Svaðilför til Sveppaborgar
Svaðilför til Sveppaborgar (franska: Panade à Champignac) eftir Franquin er nítjánda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Verkið hefur að geyma tvær sögur: Apana hans Nóa (franska: Bravo les Brothers) (22 bls.) sem birtist í teiknimyndablaðinu Sval árið 1966 og titilsöguna (37 bls.) sem birtist í sama blaði 1967 til 1968. Bókin kom út á frummálinu árið 1968 en á íslensku árið 1972. Þetta voru síðustu sögur Franquins um Sval og Val.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Svalur og Valur halda í frí til Sveppagreifans eftir að sá síðarnefndi hefur fengið nóg af uppátækjum Viggós viðutans í vinnunni. Greifinn reynist úrvinda eftir að hafa þurft að sinna Zorglúbb sem hefur þroska átta mánaða barns eftir áfallið sem hann varð fyrir í lok Með kveðju frá Z.
Ottó Papparapapp, vitgrannur fyrrum liðsmaður Zorglúbbs, sér sinn gamla foringja og ákveður að frelsa hann án þess að átta sig á ástandi hans. Papparapapp reynir að hrifsa Zorglúbb frá félögunum þar sem þeir ýta honum í barnavagni og tekst að lokum að nema hann á brott eftir æsilegan eltingaleik.
Óvitinn Zorglúbb sendir lömunargeisla í allar áttir innan Sveppaborgar og endar á að lama Papparapapp, Sval, Val og sjálfan sig. Sveppagreifinn kemur þó til bjargar. Allir komast aftur til sjálfs sín og Zorglúbb reynist hafa læknast og tekur til við friðsæl vísindastörf ásamt greifanum.
Aparnir hans Nóa gerist að mestu á ritstjórnarskrifstofu Tímaritsins Svals, með sömu aukapersónum og í bókunum um Viggó viðutan. Athafnamaðurinn herra Seðlan hyggst skrifa undir mikilvæga samninga, en allt fer í handaskolum ekki hvað síst vegna þriggja simpansar sem Viggó keypti á uppboði. Aparnir gera allt vitlaust, en að lokum komast þeir í hendur Nóa, gamla dýratemjarans sins.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- TMyndasöguhöfundarnir Peyo og Gos eru skráðir meðhöfundar Franquins í Svaðilför til Sveppaborgar, auk þess sem teiknarinn Jidéhem aðstoðaði við bakgrunnsmyndir. Peyo og Gos gerðu þó sjálfir lítið úr sínum þætti í verkinu, sögðu að Franquin hefði kallað þá til aðstoðar þar sem hann átti sjálfur við þunglyndi að stríða, en hafi hins vegar sjálfur sinnt mestallri vinnunni.
- Í lok Svaðilfararinnar beinir Gormdýrið lömunargeislanum að Sveppagreifanum og hleypir af. Í horninu birtist skilti um sögulok og virðist sem bókaflokknum hafi lokið með ósköpum. Á næstu síðu (og í næsta tölublaði teiknimyndablaðsins Svals) kemur hins vegar í ljós að um gabb var að ræða og Sveppagreifinn lamaðist ekki í raun og veru. Vakti þetta vangaveltur Svals og Vals-unnenda um hvort Franquin hefði sjálfur kosið fyrri endalokin, enda varð þetta hans síðasta saga.
- Aparnir hans Nóa er óvenjulegt Svals og Vals-ævintýri og minnir í raun frekar á Viggó-sögu. Söguþráðurinn er rýr, en þeim mun meiri áhersla lögð á skemmtileg uppátæki apanna.
- Nói er aukapersóna í sjálfstæðum bókaflokki Franquins um gormdýrin í Palombíu.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Svaðilför til Sveppaborgar var gefin út af Iðunni árið 1972 í íslenskri þýðingu Jóns Gunarssonar. Þetta var fimmta bókin í íslensku ritröðinni.