Fara í innihald

Ólífuolía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ólífuolía

Ólífuolía er olía sem er unnin úr ólífum, berjum ólífutrésins (Olea europaea) og er hefðbundin landbúnaðarafurð í löndunum umhverfis Miðjarðarhafið; Portúgal, Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Króatíu, Grikklandi, Tyrklandi, Líbanon, Ísrael og Palestínu. Ólífutréð er upphaflega frá Litlu Asíu. Ólífuolía er meðal annars notuð í matargerð, snyrtivörur, lyf, sápur og sem eldsneyti fyrir olíulampa.

750 milljónir ólífutrjáa eru ræktuð árlega og eru 95% þeirra umhverfis Miðjarðarhafið. Megnið af heimsframleiðslunni er frá Suður-Evrópu, Norður-Afríku og Austurlöndum nær. Árið 2006 var heimsframleiðslan 2,8 milljónir tonna og voru 40–45% frá Spáni sem er stærsti framleiðandi ólífuolíu í heimi.

Gæðastaðlar

[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðlega ólífuolíuráðið (IOOC) er alþjóðastofnun með 23 aðildarríki og höfuðstöðvar í Madríd á Spáni. Ráðið vinnur að alþjóðlegri markaðssetningu ólífuolíunnar og fylgist með framleiðslu hennar í aðildarlöndunum þar sem það reynir að framfylgja gæðastöðlum. Meira en 85% af ólífuolíu heimsins kemur frá aðildarlöndum IOOC.

Merkingar á umbúðum ólífuolíu geta snúist um landfræðilegan uppruna hennar, framleiðsluaðferð, sýruinnihald og bragð. Í löndum innan IOOC er yfirleitt alltaf kveðið á um sýruinnihald á umbúðum (mælt sem hlutfall af þyngd) þar sem mikið magn óbundinna einómettaðra fitusýra veldur þráabragði í olíunni.

Í Evrópusambandinu eru nokkrar verndaðar upprunamerkingar fyrir ólífuolíu.

Gæðaflokkar

[breyta | breyta frumkóða]
Kaldpressuð ólífuolía Extra-jómfrúarolía: með sýruinnihald undir 0.8%

Jómfrúarolía: með sýruinnihald allt að 2%

Glær olía og afurðir hennar Glær jómfrúarolía*: kaldpressuð en með hátt sýruinnihald eða aðra bragðgalla

Leiðrétt ólífuolía*: framleidd með því að leiðrétta glæra ólífuolíu með efnum til að eyða sýruinnihaldi; í meðferðinni hverfur allt bragð og lykt sem er venjulega af ólífuolíu
Ólífuolía: samsett úr hreinsuðum olíum og jómfrúrolíum með sýruinnihald undir 1%

Hratolía og afurðir hennar Hrá ólífuolía úr hrati*: fengin með því að nota leysiefni til að ná afgangsolíu úr hratinu sem kaldpressunin skilur eftir sig

Leiðrétt ólífuolía úr hrati*: hrá olía úr hrati sem hefur verið leiðrétt með efnameðferð
Ólífuolía úr hrati: olía úr hrati leiðrétt með því að blanda jómfrúarolíu saman við hana

* Þessar olíur er óheimilt að selja beint til neytenda í Evrópusambandinu.

  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.