Fara í innihald

Vallónía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Wallonie)
Staðsetning Vallóníu innan Belgíu og Evrópu
Fáni Vallóníu

Vallónía (franska: Wallonie, þýska: Wallonie(n), hollenska: Wallonië, vallónska: Walonreye, lúxemborgíska: Wallounesch) er svæði í suðurhluta Belgíu þar sem íbúarnir eru aðallega frönskumælandi. Svæðið nær yfir 55% af flatarmáli Belgíu en íbúar þess eru um það bil þriðjungur allra Belga. Franska samfélagið í Belgíu sér um mál tengd menntun og menningu, og er ekki hluti af stjórnsýslueiningunni Vallóníu. Vallónía er annað tveggja héraða sem mynda Belgíu, hitt er Flæmingjaland. Í austurhluta Vallóníu er lítill þýskumælandi minnihluti, en hann myndar þýska samfélagið í Belgíu og hefur eigin stjórn og þing sem stýra menningarmálum.

Í iðnbyltingunni varð mikill uppgangur í Vallóníu vegna stórra kola- og járnauðlinda, og var svæðið í öðru sæti á eftir Bretlandi hvað varðar iðnvæðingu. Í kjölfarið varð héraðið afar auðugt, og frá upphafi 19. aldar til miðju 20. aldar var Vallónía ríkari helmingurinn í Belgíu. Frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hefur dregið töluvert úr mikilvægi þungaiðnaðar og þess vegna er Flæmingjaland ríkara héraðið í dag. Hagkerfið í Vallóníu hefur dregist mikið saman frá þeim tíma og þar ríkir mikið atvinnuleysi og landsframleiðsla á mann er töluvert minni en í Flæmingjalandi. Hagfræðilegt misvægi og tungumálaklofningur milli svæðanna tveggja er uppspretta mikilla stjórnmáladeilna í Belgíu.

Höfuðborg Vallóníu er Namur, en stærsta borgarsvæðið er Liège. Fjölmennasta sveitarfélagið er Charleroi. Flestar stærstu borgir í Vallóníu og tveir þriðju hlutar íbúanna eru í „iðnaðardalnum“ svokallaða, sem er svæðið í kringum Sambre-á og Meuse-á. Í norðri liggur miðbelgíska sléttan, sem er frekar gróskumikil eins og Flæmingjaland. Í suðri liggur Ardennes, sem er frekar strjálbýlt og fjöllótt. Vallónía liggur að Flæmingjalandi og Hollandi í norðri, að Frakklandi í suðri og vestri, og að Þýskalandi og Lúxemborg í austri.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.