Zeebrugge
Zeebrugge er bær og höfn við Norðursjó sem tilheyrir flæmsku borginni Brugge í Belgíu. Íbúar bæjarins eru tæplega 4.000, en höfnin er sú næststærsta í Belgíu á eftir Antwerpen.
Bærinn
[breyta | breyta frumkóða]Zeebrugge er lítill bær við Norðursjó og tilheyrir borginni Brugge, sem er 15 km lengra inn í landið. Bærinn skiptist í grófum dráttum í þrjú hverfi: Miðbæinn, hverfið í kringum járnbrautarstöðina og strandhverfið. Mikil ferðamennska einkennir bæinn frá því fyrir aldamótin 1900. Þar eru hótelkeðjur, veitingastaðir og smábátahöfn. Baðströndin þar er gríðarlega stór.
Höfnin
[breyta | breyta frumkóða]Frá því á miðöldum hafði Brugge verið mikil hafnarborg, en aðgengið að sjó var í gegnum ánna Leie og þaðan í gegnum fjörðinn Het Zwin. Sá fjörður grynnkaði vegna framburðar og lokaðist alveg fyrir skipagengd snemma á 16. öld. Þá fór nær öll verslun yfir til Antwerpen og Brugge varð að lítilfjörlegri smáborg. En rétt fyrir aldamótin 1900 var ákveðið að leggja nýja höfn við Zeebrugge, þannig að borgin Brugge hefði aðgang að sjó á nýjan leik. Framkvæmdir hófust 1896 og var höfnin vígð 1907. Í upphafi var hún tiltölulega lítil. Samfara því var skipaskurður grafinn til Brugge, 15 km sunnar, og heitir hann Baldvinsskurður (Boudewijnkanaal). Því er hægt að sigla frá Norðursjó til borgarinnar sjálfrar. 1914 réðust Þjóðverjar inn í Belgíu og hertóku Zeebrugge. Meðan stríðið varaði notuðu þeir höfnina sem kafbáta- og sjóflugvélahöfn. Ófáir kafbátar frá Zeebrugge gerðu árásir á skip bandamanna. 23. apríl 1918 gerði breski herinn árásir á Zeebrugge og Oostende (næsta hafnarborg fyrir sunnan). Tilgangurinn var að sökkva gömlum skipum í hafnarmynninu til að varna því að þýskir kafbátar kæmust inn eða út. Áætlunin tókst að hluta í Zeebrugge, en þar tókst að sökkva nokkrum gömlum beitiskipum. Þau lágu hins vegar ekki eins og áætlað var, þannig að höfnin lokaðist aðeins í örfáa daga. Í aðgerðinni létust um 200 breskir hermenn, enda veittu Þjóðverjar mikið viðnám. Með árunum var höfnin stækkuð til muna, en hún er nær öll á uppfyllingu í Norðursjó. Tröllauknir hafnargarðar skaga út í hafið. Í dag er höfnin sú næststærsta í Belgíu (á eftir Antwerpen) og ein hin nýtískulegasta í allri Evrópu. Hvað bifreiðar áhrærir, þá fara fleiri nýir bílar í gegnum Zeebrugge en í gegnum nokkra aðra höfn í heimi. Árið 2008 voru þeir rúmlega 2,1 milljón. Auk þess er Zeebrugge helsta höfn Evrópu fyrir jarðgas. Þangað koma tankskip, gámaskip, fiskiskip og ferjur. Ferjurnar ganga aðallega til Englands. 1987 átti sér stað stórslys er ferjan Herald of Free Enterprise lagðist á hliðina þegar hún sigldi af stað. Gleymst hafði að loka stefnislokunni. Þegar ferjan sigldi af stað fossaði sjór inn og lagðist skipið innan tveggja mínútna á hliðina. Það var lán að skipið festist á sandbakka í 6 metra dýpi í stað þess að sökkva. 543 farþegar voru um borð og létust 193 (heimildum ber ekki saman um tölu látinna).
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Zeebrugge“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. nóvember 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Zeebrügge“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. nóvember 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Haven van Brugge-Zeebrugge“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. nóvember 2012.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Touristen Information Zeebrugge, (á hollensku)