Fara í innihald

Vökull Stéttarfélag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vökull Stéttarfélag var eitt þriggja stofnfélaga AFLs Starfsgreinafélags 28. apríl 2007.

Félag Vökull Stéttarfélag varð til þann 31. október 1999 þegar Verkalýðs- og sjómannafélag Stöðvarfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs og Verkalýðsfélagið Jökull á Hornafirði voru sameinuð.

Hugmyndir um sameiningu félaga innan Alþýðusambands Austurlands höfðu af og til stungið upp kollinum og um miðjan 10. áratuginn kom fram tillaga á þingi Alþýðusambands Austurlands um að sameina öll félögin á Austurlandi í eitt félag. Þótti mörgum tillagan víðáttuvitlaus. Þróunin hin síðari ár hefur hins vegar verið sú að félög hafa í auknum mæli sameinast.

Aðalhvatinn að sameiningu félaganna sem mynda Vökul var einkum sú að félögin töldu að með því að sameina krafta sína í eitt félag gæti það boðið félögum sínum betri þjónustu, yrðu sterkara afl og með betri baktryggingu í sjóðum en hvert og eitt þeirra gat áður, en um þúsund manns voru í hinu nýja félagi við stofnun þess.

Félagssvæðið Vökuls náði frá Skeiðarársandi í vestri til Merkigils norðan Stöðvarfjarðar í austri. Félagið var deildaskipt með fjórum deildum starfandi innan þess; almenn deild verkafólks, sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og deild verslunar- og skrifstofufólks.

Fyrsti formaður hins sameinaða félags var Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir. Margvísleg verkefni biðu nýrrar stjórnar. Í fyrstu var lögð áhersla á að hrista félagið saman. Starfsemi félagsins var áfram með líku sniði og verið hafði í félögunum.

Áfram voru reknar þjónustuskrifstofur á Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi. Aðalskrifastofan var á Hornafirði.

Saga stofnfélaga Vökuls Stéttarfélags

[breyta | breyta frumkóða]

Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga

[breyta | breyta frumkóða]

Félagið var stofnað haustið 1952 á lofti saltverkunarhúss í Selnesi. Þar var þá mötuneyti. Hvatamenn að þeirri stofnun voru Guðmundur Sigurðsson afgreiðslumaður, Arnarhvoli, Bárður Gunnarsson verkamaður, Sólheimum og Gísli Guðnason símstöðvarstjóri í Selnesi. Sátu þeir í fyrstu stjórninni. Hvatinn að stofnunni var ekki vegna einstæðs atviks heldur eðlileg framvinda mála þar sem verkalýðsfélög höfðu verið stofnuð í nágrannasveitarfélögunum. Ekki er vitað um fjölda stofnfélaga og fátt er vitað um starfsemina fyrsta áratuginn.

Árið 1963 urðu vatnaskil í sögu félagsins. Komu þau í kjölfar vaxandi atvinnuuppbyggingar. Tveir stórir bátar komu í plássið árið 1958 og 1961. Síldarsöltun hófst árið 1961 og bygging síldarverksmiðju og rekstur hófst 1963.

Þessi umsvif kölluðu á virkt stéttarfélag. Á aðalfundi 1. maí 1965 voru fyrstu lög félagsins rædd og ákveðið að segja upp samningum, vafalítið í fyrsta sinn. Þá var samþykkt að stofna sjúkrasjóð. Sama ár var auglýstur taxti lagður fyrir atvinnurekendur á staðnum. Fól hann í sér 2% meiri hækkun en samningur sá er flest verkalýðsfélög á Norður- og Austurlandi höfðu skrifað undir. Þetta þótti atvinnurekendum á staðnum vera afarkostir og neituðu að semja. Ákvað VB að fara í verkfall. Lyktir urðu þær að samkomulag náðist um einhverja moðsuðu úr fyrrgreindum samningum.

