Fara í innihald

Peter Madsen (teiknari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Peter Madsen árið 2012.

Peter Madsen (f. 12. maí 1958) er danskur teiknari og myndasöguhöfundur. Hann er kunnastur fyrir sagnfalokk sinn Goðheima, sem hann skapaði seint á áttunda áratugnum í samvinnu við Henning Kure og Hans Rancke. Madsen var þá rétt um tvítugt.

Madsen fæddist í Árósum en fjölskylda hans var á sífelldu flakki mestöll uppvaxtarár hans. Árið 1973, þegar Madsen var aðeins 15 ára gamall, birtust fyrstu myndasögur hans á prenti í Seriemagasinet. Næstu árin teiknaði hann sögur fyrir ýmis áhugamannamyndasögublöð. Hann hóf nám í læknisfræði en hvarf frá því eftir að teikniferillinn hófst fyrir alvöru.

Árið 1977 hafði forlagið Interpresse frumkvæði að því að leiða saman þá Madsen, Henning Kure og Hans Rancke. Markmiðið var að skapa myndasagnaflokk um víkinga og norræna goðafræði sem veitt gæti þýddum frönskum og belgískum myndasögum samkeppni. Fyrsta Goðheimabókin (danska: Valhalla) kom út árið 1979 og sló þegar í gegn. Alls urðu bækurnar fimmtán talsins. Sú síðasta kom út 2009.

Árið 1986 var gerð teiknimyndin Valhalla sem byggði á bókunum. Um tröllaukið verkefni var að ræða á danskan mælikvarða. Ýmis vandamál komu upp við gerð myndarinnar sem fékk þó prýðilega dóma.

Samhliða og eftir að gerð Goðheimasagnanna lauk, kom Madsen að fjölda annarra myndasagna. Má þar nefna sjálfsævisögulegt verk um reynslu hans sem læknanemi og um aldamótin spreytti hann sig á sögum úr Biblíunni. Þær bækur hafa þó mun alvarlegri undirtón en Goðheimasögurnar.