Usedom
Usedom (pólska: Uznam) er næststærsta eyja Þýskalands. Hún liggur við pólsku landamærin í Eystrasalti.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Usedom er nefnd eftir samnefndum bæ á eyjunni. Hann hét upphaflega Uznoimia civitas á latínu. Talið er að Uznoimia sé dregið af slavneska orðinu straumur, enda umlykja armar fljótsins Odru eyjuna á báða vegu. Eftir þýska landnámið tóku Þjóðverjar upp orðið en breyttu því hljóðfræðilega í Usedom.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Vindar bjuggu á eyjunni til forna. Þýskt landnám hófst þar á 12. öld. En 1630 gekk Gústaf Adolf II Svíakonungur á land við Peenemünde og hertók eyjuna áður en hann hélt lengra suður til að taka þátt í 30 ára stríðinu. Konungur lét lífið í stríðinu en eyjan hélst engu að síður sænsk allt til 1713, er Prússar fengu hana við lok Norðurlandaófriðarins mikla. Á Potsdam-ráðstefnunni 1945 var ákveðið að leggja landamæri Póllands og Þýskalands um eyna. Þýska borgin Swinemünde varð því pólsk og var heitinu breytt í Świnoujście.
Landafræði
[breyta | breyta frumkóða]Usedom er skipt eyja. Vesturhlutinn tilheyrir Þýskalandi, en austurhlutinn er pólskur. Alls er eyjan 445 km² að stærð, en þýski hlutinn er 373 km². Eyjan myndar mikið lón sem heitir Stettiner Haff, en fljótið Odra rennur í gegnum það og sitthvoru megin við Usedom.
Fjölmargir bæir eru á eyjunni. Þeirra helstir eru Peenemünde Þýskalandsmegin og Świnoujście (Swinemünde) Póllandsmegin. Norðanmegin eru góðar baðstrendur sem mikið eru sóttar af ferðamönnum. Baðbærinn Ahlbeck er meðal vinsælustu baðstaða Þýskalands við Eystrasalt.