Merkileg tímamót urðu í sögu félagsins á aðalfundi 5. ágúst 1976. Í aðalstjórn voru kosnar þrjár konur: Steina Þórarinsdóttir formaður, Áslaug Arthursdóttir gjaldkeri og Erna Hjartardóttir ritari. Ef til vill er þetta fyrsta blandaða stéttarfélagið á landinu þar sem eingöngu konur setjast í aðalstjórn.

Á stjórnarfundi 13. október 1980 var samþykkt að breyta félagsgjöldum á þann hátt að taka prósentugjöld af vinnulaunum í stað þess að nota fasta krónutölu og afnema um leið svo kallað aukafélagsgjald. Fyrsta prósentan var 0,75%. Síðla árs 1981 var í fyrsta sinn samþykkt að veita átta útlendingum atvinnuleyfi. Þá var samþykkt að fá heilbrigðisnefnd til að gera úttekt á íbúðarhæfni „gamla kaupfélagsins“, eins og segir í fundargerð. Þar með var brotið blað í sögu þess merkilega húss. Pöntunarfélag á vegum félagsins var komið á fót 1988 en það starfaði í skamman tíma.

Þeir sem lengst sátu í stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Breiðdælinga voru: Skúli Hannesson sem gegndi formannsstöðu í 13 ár, Bragi Björgvinsson sem var ritari í 12 ár og í stöðu gjaldkera sat Sigmar Pétursson í 12 ár.

Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs

[breyta | breyta frumkóða]

Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs var stofnað 2. júlí 1937 í gamla barnaskólanum á Djúpavogi. Fyrsti formaður félagsins var Sigurgeir Stefánsson frá Hamri í Hamarsfirði. Með honum í fyrstu stjórninni voru Ásbjörn Karlsson ritari, Geysi og Hlöðver Lúðvíksson gjaldkeri, Sunnuhvoli. Stofnendur voru rétt um 30 talsins.

Helstu forvígismenn að stofnun félagsins munu hafa verið Sigurgeir Stefánsson og Ásmundur Guðnason frá Borg á Djúpavogi ásamt nokkrum fleiri áhugamönnum um verkalýðsmál. Báðir þessir menn unnu ósleitilega að málum félagsins meðan þeirra naut við. Félagssvæðið náði yfir Djúpavogskauptún og Hálsþorpsbæi eða hinu fornu Hálsþingá. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands 9. ágúst 1937.

Getið er í fundargerðum um að komið hafi til átaka út af kaupgjaldsmálum á fyrstu árum félagsins og minnst er á verkföll þrisvar en þau munu hafa staðið stutt.

Eins og önnur sambærileg félög sá Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs um samningsmál verkafólks og sjómanna og auk þess stóð það að ýmsum góðum málum í byggðarlaginu. Félagið átti stóran þátt í byggingu húss í félagi við Slysavarnafélagið Báru. Eignarhlutur félagsins var 65% á móti 35% hjá Bárunni. Húsið var formlega tekið í notkun á sjómannadaginn 6. júní 1993 og hlaut nafnið Sambúð. Þar er aðstaða fyrir ýmis konar félagsstarfsemi og geymsla fyrir björgunarbúnað.

Verkalýðs‐ og sjómannafél. Stöðvarfjarðar

[breyta | breyta frumkóða]

Verkalýðsfélag Stöðvarfjarðar var stofnað á fundi í gamla skólanum á Stöðvarfirði 24. ágúst 1944. Til fundarins boðuðu Lúðvík Jósepsson og Jóhannes Stefánsson, erindreki Alþýðusambands Austfjarða, en þeir voru saman á ferð á vegum Alþýðusambandsins til að heimsækja verkalýðsfélög og stofna ný. Hvatti Jóhannes eindregið til þess að stofnað yrði verkalýðsfélag á Stöðvarfirði þar sem verið væri að byggja hafnarbryggju og einnig var ljóst að nokkuð yrði um vegagerð næstu árin.

