Síbería
Síbería eða Síbiría (rússneska: Сиби́рь, Sibir) er víðáttumikið landflæmi sem nær yfir allan austur- og norðausturhluta Rússneska sambandsríkisins. Síbería er í Norður-Asíu sem markast af Úralfjöllum í vestri að Kyrrahafinu í austri, og frá Norður-Íshafinu í norðri að landamærum Kasakstans, Mongólíu og Kína í suðri. Síbería nær yfir 77% af flatarmáli Rússlands en hýsir einungis 27% af íbúafjölda landsins (39 milljónir).
Landafræði
[breyta | breyta frumkóða]Síbería nær yfir nær alla Norður-Asíu frá Úralfjöllum í vestri að Kyrrahafinu í austri, og frá Norður-Íshafinu í norðri að hæðunum í norðvesturhluta Kasakstans og landamærum Rússlands við Mongólíu og Kína í suðri. Síbería er nær 13,1 milljón ferkílómetra.
Vesturhluti Síberíu er votlendi, skógi vaxin slétta, en austurhlutinn er háslétta, sundurskorin af miklum árdölum og girt fjallgörðum. Nyrst er túndra.
Meginlandsloftslag ríkir að mestu í Síberíu. Fimbulkuldi er í norðri en lítil og stopul úrkoma í suðri. Veðráttan rýrir möguleika til landbúnaðar og atvinnuþróun hefur einkum byggst á miklum auðlindum, aðallega olíu, gasi, kolum, járngrýti, gulli og timbri.
Um 155.000 vatnsföll eru í Síberíu. Þau stærstu eru Ob, Jenísej og Lena.
Til að bæta samgöngur hefur verið unnið að lagningu járnbrauta (Baikal-Amúr járnbrautin) og gerð nýrra skipaskurða.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Rússar lögðu undir sig Síberíu 1580- 1680 en þar bjuggu þá einkum þjóðflokkar hirðingja og veiðimanna. Allt frá 1593 voru afbrotamenn fluttir þangað en frá 18. öld aðallega pólitískir fangar.
Málmvinnsla hófst í Síberíu á 18. öld. en einnig fengust þaðan verðmæt loðskinn.
Rússar voru hvattir til landnáms, einkum eftir að byrjað var á lagningu Síberíujárnbrautarinnar árið 1892 og er nú er allur þorri íbúa Síberíu af rússneskum uppruna. Á stjórnarárum Stalíns hófst mikil iðnvæðing Síberíu sem byggði að miklu leyti á þrælavinnu, enda voru milljónir manna fluttir í fangabúðir Síberíu.