Fara í innihald

Vindland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vindar)

Vindland er heiti sem haft var á miðöldum um suðurströnd Eystrasalts og héruðin þar suður af, þ.e. í Norður-Þýskalandi (Mecklenburg og Pommern) og Póllandi. Íbúar þessa svæðis voru kallaðir Vindur eða Vindar. Þeir voru vestur-slavneskur þjóðflokkur sem settist að við Eystrasalt á þjóðflutningatímanum og blandaðist seinna Germönum.

Vindland var aldrei eiginlegt ríki en þar voru á mismunandi tímum ýmis konungsríki og hertogadæmi og því er oft talað um konunga Vinda í norrænum heimildum. Hugtökin Vindur og Vindland hafa þó verið notuð á ýmsan hátt í gegnum aldirnar af hinum ýmsu nágrannaþjóðum og stundum jafnvel einnig náð yfir Eystrasaltslöndin og íbúa þeirra.

Danskir og sænskir konungar herjuðu löngum á Vindland og lögðu hluta þess stundum undir sig og Vindur herjuðu einnig á dönsku eyjarnar, Skán og Gotland, aðallega með sjóránum og strandhöggi. Konungar bæði Danmerkur og Svíþjóðar notuðu titilinn konungur Vinda allt fram á 20. öld.