Fara í innihald

Hið konunglega norræna fornfræðafélag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fornfræðafélagið)

Hið konunglega norræna fornfræðafélag, eða Fornfræðafélagið (sem á dönsku heitir Det kongelige Nordiske Oldskriftselskab), var stofnað 28. janúar 1825, á afmælisdegi konungsins, Friðriks 6. Markmið félagsins var að gefa út íslenskar fornbókmenntir, og auka þekkingu á fornri sögu og menningu Norðurlanda. Félagið hét fyrst Hið norræna fornfræðafélag, en varð konunglegt með konungsbréfi 9. maí 1828.

Stofnun félagsins og fyrstu ár

[breyta | breyta frumkóða]

Í undirbúningsnefnd um stofnun félagsins voru Carl Christian Rafn, Gísli Brynjólfsson eldri, Sveinbjörn Egilsson og Þorgeir Guðmundsson. Formaður fyrstu þrjú árin var Rasmus Kristján Rask, með honum í stjórn voru m.a. Josef N. B. Abrahamson varaformaður og Carl Christian Rafn ritari. Í útgáfunefnd voru sömu menn og verið höfðu í undirbúningsnefndinni, en við fráfall Gísla Brynjólfssonar, 1827, tók Þorsteinn Helgason sæti í nefndinni. Árið 1828 gekk Rask úr stjórn; tók Abrahamson þá við formennsku og Finnur Magnússon við varaformennsku. Vann hann mikið fyrir félagið meðan kraftar hans entust (d. 1847).

Segja má að í fyrstu hafi félagið verið hálf íslenskt. Íslendingar tóku mikinn þátt í stofnun þess og útgáfustarfi, markmið félagsins var fyrst og fremst að gefa út íslensk fornrit, og lög félagsins voru bæði á íslensku og dönsku og var íslenski textinn prentaður á undan hinum danska. Árið 1831 komu upp alvarlegar deilur í félaginu milli Rafns og nokkurra Íslendinga sem unnið höfðu að útgáfum þess, einkum Þorgeirs Guðmundssonar og Þorsteins Helgasonar. Var Baldvin Einarsson leiðtogi Íslendinganna, sem töldu að Danirnir, einkum Rafn, eignuðu sér heiðurinn af öllu því sem gert var. Einnig er hugsanlegt að ágreiningur um stefnu félagsins hafi legið að baki. Rafn hafði árið áður verið skipaður í Fornminjanefndina, og beindist áhugi hans síðan æ meir að danskri fornleifafræði, eins og t.d. kom fram í tímaritum félagsins. Blandaðist Rask inn í þessar deilur, sem ollu miklum sárindum á báða bóga. Finnur Magnússon reyndi að lægja þessar öldur, en stóð þegar á reyndi með þeim Rafni og Rask. Sveinbjörn Egilsson leiddi deilurnar að mestu hjá sér, enda var hann þá fluttur til Íslands. Þrátt fyrir búsetu sína þar var hann lengst af einn dýrmætasti starfsmaður félagsins, bæði við útgáfustörf og þýðingar á latínu.

Rafn var ritari félagsins meðan hans naut við. Hafði hann einstaka hæfileika til að vinna félaginu brautargengi, skrifaði þjóðhöfðingjum, aðalsmönnum og auðmönnum víðsvegar um Evrópu og fékk þá til að leggja fram fé til starfseminnar. Hann ávaxtaði þetta fé vel og varð félagið með tímanum stórauðugt. Ekki má gleyma framlagi einstaklinga. Þegar Fornmanna sögurnar komu út, gerðust um 1.000 Íslendingar áskrifendur, meðal þeirra fjöldi bænda og vinnufólks um allt land.

Helstu útgáfurit til 1864

[breyta | breyta frumkóða]

Driffjöðrin í starfsemi félagsins fyrstu áratugina var Carl Christian Rafn. Gaf félagið út á þeim árum fjölda merkra rita og ritraða. Meðal þeirra má nefna:

Helstu útgáfurit eftir 1864

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir fráfall Carls Christians Rafns (1864) dró nokkuð úr útgáfustarfi félagsins. Af ritum sem síðan hafa komið út, má nefna:

Síðustu áratugir

[breyta | breyta frumkóða]

Digrir sjóðir Fornfræðafélagsins freistuðu danskra fornleifafræðinga, og fór svo að þeir yfirtóku félagið. Hefur það síðan lítið komið að útgáfu íslenskra fornrita.

Félagið er enn starfandi. Það gefur út tímaritið Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie, sem hefur einkum birt greinar um fornleifafræði.

Þjóðhöfðingi Danmerkur er forseti félagsins, nú drottningin, Margrét Þórhildur.

  • Danska Wikipedian, 21. desember 2007.
  • Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga (1995), bls. 300–306 og 394–396.
  • Ýmis rit félagsins.