Fara í innihald

Þorsteinn Ólafsson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorsteinn Ólafsson (d. 1435) var íslenskur lögmaður og umboðsmaður hirðstjóra á 15. öld. Hann bjó á Stóru-Ökrum í Skagafirði. Ætt hans er óþekkt, nema vitað er að faðir hans hafði viðurnefnið "helmingur" því Þorsteinn er stundum kallaður Helmingsson í heimildum. Ýmis seinni tima ættfræðirit telja að hann hafi verið sonur Ólafs Þorsteinssonar í Fellsmúla og konu hans Ragnheiðar Hallsdóttur en Einar Bjarnason prófessor í ættfræði hafnar því.

Sumarið 1406 var Þorsteinn staddur í Noregi og tók sér far með skipi heim til Íslands ásamt fleira fólki. Skipið hraktist til Grænlands og brotnaði þar en fólk bjargaðist. Hins vegar liðu fjögur ár þar til skip kom næst til Grænlands og þegar strandaglóparnir komust loks til Noregs 1410 var björninn ekki unninn; siglingar voru mjög strjálar um þetta leyti og sum árin engar og svo virðist sem enginn hafi komist heim fyrr en 1413. Þann 16. september 1408 giftust þau Þorsteinn og Sigríður Björnsdóttir í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi. Sigríður var dóttir Björns ríka Brynjólfssonar á Ökrum í Skagafirði og konu hans Málmfríðar, sem var dóttir Eiríks auðga Magnússonar á Svalbarði og móðursystir Lofts Guttormssonar. Með henni í utanlandsferðinni hafði verið Sæmundur Oddsson frændi hennar og veitti hann samþykki til ráðahagsins. Skjöl tengd hjúskap þeirra eru síðustu rituðu heimildirnar um búsetu norrænna manna á Grænlandi.

Þau Þorsteinn og Sigríður settust að á Ökrum þegar þau komust loksins heim. Þorsteinn varð lögmaður sunnan og austan 1421 og gegndi embættinu til 1435. Á árunum 1420-1423 og 1427-1430 var hann einnig hirðstjóri eða umboðsmaður hirðstjóra norðan lands og vestan.

Dóttir Þorsteins og Sigríðar var Kristín, sem bjó á Stóru-Ökrum með báðum mönnum sínum, Helga Guðnasyni lögmanni og Torfa Arasyni lögmanni, og síðan lengi ekkja. Hún var jafnan kennd við ábýlisjörð sína og kölluð Akra-Kristín.

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • „Hrakningar til Grænlands og þrjár hjúskaparsögur. Lesbók Morgunblaðsins, 17. júní 1956“.
  • Einar Bjarnason Íslenskir Ættstuðlar III. Reykjavík, 1972


Fyrirrennari:
Oddur Þórðarson leppur
Lögmaður sunnan og austan
(14211435)
Eftirmaður:
Ásgeir Pétursson
Fyrirrennari:
Arnfinnur Þorsteinsson
Hirðstjóri
með Helga Styrssyni
(14201423)
Eftirmaður:
Hannes Pálsson
Balthazar van Damme
Fyrirrennari:
Hannes Pálsson
Balthazar van Damme
Hirðstjóri
(14271430)
Eftirmaður:
Loftur Guttormsson