Fara í innihald

Valhalla (teiknimynd)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Valhalla (íslenska: Valhöll) er dönsk teiknimynd frá árinu 1986. Hún byggir á Goðheimum, vinsælum myndasöguflokki sem fjallar um helstu persónur norrænnar goðafræði. Myndin hlaut fjölda verðlauna og nýtur enn í dag mikilla vinsælda meðal danskra áhorfenda, en engu að síður varð stórtap á gerð hennar.

Framleiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Miklar vinsældir fyrstu þriggja Goðheima-myndasagnanna í Danmörku urðu kveikjan að þeirri hugmynd að nýta sögusvið þeirra í teiknimynd í fullri lengd. Bandaríkjamaðurinn Jeffrey J. Varab og Daninn Jakob Stegelmann höfðu frumkvæði að verkefninu, en þeir ráku um þær mundir skóla í teiknimyndagerð í Kaupmannahöfn. Varab, sem starfað hafði hjá Disney-fyrirtækinu átti síðar eftir að koma að gerð fjölda stórra teiknimynda í Hollywood.

Þeir Varab og Stegelmann sannfærðu Peter Madsen teiknara Goðheima um að taka þátt í verkefninu. Madsen, sem þá þegar farinn að vinna að fjórðu sögunni í bókaflokknum samdi handrit myndarinnar. Söguþráður hennar var síðar rakinn í tveimur bókum: Sögunni um Kark og Förinni til Útgarða-Loka.

Ýmis vandamál komu upp við gerð myndarinnar, einkum tengd kostnaði. Stegelmann hætti þátttöku í verkefninu og hvarf til annarra starfa og Varab, sem hafði verið titlaður leikstjóri, dró sig til baka vegna ósættis við aðra aðstandendur. Hann er því sagður aðstoðarleikstjóri myndarinnar en Peter Madsen aðalleikstjóri.

Viðtökur áhorfenda voru góðar og varð Valhalla til að mynda mest sótta danska kvikmyndin árið 1986. Framleiðslukostnaðurinn varð hins vegar alltof hár, myndin telst sú dýrasta í danskri kvikmyndasögu og leiddi hún til gjaldþrots framleiðslufyrirtækisins. Hópur starfsmanna sem unnu við myndina stofnuðu hins vegar nýtt fyrirtæki sem framleitt hefur vinsælar myndir á borð við Skógardýrið Húgó og má því segja að Valhalla hafi lagt grunninn að danska teiknimyndaiðnaðinum.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Norrænu guðirnir Þór og Loki eru á ferð í Miðgarði og hvílast á bóndabæ. Í kjölfarið tekur Þór tvö ung systkini í þjónustu sína, þau Þjálfa og Röskvu. Mannabörnin fara með þeim til Ásgarðs, hitta þar hina æsina og fræðast um það sem fyrir augu ber.

Einn daginn skýtur Loki upp kollinum með jötnadrenginn Kark, sem jötuninn Útgarða-Loki hafði narrað hann til að taka að sér. Karkur vingast við mannabörnin en stendur fyrir óteljandi óknyttum. Að lokum afráða Þór og Loki að halda á fund Útgarða-Loka og skila óþekktaranganum. Jötnarnir hafa engan áhuga á að fá drenginn til baka. Útgarða-Loki skorar á Þór og föruneyti hans í keppni í ýmsum greinum og vinnur þær allar með blekkingum og sjónhverfingum. Sannleikurinn kemst loks í ljós, en Karkur snýr þó aftur til Valhallar með hinum nýju vinum sínum.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Valhalla var sýnd í Laugarásbíó árið 1987 undir nafninu Valhöll. Myndin var talsett á íslensku, þar sem Flosi Ólafsson var í hlutverki sögumanns, Jóhann Sigurðarson talaði fyrir Þór, Laddi var í hlutverki Loka og söngvarinn Kristinn Sigmundsson var Útgarða-Loki.