Á stofnfundinum var Kristinn Helgason kosinn formaður. Stofnfélagar voru 24. Á fyrsta fundinum var ákveðið að inntökugjald yrði 5 krónur og árgjald 10 krónur. Einnig var samþykkt að vinnutími skyldi vera 10 klukkustundir eða frá kl. 7 að morgni til kl. 18 síðdegis. Í kaupsamningi frá 30. september 1949 voru laun karlmanna fyrir almenna vinnu 3 krónur í dagvinnu, 3,90 krónur í eftirvinnu og 5,20 krónur í næturvinnu. Konur og drengir fengu 2,15 krónur í dagvinnu, 2,85 krónur í eftirvinnu og 3,80 krónur í næturvinnu.

Verkalýðsfélagið Jökull

[breyta | breyta frumkóða]

Forveri Verkalýðsfélagsins Jökuls var Atvinnufélag Hafnarverkalýðs sem stofnað var 2. janúar 1929 af 11 verkamönnum á Höfn. Aðalhvatamaður stofnun þess var Jens Figved, verslunarmaður frá Eskifirði. Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Steinsen. Félagið beitti sér fyrir ýmsum réttindamálum verkamanna en konur fengu ekki inngöngu. Á fyrstu tveimur starfsárunum gengu að minnsta kosti 23 menn í félagið en 82 einstaklingar á starfstímanum öllum.

Aðalvinnuveitandi félagsins var Kaupfélag Austur-Skaftfellinga. Það setti því verulegan svip á starfsemi félagsins að Jón Ívarsson kaupfélagsstjóri gekk í félagið árið 1932. Vera hans í félaginu og áhrif á réttindabaráttu verkamanna leiddi loks til þess áratug síðar að Atvinnufélag Hafnarverkalýðs var lagt niður á miklum átakafundi þann 3. janúar 1942. Sama kvöld var stofnað nýtt félag verkamanna á Höfn, Verkalýðsfélagið Jökull.

Helsti forystumaður að stofnun Verkalýðsfélagsins Jökuls og fyrsti formaður þess var Benedikt Þorsteinsson. Hann gegndi formannsstarfinu í rúman aldarfjórðung eða frá 1942 til 1968. Benedikt var einnig helsti forsprakki þess að leggja niður gamla félagið og koma þannig í veg fyrir áframhaldandi tök kaupfélagsstjórans á verkamönnum. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Aðalsteinn Aðalsteinsson og Óskar Guðnason. Stofnendur voru 39.

Félagið var áberandi í fjölmiðlum út af deilum sem spruttu upp um verðlag á kolum á Hornafirði árið 1943. Umræðan barst inn á Alþingi og blandaðist Jónas Jónsson frá Hriflu, meðal annarra, inn í þær deilur.

Félagið beitti sér strax í upphafi fyrir nýjum samningum um Bretavinnu og þeira. Félagið efldist smám saman og varð tryggur bakhjarl í réttindabaráttu verkafólks. Það beitti sér einnig snemma fyrir ýmsum framförum og átti frumkvæði að atvinnuuppbyggingu á Hornafirði.

Fyrstu konurnar fengu inngöngu í félagið árið 1951. Þær tóku smám saman virkan þátt í félagsstarfinu og árið 1977 var fyrsta konan kjörin í stjórn félagsins. Árið 1992 gekk Verslunarmannafélag Austur-Skaftafellsýslu inn í Jökul.

Félagið kom sér upp orlofshúsum, íbúðum í Reykjavík og félagsaðstöðu auk þess að standa fyrir ýmis konar hagsmuna- og félagsstarfi. Félagið studdi einnig dyggilega við ýmis konar menningarstarf í héraðinu. Verkalýðsfélagið Jökull lét skrásetja sögu verkalýðshreyfingar í Austur-Skaftafellssýslu og gaf út bækurnar Þó hver einn megni smátt, árið 1994 og Kolalausir kommúnistar á Hornafirði, árið 1999. Bækurnar eru eftir Gísla Sverri Árnason.

Formenn Verkalýðsfélagsins Jökuls voru: Benedikt Þorsteinsson 1942-1969, Grétar Sigurðsson 1969-1973, Þorsteinn L. Þorsteinsson 1973-1980, Sigurður Örn Hannesson 1980-1985, Björn Grétar Sveinsson1985-1993 og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir 1993-1999.