Svala Þórisdóttir Salman
Svala Þórisdóttir Salman (28. júlí 1945 – 28. mars 1998) var íslenskur listmálari.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Svala ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Borghildur Jónsdóttir (1912 – 1997) og Þórir Baldvinsson arkitekt (1901 – 1986). Þórir var forstöðumaður Teiknistofu landbúnaðarins og einn af frumkvöðlum funkisstefnunnar á Íslandi.
Barbara Árnason listamaður, var náinn fjölskylduvinur og hafði mikil áhrif á að Svala hóf listnám. Svala nam við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík um tveggja ára skeið en fór til náms í Englandi 19 ára gömul, 1964. Þar dvaldi hún í 4 ár ásamt Karólínu Lárusdóttur, vinkonu sinni, við listnám.
Svala giftist John B. Ritch 1970, starfsmanni utanríkismálanefndar bandaríska þjóðþingsins og fluttist til Washington DC eftir tæplega ársdvöl í Seúl, Suður-Kóreu. Kóreudvölin hafði mikil áhrif á list hennar. Svala og John skildu 1978. Árið 1981 giftist Svala Dr. Melhem D. Salman, frá Líbanon, hagfræðingi hjá Alþjóðabankanum í Washington. Þau eignuðust soninn Daoud Salman 1983.
Mestan hluta starfsævinnar dvaldi Svala í Washington en heimsótti land sitt og fjölskyldu nánast á hverju ári. Hún lést í Washington 28. mars 1998 eftir áralanga baráttu við brjóstakrabbamein.
Nám
[breyta | breyta frumkóða]- Handíða- og myndlistarskólinn 1962 – 1964 m.a. undir leiðsögn Kurt Zier og Braga Ásgeirssonar
- Sir John Cass School of Art, Architecture and Design, London, 1964 – 1965
- The Ruskin School of Drawing and Fine Art, Oxford, 1965 – 1968
Svala var samtíða Karólínu Lárusdóttur listmálara, í báðum skólunum í Englandi.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta einkasýning Svölu var í Christ Church College í Oxford í júní 1968.[1] New College í Oxford keypti 2 verka hennar. Í nóvember 1968 hélt Svala sína fyrstu einkasýningu á Íslandi í Unuhúsi.
Haustið 1968 fékk hún vinnuaðstöðu í Klúbbnum við Borgartún en þar voru vinnustofur og gallerí um tíma. Þar sýndi Svala verk ásamt öðrum listamönnum í september 1969.[2] Þar kynntist hún einnig meðlimum hljómsveitarinnar Trúbrot og teiknaði þau. Tvö verk eru geymd á Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ.[3]
Á þessum árum kynntist Svala, gegnum vini og ættingja, Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, áður borgarstjóra. Svo fór að hann fól henni að mála portrett af sér fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, mynd sem síðar hékk uppi í Höfða. Sú mynd er sennilega það verk Svölu sem víðast hefur birst. Hún er áberandi í bakgrunni á myndum í Höfða 1986. Síðar málaði Svala andlitsmyndir af nokkrum öðrum þekktum einstaklingum heima og erlendis.
1969 – 1970 dvaldi Svala ásamt þáverandi manni sínum, John Ritch, í Seoul. Þar kynntist hún tússteikningum á hrísgrjónapappír, listformi sem hún nýtti sér vel. Í janúar 1971 hélt hún sýningu í Norræna húsinu á 18 verka sinna frá þessum tíma.[4][5]
Í apríl 1973 var sýning á 40 verkum Svölu á vegum listafélags Alþjóðabankans í Washington DC, flestar myndanna voru að láni úr safni Michael J. Gillette, starfsmanns bankans. Fram til loka árs 1980 tók hún þátt í nokkrum samsýningum í Washington og síðar starfaði hún um tíma með Spectrum Gallery í Georgetown og sýndi þar verk sín.
Svala kynntist menningu Mið-Austurlanda gegnum seinni mann sinn, Melhelm Salman, en áður hafði hún kynnst og heillast af list austurlanda er hún dvaldist í Suður-Kóreu. Hún kynntist Súfisma og tengdist Center of Sufism Reoriented í Washington.
Í veikindum sínum síðustu 4 árin var hún mjög virk og málaði mikið. Verk hennar frá þessum tíma sýna augljós áhrif kynna hennar af menningu austurlanda. Eftir lát Svölu 28. mars 1998, var haldin sýning á nokkrum síðustu verkum hennar í Washington Home and Community Hospice, þar sem hún hafði dvalið 2 – 3 síðustu vikur ævi sinnar.
Ári síðar, 20. febrúar – 7. mars 1998, var haldin yfirlitssýning á verkum Svölu í Gerðarsafni, Kópavogi.[6][7]
Sýningar
[breyta | breyta frumkóða]- Church College, Oxford, 1968
- Unuhús, Reykjavík, 1968
- Klúbburinn, Reykjavík, 1969 - samsýning
- Norræna Húsið, Reykjavík, 1971
- World Bank Art Society, Washington DC, 1973
- Gallery Spectrum, Washington DC
- Á heimili hjónanna Sharon og Gar Alperovitz, Washington DC, 1980
- ALIF Gallery, Washington DC, 1982 - samsýning
- Washington Home and Community Hospice, Washington DC, 1998
- Gerðarsafn, Kópavogi, 1999
Mannamyndir
[breyta | breyta frumkóða]- Ástríður Andersen (í einkaeign)
- Bjarni Benediktsson (Listasafn Reykjavíkur)
- Geir Hallgrímsson (í einkaeign)
- George McGovern (Safn öldungardeildarþingmannsins George McGovern í Dakota Wesleyan University í Mitchell, South Dakota)
- Hans G. Andersen (í einkaeign)
- Þórir Baldvinsson (Safnahúsið á Húsavík)
- Þorsteinn Gylfason (í einkaeign)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Morgunblaðið, timarit.is. „Málverkasýning íslenskrar stúlku í Oxford“.
- ↑ Vísir, timarit.is. „Í Klúbbtúni“ (PDF).
- ↑ DV, timarit.is. „Eins og að ganga inn í röntgenvél“.
- ↑ Morgunblaðið, timarit.is. „Asíumyndir“.
- ↑ Morgunblaðið, timarit.is. „Myndlistasyrpa“.
- ↑ Lesbók Morgunblaðsins, timarit.is. „Sigur andans í list Svölu“ (PDF).
- ↑ Lesbók Morgunblaðsins, timarit.is. „Sigur andans í list Svölu“ (PDF).