Fara í innihald

Suðurey (Færeyjum)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Suðurey

Suðurey (færeyska: Suðuroy) er syðsta eyja Færeyja og sú fjórða stærsta, 163 km². Vesturströnd eyjarinnar er hálend og þar eru mörg þverhnípt fuglabjörg en austurströndin er mjög vogskorin. Mörg sker og hólmar eru við strendur eyjarinnar. Hæsta fjall eyjarinnar er Gluggarnir (610 m) en bjargið Beinisvørð vestan við þorpið Sumba er þó langþekktast.

Fólksfækkun

[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar Suðureyjar voru 4721 þann 1. janúar 2011 en voru tæplega 6000 um 1985 og hefur fækkað jafnt og þétt síðan, meðal annars vegna þess að Suðurey er sú eyja Færeyja sem liggur lengst frá hinum og þótt hugmyndir séu uppi um að gera þangað neðansjávargöng er ólíklegt að úr því verði á næstu árum, en göngin yrðu um 20 km löng. Ungu fólki fækkar langmest; heildarfækkunin var um 16% á árunum 1985–2010 en fólki á aldrinum 20–39 ára hefur á sama tíma fækkað um 24,8% og fólki undir tvítugu um 31,5%.[1]

Til Suðureyjar siglir ferja nokkrum sinnum á dag og tekur siglingin frá Þórshöfn til ferjuhafnarinnar Krambatanga á Suðurey um tvo klukkutíma. Til eyjarinnar er einnig áætlunarflug með þyrlu.

Séð frá Hvalba, nyrst á Suyðurey, yfir til Litla Dímunar.

Byggðirnar á Suðurey eru, taldar frá norðri til suðurs: Sandvík, Hvalba, Froðba, Tvøroyri, Trongisvágur, Øravík, Fámjin, Hov, Porkeri, Vágur, Akrar, Lopra og Sumba. Þær eru allar á austurströndinni nema Fámjin og Sumba. Eyðibyggðirnar Víkarbyrgi og Akrabyrgi eru á sunnanverðri eynni og eru báðar sagðar hafa farið í eyði í Svarta dauða. Víkarbyrgi byggðist raunar aftur en fór í eyði skömmu fyrir síðustu aldamót. Vegir eru milli allra byggðanna og tvenn jarðgöng sem tengja nyrstu byggðirnar tvær við syðri hluta eyjarinnar eru með elstu göngum Færeyja. Tvenn önnur göng eru á eynni.

Stærstu bæirnir eru Tvøroyri (809 íbúar 1. janúar 2011), sem er stjórnsýslumiðstöð Suðureyjar, og Vágur (1377 íbúar). Báðir standa þeir við firði umgirta fjöllum. Þessir tveir bæir skiptast á að halda árlega sumarhátíð eyjarskeggja, sem kallast Jóansvaka og er ekki ósvipuð Ólafsvökunni í Þórshöfn en er haldin síðustu helgi í júní.

Aðalatvinnuvegir eyjarskeggja eru sjósókn og landbúnaður en fyrr á árum var námagröftur mikilvæg atvinnugrein í Hvalba. Námavinnsla var hafin þar á seinni hluta 18. aldar og árið 1954 voru unnin þar 13000 tonn af kolum, sem var 75% af kolaþörf færeyskra heimila. Náman er enn starfandi en nú vinna þar aðeins örfáir menn og öll kolin er notuð á eynni sjálfri.

Gömul verslunarhús á Tvøroyri.

Sagt er að munkar frá Bretlandseyjum hafi sest að á Suðurey um miðja 7. öld og er hún samkvæmt því sú eyjanna sem fyrst byggðist. Einni til tveimur öldum síðar komu norrænir víkingar og settust að á eynni. Blómleg byggð er talin hafa verið í Suðurey á miðöldum en í Svarta dauða 1349 er sagt að þrír fjórðu eyjarskeggja hafi fallið í valinn og tvær byggðir að minnsta kosti lögðust í eyði.

Á 17. öld gerðu sjóræningjar oft strandhögg á eynni, drápu menn og rændu mat, svo að hungursneyð varð þar og fjöldi manna dó úr sulti. Önnur ástæða fyrir hungursneyðinni var hinn langi og erfiði róður til Þórshafnar, þar sem einokunarverslunin var, og Suðureyingar stunduðu því mikla launverslun við erlenda sjómenn. Það ástand lagaðist ekki fyrr en 1826, þegar langþreyttir Suðureyjarbúar fengu því loks framgengt að verslunin opnaði útibú á Tvøroyri.

Árið 1768 hraktist skipsflak frá Bretlandseyjum til Suðureyjar. Á því voru rottur sem dreifðust fljótt um eyna og ollu miklum skaða á fuglastofnum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. [1] Hagstova Færeyja, skoðað 16. apríl 2011.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.