Vegarfi
Vegarfi | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vegarfi (Cerastium fontanum) í blóma.
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Cerastium fontanum | ||||||||||||||
Samheiti | ||||||||||||||
Cerastium macrocarpum Schur[1] |
Vegarfi (fræðiheiti: Cerastium fontanum) er fjölær blómplanta af hjartagrasaætt. Hann finnst víða á Íslandi.
Útlit
[breyta | breyta frumkóða]Vegarfi er tvíær[1] fjölær jurt með uppsveigða og stundum greinda stöngla og oft marga blaðsprota[2] Hann er frekar lágvaxinn, 10-30 cm á hæð og blómstrar í maí til júní.[3]
Blómin eru hvít, fimmdeild, 5-8 mm í þvermál oft 5-10 saman í knippi.[2] Bikarblöðin eru græn, oddmjó og hærð en krónublöðin eru hvít, álíka löng eða aðeins lengri en bikarblöðin og með skerðingu í endann svo þau eru tvíflipótt.[2] Blóm vegarfa hafa 10 fræfla og eina frævu sem er oftast með fimm stílum.[2] Aldinið er gyllt tannhýði, oftast um tvöfalt lengra en bikarinn, sem opnast í endann með 10 tönnum.[2]
Laublöð vegarfa vaxa gagnstæð og aflöng, 10-20 mm löng og hærð báðum megin og á blaðröndinni.[2].
Vegarfi líkist nokkuð músareyra en krónublöð hans eru hlutfallslega styttri en krónublöð músareyrasins sé miðað við bikarblöðin.[2] Einnig er hann oftast minna loðinn en músareyrað.[3]
Útbreiðsla og búsvæði á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Vegarfi er algengur um allt land en síður algengur á hálendinu. Hann vex í mólendi, graslendi, giljum, skriðum og stundum í hálfdeigu landi eða votlendi.[2] Vegarfi vex líka í flögum og vegköntum.[3]
Hæstu skráðu vaxtarstaðir vegarfa á Íslandi eru við Marteinsflæðu og við Ásbjarnarvötn. Báðir fundarstaðir eru í 770 metra hæð yfir sjávarmáli.[2]
Samlífi
[breyta | breyta frumkóða]Vegarfi er hýsill fyrir sveppina fræhyrnuryð (Melampsorella caryophyllacearum), fræhyrnublaðmyglu (Peronospora alsinerarum)[4] og blaðmyglusveppinn Peronospora paula.[5]
Á Íslandi vex sveppurinn grasmúrgróungur (Pleospora herbarum) á dauðum vefjum ýmissa plöntutegunda,[6] meðal annars á vegarfa.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Lystigarður Akureyrar (án árs). Cerastium fontanum ssp. fontanum. Sótt þann 11. febrúar 2019
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 2,8 Flóra Íslands (án árs). Vegarfi - Cerastium fontanum. Sótt 11. febrúar 2019.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Hörður Kristinsson (2007). Vegarfi - Cerastium fontanum. Geymt 22 júlí 2019 í Wayback Machine Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt þann 11. febrúar 2019.
- ↑ Helgi Hallgrímsson. 2010. Sveppabókin. Skrudda, Reykjavík. ISBN 978-9979-655-71-8
- ↑ 5,0 5,1 Helgi Hallgrímsson & Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2004). Íslenskt sveppatal I - smásveppir. Geymt 17 október 2020 í Wayback Machine Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Náttúrufræðistofnun Íslands. ISSN 1027-832X
- ↑ Helgi Hallgrímsson. 2010. Sveppabókin. Skrudda, Reykjavík. ISBN 978-9979-655-71-8