Fara í innihald

Sveinbjörn Egilsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sveinbjörn Egilsson
Sveinbjörn Egilsson. Teikning eftir norska sagnfræðinginn Rudolf Keyser (1803-64).
Sveinbjörn í Kaupmannahöfn 1850
Fæddur24. febrúar 1791
Dáinn17. ágúst 1852
ÞjóðerniÍslendingur
MenntunHafnarháskóli
StörfGuðfræðingur, kennari, þýðandi, skáld og fyrsti rektor Menntaskólans í Reykjavík.
Þekktur fyrirLjóð sín, þýðingar á Kviðum Hómers og "Pereatið"
MakiHelga Gröndal, dóttir Benedikts Gröndals eldra, yfirréttardómara.
BörnBenedikt Gröndal yngri
ForeldrarEgill Sveinbjarnarson, bóndi.
Getur líka átt við Sveinbjörn Egilsson, ritstjóra.
Teikning af Sveinbirni eftir norska sagnfræðinginn Rudolf Keyser (1803-64).

Sveinbjörn Egilsson (24. febrúar 1791 í Innri-Njarðvík í Gullbringusýslu á Íslandi17. ágúst 1852) var íslenskur guðfræðingur, kennari, þýðandi og skáld. Hann er einna best þekktur sem fyrsti rektor Menntaskólans í Reykjavík (sem þá hét Lærði skólinn) og sem þýðandi Hómers.

Faðir hans, Egill Sveinbjarnarson, var lítið þekktur en þó efnaður bóndi. Sveinbjörn var í fóstri hjá Magnúsi Stephensen og hlaut menntun sína frá ýmsum aðilum. Hann gekk aldrei í latínuskóla, en þess í stað brautskráðist hann úr heimaskóla Árna Helgasonar 1810. Hann komst ekki í háskóla strax vegna ófriðar, en hóf 1814 guðfræðinám við Hafnarháskóla, sem hann lauk árið 1819. Við komu sína aftur til Íslands fékk hann kennarastöðu við Bessastaðaskóla, en þegar skólinn flutti til Reykjavíkur var hann gerður rektor. Hann var því fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Aðalkennslugrein hans var forngríska. Sveinbjörn var giftur Helgu Gröndal, dóttur Benedikts Gröndals eldra, yfirréttardómara.

Á meðan hann gegndi kennara- og rektorsembætti vann hann mikið að ýmiss konar þýðingum, oft fyrir skólann (t.d. skólaþýðingu á Menón eftir Platón), en einnig á öðrum vettvangi. Frægastar eru sennilega þýðingar hans á kviðum Hómers, Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Fyrir Fornfræðafélagið, sem hann var stofnfélagi að, þýddi hann Íslendingasögurnar á latínu (Scripta historica Islandorum). Hann tók saman orðabók yfir íslenskt skáldamál Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis sem varð grundvallar-uppsláttarrit fyrir allar framtíðarrannsóknir á fornum íslenskum kveðskap síðar meir. Hann þýddi einnig Snorra-Eddu á latínu og gaf út með frumtexta og vísnaskýringum. Hann samdi að auki nokkuð af ljóðum, meðal annars sálminn Heims um ból og tvo aðra sálma í sálmabókinni. Þegar hann dó var hann enn að vinna að þýðingu Ilíonskviðu í bundnu máli, en sonur hans, Benedikt Gröndal yngri, lauk við verkið.

Veturinn 1849-50 gerðist í Lærða skólanum atburður sá, sem kallaðist Pereat. Forsagan var sú Sveinbjörn vildi þröngva skólapilta að ganga í bindindisfélag skólans. Þeir gengu þó flestir fljótlega úr félaginu, en við það reiddist Sveinbjörn mjög og flutti þeim harða skammaræðu 17. janúar 1850. Skólapiltar brugðust við með því að heimsækja rektor og hrópa pereat, sem er latneskt afhróp og þýðir farist hann! Sveinbjörn fór þá til Kaupmannahafnar að leita liðsinnis danskra skólayfirvalda, sem kváðust styðja hann. Hann lét þó af störfum 1851 og lést rúmu ári síðar.

  • Skólaræður Sveinbjarnar Egilssonar. Almenna bókafélagið. Reykjavík, 1968.