Fara í innihald

Svanhildur Hólm Valsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Svanhildur Hólm Valsdóttir (f. 11. október 1974) er sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Svanhildur var skipuð sendiherra árið 2024 og af­henti Joseph R. Biden Banda­ríkja­for­seta trúnaðarbréf sitt sem sendi­herra Íslands í Banda­ríkj­un­um þann 18. sept­em­ber 2024.[1] Svanhildur var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands frá árinu 2020[2] til ársins 2024. Áður starfaði hún við fjölmiðla og sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar ráðherra.

Foreldrar Svanhildar eru Valur Hólm Sigurjónsson vélfræðingur og Fjóla Stefánsdóttir starfsmaður skattsins á Akureyri. Systir Svanhildar heitir Margrét Hólm Valsdóttir (f.1967)[3] Svanhildur er alin upp við Laxárvirkjun í Aðaldal en þar starfaði faðir hennar. Svanhildur er í hjónabandi með Loga Bergmanni Eiðssyni fjölmiðlamanni og eiga þau saman tvær dætur. Fyrir átti Logi fjórar dætur og Svanhildur einn son.[4]

Menntun og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Svanhildur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1994, útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2009 og hefur lokið MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.[5]

Fjölmiðlaferill Svanhildar hófst árið 1995 er hún varð blaðamaður á dagblaðinu Degi á Akureyri. Þaðan fór hún yfir til svæðisútvarps RÚV á Akureyri auk þess sem hún var umsjónarmaður Morgunútvarps Rásar 2 um tveggja ára skeið. Hún var stigavörður í Gettu betur árið 2003, var einn umsjónarmanna Kastljóss um tíma og síðar einn af umsjónarmönnum Íslands í dag á Stöð 2. Svanhildur var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 2009-2012, hún varð aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benedikssonar árið 2012 og var aðstoðarmaður hans sem ráðherra í fjármálaráðuneytinu og um tíma í forsætisráðuneytinu frá 2013-2020.[6] Í október árið 2020 var tilkynnt að Svanhildur hefði verið ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og hóf hún störf þar 1. desember sama ár[5]. Svanhildur starfaði hjá Viðskiptaráði til ársins 2024 þegar hún var skipuð sendiherra.

Hún hefur sinnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var m.a. annar varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) frá 1997-2001.[6] Svanhildur kom fram sem fulltrúi íslenskra kvenna í spjallþætti Oprah Winfrey árið 2005.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Svanhildur Hólm fundaði með Biden í Hvíta húsinu“. www.mbl.is. Sótt 14. október 2024.
  2. „Svanhildur Hólm næsti sendiherra í Washington“. www.vb.is. Sótt 14. október 2024.
  3. Morgunblaðið, „Gömul sál og bókaormur“, 11. október 2014
  4. 4,0 4,1 Dagblaðið Vísir - DV, „Glæsileg hjón sem stefna hátt“, 18. ágúst 2006 (skoðað 9. janúar 2021)
  5. 5,0 5,1 Visir.is, „Svanhildur nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs“ (skoðað 9. janúar 2021)
  6. 6,0 6,1 Kjarninn.is, „Hvaða reynslu hafa aðstoðarmenn ráðherra?“ (skoðað 9. janúar 2021)