.
  • Kaflar úr nýrri sjálfsævisögu; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
  • Kaflar úr nýrri sjálfsævisögu; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
  • Kaflar úr nýrri sjálfsævisögu; 3. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
  • Næstu fimmtíu árin; grein eftir Russell í Lesbók Morgunblaðsins 1951
  • Pólitísk trúarbrögð; grein í Morgunblaðinu 1960
  • Greinar um kommúnisma, bók 2015

erlendir tenglar