Tvíhöfði (tvíeyki)
Tvíhöfði er tvíeyki þeirra Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarrs. Þeir eru grínistar og hafa verið vinsælir sem slíkir á Íslandi. Þeir hafa verið með útvarps eða hlaðvarpsþætti á ýmsum útvarpsstöðvum síðan árið 1993.
Útvarp
[breyta | breyta frumkóða]Útvarpsþátturinn byrjaði undir nafninu Heimsendir árið 1994 og var í gangi til ársins 1995 á Rás 2. Sumarið 1996 kom þátturinn aftur og hét Tvíhöfði og var á Aðalstöðinni og var morgunþáttur en árið 1997 flutti þátturinn yfir á X-ið og árið 2000 yfir á nýju útvarpsstöðina Radíó. Seinna árið 2000 var nafninu breytt í Radíó X og árið 2001 sameinaðist Radíó X og X-ið og hét X-ið. Í febrúar 2002 hætti þátturinn og kom þátturinn Zombie með Sigurjóni og Dr. Gunna í staðinn. Í janúar 2004 kom Tvíhöfði aftur á útvarpsstöðinni Skonrokk en þátturinn hætti í janúar 2005. Í janúar 2007 kom þátturinn aftur á Rás 2 en var einungis einu sinni í viku og á kvöldin. Þátturinn var þar á dagskrá til ársins 2009 en í ágúst 2009 fór þátturinn yfir á útvarpstöðina Kaninn. Þátturinn yfirgaf Kanann í mars 2010 vegna borgarstjórnarframboðs Jóns. Árið 2013 var Tvíhöfði sem morgunþáttur á Rás 2 en hætti fljótlega þar. Í nóvember 2014 kom þátturinn aftur á hlaðvarpsveitur Kjarnans en hætti í lok febrúar 2015. Tvíhöfði kom aftur saman árið 2017 sem kvöldþáttur einu sinni í viku á Rás 2 og fóru þættirnir einnig inn á hlaðvarpsveitur. Árið 2022 hætti þátturinn á dagskrá rásar tvö. Í febrúar árið 2023 byrjaði Tvíhöfði aftur í hlaðvarpsformi fyrir hlaðvarpsþjónustuna Tal og gáfu þeir þá út fjóra þætti í mánuði gegn gjaldi.
Sjónvarp
[breyta | breyta frumkóða]Á árunum 1994 - 1996 voru þeir með vikuleg innslög í þáttunum Dagsljós á RÚV. Árið 1996 voru gefnir út þættir með öllum innslögum í þáttunum sem hétu Tvíhöfði. Frá 1997 - 2004 voru þeir tveir í ýmsum sjónvarpsverkefnum svo sem Fóstbræður og Svínasúpan fyrir Stöð 2. Árið 2004 gerðu þeir svokallaða fullorðinsteiknimyndaþætti þætti fyrir Popptíví sem voru tólf teiknaðir sjónvarpsþættir fyrir fullorðna.
Skemmtanir
[breyta | breyta frumkóða]Tvíhöfði hefur haldið mikið af skemmtunum í gegnum árin eins og Aðventutónleikar Tvíhöfða sem að voru haldnir árið 2021 og einnig Upprisuhátíð Tvíhöfða sem að voru haldnir um páskana árið 2022.
Eftir að útvarpsþáttur þeirra hætti árið 2022 byrjuðu þeir að hafa skemmtanir á barnum Húrra.
Listi yfir plötur Tvíhöfða
[breyta | breyta frumkóða]Ár | Plata |
---|---|
1998 | Til hamingju |
1999 | Kondí fíling |
2000 | Sleikir hamstur |
2001 | Konungleg skemmtun |
2009 | Gubbað af gleði |