Tíu litlir negrastrákar
Tíu litlir negrastrákar er heiti á vinsælli barnagælu sem samin var af bandaríska vísnaskáldinu Septimus Winner og fyrst gefin út árið 1868 undir heitinu Ten Little Niggers. Nokkru síðar var þessu breytt í Ten Little Injuns eða Ten Little Indians og textanum breytt vegna þess hve niðrandi orðið nigger er í augum þeldökkra bandaríkjamanna. Engu að síður var lagið gefið út með upprunalegum titli í Bretlandi og þýtt þannig á fjölda tungumála.
Til er fjöldinn allur af útgáfum vísunnar þar sem hinar ólánsömu söguhetjur eru t.d. rómverskir hermenn (X roman soldiers), hjólreiðamenn (Ti små cyklister), sjómenn (Ten little sailor boys) og þar fram eftir götunum.
Skáldsaga Agöthu Christie
[breyta | breyta frumkóða]Skáldsaga eftir Agöthu Christie með sama nafni kom út í Bretlandi árið 1938. Í Bandaríkjunum var titli bókarinnar hins vegar breytt í And Then There Were None og öllum tilvísunum í vísuna breytt samkvæmt Ten Little Injuns útgáfunni sem er miklu þekktari í Bandaríkjunum en hin upprunalega útgáfa sem þekkt er í Bretlandi. Leikrit sem byggir á sögunni og kvikmynd sem komu út árið 1945 notuðust bæði við titilinn And Then There Were None en síðari útgáfur leikritsins og aðrar bíómyndir hafa notast við Ten Little Indians. Enskar útgáfur bókarinnar notuðust við upprunalega titilinn til 1985 þegar fyrsta endurútgáfan með bandaríska titlinum kom út í Bretlandi. Síðan þá er orðið algengast að notast við þann titil einnig í Bretlandi. Bókin fjallar um tíu manneskjur sem boðið er í heimsókn á eyju af herra og frú U.N. Owen. Manneskjurnar eiga það sameiginlegt að hafa allar orðið fólki að bana án þess að hægt sé að dæma þau fyrir það. Í herbergjum sínum finna þau öll eintak af vísunni "tíu litlir negrastrákar". Fólkið deyr svo á svipaðan hátt og strákarnir í vísunni hurfu. Þegar lögreglumenn koma og skoða eyjuna virðast þetta vera óleysanleg morðgáta þar sem ómögulegt er að komast óséður af eyjunni og þar er enginn nema líkin tíu. Málið hefðu þeir líklega aldrei leist ef morðingjanum hefði ekki fundist hann þurfa að monta sig af þessu afreki. Hann skrifaði flöskuskeyti.
Íslenska þýðingin
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi kom barnagælan fyrst út sem Negrastrákarnir í Reykjavík árið 1922 í þýðingu Gunnars Egilssonar með myndskreytingum eftir listamanninn Mugg sem var mágur Gunnars. Hún var síðan endurútgefin af Heimskringlu 1937, Lithoprent 1947 og 1955 og af Þjóðsögu árið 1975. Bókin var síðan endurútgefin af Skruddu árið 2007. Til er önnur þýðing úr þýsku eftir Loft Guðmundsson sem var fyrst gefin út árið 1948. Íslenska vísan er sungin við allt annað lag en upprunalega vísan við lag Winners.
Íslensk þýðing á bók Agöthu Christie kom upphaflega út árið 1949 með titlinum Blámannsey en síðan í nýrri þýðingu hjá Skjaldborg 1992 undir titlinum Tíu litlir negrastrákar.
Gert var grín að útgáfunni í Áramótaskaupinu 2007.